þriðjudagur, janúar 12, 2010

Umræðan um Icesafe samningana hefur tekið nýja og óvænta stefnu eftir að forsetinn neitaði að undirrita lögin sem samþykkt voru þann 30. desember. Umræðan um stöðu Íslands og hvernig hafi átt að þröngva þjóðinni til að taka á sig óbærilegar fjárhagslegar skuldbindingar vegna ástæðna sem vægast sagt mikill vafi leikur á hvort séu yfir höfuð eitthvað á ábyrgð þjóðarinnar. Maður gengur undir manns hönd að tala máli Íslands í virtum erlendum fjölmiðlum (Economist, BBC, CNN, Financial Times). Það setur aftur á móti að manni ugg þegar ráðist er af Íslendingum á suma þessara einstaklinga og reynt að gera eins lítið og hægt er úr máli þeirra. Ég hélt að einstaklingur í nauðum væri þakklátur hverri þeirri aðstoð sem honum væri rétt. Kannske ákveðinn hluti þjóðarinnar sé með álíka hugarfari og Þorgeir Hávarsson sem fyrirgaf fóstbróður sínum, Þormóði Kolbrúnarskáldi, það aldrei að hann skyldi bjarga Þorgeiri af graðhvannarnjólanum í Hornbjargi vestra forðum daga.

Ég var áðan að horfa á spjallþátt í sænska sjónvarpinu þar sem rætt var um Icesafe málið. Þáttastjórnandinn ræddi við tvo Íslendinga og einn Svía. Eini maðurinn sem skýrði almennilega út staðreyndir málsins og lýsti af einhverjum krafti þeirri stöðu sem Íslendingar verða í með samþykkt Icesafe samningsins var Svíinn. Ég hélt að í svona málum væri keyrð ákveðin strategía meðal opinberra talsmanna landsins. Skipulagt væri hvaða staðreyndir yrðu að koma fram hvenær sem menn kæmust í tæri við hljóðnema. Það verður að leggja áherslu á þetta og þetta og þetta. Hvar og hvenær sem er. Þannig er hægt að hafa áhrif á almenningsálit og fjölmiðla. Þannig er hægt að hafa áhrif á stjórnvöld í hverju landi fyrir sig. Þetta heitir að stjórna umræðunni eða alla veg að gera tilraun til þess. Það þýðir lítið að fimbulfamba út og suður meðan jörðin brennur undir fótum okkar. Það er kannske ekki að ástæðulausu að formaður hollenskra sparifjáreigenda segir að hans mat sé að Íslendingar megi skerpa sig verulega í PR málum.

Það var fundur í 100 km félaginu á sunnudaginn. Það voru teknir inn nýir félagar og það var skipt um forseta. Það var ákveðið að halda 100 km hlaup árið 2011 og það var ákveðið að skerpa heldur reglurnar við framkvæmd slíkra hlaupa og færa þær að því sem viðgengst í okkar nágrannalöndum. Það á ekki að gefa neinn afslátt í þessari grein íþrótta frekar en öðrum. Nú eru komnir rétt tæpir 30 hlauparar í félagið og er það ánægjuleg þróun. Marga langar að bætast í hópinn og munu þeir tínast inn einna f öðrum á næstu misserum. Að fara úr maraþonhlaupum yfir í ofurmaraþon er álíka tilfinning og að koma úr búningsklefa inn í íþróttasal. Möguleikarnir virðast óendanlegir, plássið ótakmarkað. Fjölbreytileikinn er svo mikill, ögranirnar svo ólíkar.

Engin ummæli: