þriðjudagur, janúar 18, 2011

Það hefur spunnist nokkur umræða út af þeim orðum sem ég lét falla á blogginu um helgina um að félögin sem standa að frjálsíþróttakeppninni á RIG leikunum þurfi að greiða RUV fyrir beina útsendingu frá mótinu. RUV hefur borið þetta til baka og segir að stóru kostunaraðilar RIG leikanna greiði þennan kostnað alfarið. Málið liggur mjög einfaldlega fyrir frá mínu sjónarhorni. Frjálsíþróttadeildir ÍR, Ármanns og Fjölnis standa að frjálsíþróttakeppni RIG leikanna ásamt FRÍ. Félögin bera alla fjárhagslega ábyrgð á þessum viðburði og annast framkvæmd hans. Starfsmenn FRÍ aðstoða þau á margan hátt, annast fjármálalega umsýslu og leggja síðan fram uppgjör fyrir félögin að mótinu loknu. Það kostar peninga að halda svona mót þrátt fyrir gríðarlega mikla sjálfboðavinnu. Tekna er aflað fyrir mótið fyrst og fremst á tvennan hátt. Í fyrsta lagi er safnað auglýsingum og styrktarlínum frá ýmsum fyrirtækjum (öðrum en meginstyrktaraðilum RIG) og öðrum aðilum sem styðja við bakið á frjálsíþróttastarfi í landinu. Margt smátt gerir eitt stórt. Auglýsingarnar og styrktarlínurnar birtast í leikskrá sem gefin er út fyrir frjálsíþróttakeppnina og dreift á henni. Í öðru lagi er seldur aðgangur inn á mótið. Það gefur nokkra tíuþúsundkalla af sér en megintekjuöflunin er af sölu auglýsinga og styrktarlína eins og áður segir. Keppendur fá hins vegar fría drykki frá Egils Kristal er er einn meginkostunaraðili RIG. Í uppgjöri fyrir mótið sem haldið var á árinu 2010 og lagt var fyrir félögin að því afloknu kemur fram að kostnaður við beina sjónvarpsútsendingu frá mótinu hjá RUV var 300.000 krónur. (Leiðrétting. Í endanlegu uppgjöri til félaganna var kostnaður vegna sjónvarpsútsendingar hjá RUV 225.000 kr en ekki 300.000 kr. ÍBR greiddi mismuninn. Í bráðabirgðauppgjöri hafði verið reiknað með að félögin greiddu 300.000 kr. Þessi munur breytir hins vegar ekki grundvallaratriði umræðunnar.) Engar tekjur frá meginkostunaraðilum RIG leikanna komu þar á móti. Tap var á mótinu í fyrra þannig að félögin þurftu að greiða hallann úr eigin vasa. Svoleiðis var niðurstaðan þrátt fyrir ítrasta sparnað á öllum sviðum. Það er hægt að diskútera það fram og til baka hvaða krónur fóru til að greiða hvaða reikning en svona er þetta. Endanlegt uppgjör vegna mótsins í ár liggur ekki fyrir en í fjárhagsáætlun sem sett var upp vegna þess er gert ráð fyrir útgjöldum vegna beinnar sjónvarpsútsendingar. Hún er unnin samkvæmt þeim upplýsingum sem lágu fyrir þegar áætlunin var gerð. Ef frjálsíþróttadeildirnar sleppa við að greiða RUV fyrir beina útsendingu frá mótinu í ár þá er það bara fínt en það er þá annað og betra fyrirkomulag en unnið var eftir í fyrra.

5 ummæli:

Kvartmann sagði...

Ef styrkjum er safnað frá stórum kostunaraðilum með þeim formerkjum að þeir eigi að kosta beina útsendingu þá skiptir máli hvaða peningur fór í að greiða hvað.

Annars er þetta klárt mál burtséð frá styrkjum og öðru að Rúv rukkar 300þús fyrir þessa útsendingu. Þó svo það sé safnað peningum fyrir þeim kostnaði.

Kv,
Hrafn J

Nafnlaus sagði...

Ég veit ekki hvort ég hafi ekki talað nógu skýrt en það eru engir stórir kostunaraðilar sem styrkja frjálsíþróttamótið á RIGleikunum. Það er safnað tíu og tuttuguþúsund köllum hér og þar til að fjármagna mótið. Félögin borga hallann ef hann verður af öðrum tekjum.Ég veit til dæmis ekki annað en að þegar sýnt er beint frá leikjum í efstu deild í fótboltanum þá fá félögin greitt fyrir það. Ef að þetta er rangt hjá mér þá leiðréttir mig vonandi einhver.

Kvartmann sagði...

Sæll

Ég gæti hafa misskilið þig því það stendur fyrst í færslunni að Rúv tali um stóru kostunaraðilana RIG.

Hinsvegar talar þú síðar í færslunni um meginstyrktaraðila RIG. Það mætti misskilja það á þann hátt að það séu stærri styrktaraðilar sem koma að mótinu.

Ég hef reyndar gengið út frá því að RIG leikarnir = frjálsíþróttamótið, sem gæti alfarið verið rangt.

Kv,
Hrafn

Nafnlaus sagði...

Sæll Hrafn
Það gæti verið að um einhvern misskilning væri að ræða. RIG leikarnir eru 12 mismunandi íþróttamót (sund, lyftingar, skylmingar, dans, skautar, babminton, fjálsar íþr. o.s.frv.) Þrír stórir kostunaraðilar styrkja miðlægan undirbúning fyrir leikana sem nýtist öllum. Síðan verðum við sem sjáum um frjálsíþróttamótið að fjármagna kostnaðinn það alfarið sjálf. Þar má nefna fæði og uppihald erlendra keppenda, leikskrá, ýmislegt annað sem tengist svona móti og síðan til þessa beina útsendingu frá mótinu að mestu leyti. Þeir aðilar sem styrkja okkur með auglýsingum eða styrktarlínum hafa engan ávinning af því að sýnt er beint frá mótinu. Þær birtast eingöngu í leikskrá.
Mbk
Gunnl.

Kvartmann sagði...

Sæll

Þetta útskýrir margt og að þessu gefnu get ég ekki skilið hvernig Rúv getur leyft sér að neita því að þetta sé greitt beint úr vasa þeirra sem standa að frjálsíþróttamótinu.

Kv,
Hrafn