Fréttin af þýska göngumanninum sem týndist á Eyjafjallajökli er dálítið sérstök. Þrír göngumenn sem sagðir eru þaulvanir eru uppi á jökli í háskammdeginu um hávetur. Þeir verða viðskila. Það er eitthvað mjög sérstakt. Þaulvanir göngumenn verða ekki viðskila uppi á jökli það sem aðstæður eru mjög erfiðar og hættulegar. Eftir því sem stóð í blöðunum í morgun hafði sá sem týndist hvorki áttavita eða GPS tæki. Það er mjög sérstakt að þaulvanur göngumaður fari upp á jökul þegar allra veðra er von án þess að hafa einföldustu rötunartæki með sér. Þannig gerir þaulvanur göngumaður bara ekki. Það er svo einfalt. Alls fóru 150 manns upp á jökul að leita að honum með öll sín tól og tæki. Allt í boði hússins. Sem betur fer fannst maðurinn heill á húfi. Hann og félagar hans eru ekki af baki dottnir heldur ætla þeir að halda upp á Vatnajökul. Hvað gerist ef þeir týnast þar. Það er fínt að hafa það í bakhöndinni að tugir eða hundruð manna stökkvi af staða að leita ef þeir gleyma GPS tækinu eða áttavitanum. Allt í boði hússins. Þetta getur maður kallað þjónustu.
Ég man eftir því að í bók Ólafs Arnar Grænlands- og Suðurskautsfara "Hvíti Risinn" sem fjallar um gönguferðina yfir Grænlandsjökul kemur fram að þeir fengu ekki fararleyfi inn á jökulinn fyrr en heimamenn höfðu fullvissað sig um að þeir hefðu allar nauðsynlegar tryggingar ef þyrfti að leita að þeim eða sækja þá. Grænlendingar virðast vera löngu hættir því að hlaupa til í sjálfboðavinnu ef þarf að bjarga þeim sem eru að fara inn á Grænlandsjökul. Það kostar einfaldlega allt of mikið. Ef menn eru að ferðast inni á öræfum um hávetur þá er lágmark að þeir kaupi sér tryggingar. Ef við erum að leggja í svona tvísýnu erlendis og þurfum á aðstoð að halda þá er það ekkert gert í boði heimamanna. Ég hef trú á að það komi feitur reikningur. Það viðhorf sem unnið er efir hérlendis býður upp á að menn ani út í tóma vitleysu og ef lent er í vandræðum þá er bara hringt í björgunarsveitina. Það kostar ekki neitt.
Alþingismenn hafa rætt um að það þurfi að auka virðingu Alþingis. Virðing er ekki eitthvað sem menn kaupa úti í búð. Virðingu skapa menn sér sjálfir með orðum sínum og athöfnum. Virðing Alþingis eykst ekki með því að rokið er til og ríkisborgararéttur afgreiddur eftir pöntun til handa barni sem var í höndunum á fólki sem var búið að koma sér í ógöngur með því að kaupa barnsfæðingu hjá konu úti í Indlandi. Virðing Alþingis eykst ekki með því að það eru samþykkt lög þann 18. desember um kolefnisgjald og lögin eiga að taka gildi eftir 12 daga. Ég hitti starfsmenn Umferðarstofu í morgun og þeir sögðu mér dálítið af því í hvaða stöðu þeir væru við að hefjat handa um að framkvæma þessi lög. Virðing Alþingis eykst ekki þegar það kemur í ljós að lögin um kosningu til stjórnlagaþingsins hafi verið illa grunduð. Virðing Alþingis eykst ekki þegar þingmenn leggja fram tillögu um að veita rússneskri stúlku, sem hefur dvalist ólöglega í Noregi um árabil, ríkisfang sem snarast. Ætla menn að kippa hingað til lands öllum ríkisfangslausum einstaklingum sem fréttist af úti í hinum stóra heimi eða á þessi greiðvikni bara við um ungar sætar stúlkur sem hafa skrifað bók. Ég virði principafstöðu Stoltenbers um að eitt verði yfir alla að ganga. Það er nákvæmlega þannig verklag sem gildir í alvöru samfélögum.
Ég fékk nýlega senda tilkynningu um Lífshlaupið sem á að hvetja til hreyfingu af ýmsum toga. Það getur verið gönguferðir, hjólreiðar, skokk og svo framvegis. Þetta er góðra gjalda vert nema að þetta á að gerast í febrúar. Febrúar er venjulega illviðrasamasti mánuður ársins. Ef ég vildi sneiða hjá einhverjum mánuði til að skipuleggja almenna útihreyfingu þá væri það febrúar. Stundum skilur maður ekki samhengi hlutanna.
föstudagur, janúar 28, 2011
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
án þess að ég sé að taka afstöðu til skrifanna þinna, get ég bætt því við, giftur til og hafandi búið á Grænlandi, að þar hefur aldrei verið leitað að nokkrum manni, hvorki útlendum né innlendum - án þess að senda reikning. engar björgunarsveitir, engir sjóbjörgunarbátar (nema danska gæslan) og engin þekking. slæmt mál, sem verið er að reyna að leysa m.a. með aðstoð íslendinga.
ég hef sjálfur fengið boð um að leita að manni sem týndist á sjó af því ég var á svæðinu. enginn fór út á eigin vegum, hvorki löggan né heimamenn.
Á grænlandi er gríðarlega slæmur infrastrúktúr, lélegar hafnir, vegleysur og svo frv. sem kallar á öflugt björgunarbackup. af því það er ekki til, er lítið um samgöngur og há afföll þegar eitthvað gerist. bara á svæðinu sem ég bjó á, fórust heilu fjölskyldurnar á hverju ári í bæjarleið. en enginn fór sérstaklega að leita að þeim, sæfarendur bara beðnir um að hafa augun hjá sér.
vegna þeirra sem fara yfir jökulinn, kann löggan einfaldlega ekki að hjálpa þér. kerfið sem var búið til var þannig að einn kall í kaupmannahöfn hélt utan um það hverjir skráðu sig í leiðöngrum. hann hafði líka neitunarvald..! neitaði m.a. einum hæfasta leiðangursmanni dana, sem er búinn að vera í leiðöngrum a grænlandi i 40 ár. af því það passaði ekki við ferðaáætlun krónprinsins sem var líka í leiðangri á sama tíma. flestir hafa bara vit á að láta engan vita og þá eru allir glaðir.
íslendingar geta verið stoltir af kerfinu sínu. rétt eins og í tryggingum almennt, dreifist kostnaðurinn á alla, sem gerir það að verkum að systemið virkar. það gerir það ekki á grænlandi. Og er alls ekki til fyrirmyndar.
vona að þetta upplýsi eitthvað.
mkv Baldvin Kristjánsson, Noregi.
Það er gömul saga að þaulreyndir erlendir fjallamenn lendi í vandræðum í íslenskum aðstæðum. Fólk áttar sig ekki á veðrabrigðunum á íslandi. Hér geta skipast svo fljótt veður í lofti að bændur sem þekkja hverja þúfu á sínu hlaði hafa orðið úti á 200 metra gönguferð á milli fjárhúsanna og bæjardyranna sinna. Það þarf alls ekki að vera merki um vankunnáttu eða trassaskap.
Sem betur fer er til fólk sem verðleggur ekki hjálpsemi sína við náungann og fer heldur ekki í manngreinarálit með það hverjum þeir hjálpa eða hvort þeir sem hjálparþurfi eru hefðu átt að gera hlutina einhvernveginn öðruvísi og þannig koma í veg fyrir að þeir þyrftu á hjálpinni að halda. Ég er svo heppin að hafa fengið að njóta þeirra forréttinda að fá að kynnast björgunarsveitarfólkinu og starfi þess og ég mundi ekki vilja hafa þetta öðruvísi.
Við lifum í landi náttúruhamfara. Hér verða eldgos, jarðskjálftar og snjóflóð. Í hvert skipti sem björgunarsveitarmenn eru kallaðir út í björgun þjálfast þeir betur í að hjálpa og verða betur undirbúnir fyrir að takast á við þau vandamál sem við gætum þurft að takast á við í heimabyggð.
En það má líka spyrja sig hvaða fíflaskapur það sé að vilja endilega búa á þesarri náttúruhamfaraeyju...
Bibba
Skrifa ummæli