Komum heim í gær eftir ágæta Danmerkurdvöl. Það var ekki til setunnar boðið þegar heimm var komið, fótboltabúningur Maríu fundinn í snatri og síðan farið yfir í Fagralund en þar voru stöllur hennar voru að keppa við HK. María náði að koma inn í seinni hálfleik og stóð sig vel. Víkingsstelpurnar unnu 2 - 1 en það er ekki hægt að segja með sanni að sá sigur hafi verið sanngjarn en svona er fótboltinn. Um kvöldið var svo leikur í Víkinni og þar skildu Víkingar og Keflavík jöfn.
Las blaðabunkann í morgun. Það voru fínar fréttir af Laugavegnum í Mogganum, bæði á undan hlaupinu og síðan heilsíðufrásögn af hlaupinu sjálfu. Blaðinu til sóma nema aðeins eitt, Laugavegurinn er íþróttamót en á ekki að flokkast sem fréttir utan af landi. Svona frásagnir eiga heima á íþróttasíðunum. Þetta kemur vonandi allt saman.
Ég hef verið að lesa frásagnir af Laugaveginum hjá Bibbu, Öggu, Berki, Ásgeiri og Morgunblaðsmanninum. Fleiri hafa einnig skýrt frá upplifun sinni af hlaupinu. Þetta var tíunda hlaupið. Veðrið hefur verið hagstætt í sjö hlaupum, vont veður í tveimur og mikill hiti í einu. Ég hugsa að þetta hlutfall sé nokkuð nærri sanni miðað við íslenskt veðurfar. Laugavegshlaupið er nú einu sinni uppi á hálendi.
Það er ljóst að mótshaldarar verða að fara yfir ýmis atriði með hliðsjón af þeirri reynslu sem stendur eftir þetta hlaup. Ég efa ekki að það verður gert því ég tel mig þekkja það vel til að nú vill fólk læra af reynslunni og gera gott betra. Lægra verður ekki komist en sumarið 2004 þegar löggufíflið á Selfossi sagði í blöðunum að það hefði svo sem verið allt í lagi þótt hann og hans menn hefðu ekki ratað ekki inneftir og komu þar af leiðandi allt of seint með drykkjarföng á drykkjarstöðvar. Hlaupararnir hefðu bara getað drukkið úr lækjum.
Það voru skráðir eitthundrað og fimmtíu manns í hlaupið. Það er veruleg aukning frá fyrri árum. Það er uppskera af góðri markaðssetningu á hlaupinu bæði innanlands og utan. Þá fer að vakna spurningin, hvað ráða mótshaldarar við mikinn fjölda? Á að setja fjöldatakmarkanir á hlaupið? Hvað ef kæmu 200 manns næst, svo 250 og síðan 300? Með vaxandi fjölda fara t.d. líkur að aukast á því á að eitthvað óvænt komi fyrir sem bregðast þurfi við. Það þarf að vera undir það búinn. Með vaxandi fjölda eykst fjöldi þeirra sem munu hætta í hlaupinu enda þótt hlutfallslega verði það svipað. Það hættu um 15% hlaupara í ár. Það hætta fleiri þegar veður er vont eins og í ár. Veðrið kom ekki á óvart, það var búið að spá leiðindaveðri alla vikuna. Hlaupið verður því að vera undir það búið að taka á móti hröktum hlaupurum sem standast ekki tímamörk eða hætta af öðrum ástæðum bæði í Álftavatni og í Emstrum. Það er óverjandi annað en að hafa heita næringu fyrir fólkið og öruggt skjól. Mér finnst varla boðlegt að treysta á skálana sem eru þegar upppantaðir af göngufólki sem einnig þarf á þeim að halda þegar veðrið er vont. Hvað getur Emstruskálinn tekið á móti mörgu fólki við svona aðstæður. Það verður að liggja nákvæmlega fyrir. Það er ekki boðlegt að ekki liggi fyrir í upphafi hlaups hvert verði farið með það fólk sem hættir í Emstruskálanum, hvenær verði farið með það og svo framvegis. Hvað ræður húsnæðið í Þórsmörk við margt fólk þegar veðrið er leiðinlegt?
Stór hluti hlauparanna eru erlendir hlauparar sem þekkja ekkert til aðstæðna hér og verða því að treysta í blindni á mótshaldara. Það þekkja allri þeir sem hafa tekið þátt í svona hlaupum erlendis. Það er þó mikill munur á því að hlaupa borgarhlaup eða óbyggðahlaup við aðstæður þar sem þú ert gjörsamlega ókunnugur öllu. Það á til dæmis að benda fólki á þann möguleika að senda þurr föt í Emstruskálann ef það skyldi þurfa að hætta þegar veðurútlit er slæmt. Einnig þarf að ráðleggja fólki um klæðnað við afhendingu gagna þegar veðurútlit er slæmt. Það hefur kannski verið gert og er það vel. Í Western States í fyrra var gert mjög mikið úr því að leiðbeina fólki sem var að takast í fyrsta sinn á við aðstæður sem það þekkti ekki. Sem fæst átti að koma á óvart til að minnka líkurnar á að eitthvað mistækist.
Samkvæmt lýsingum hlaupara þá þarf að fara yfir ýmis atriði í kjölfar þessa hlaups. Setja þarf upp nákvæmar áætlanir sem fara verður eftir miðað við veðurfarsaðstæður hverju sinni. Ein gildir fyrir mikinn hita, ein gildir fyrir vind, kulda og úrkomu og svo framvegis. Setja verður upp öryggisáætlun um það sem getur komið upp á. Ofþornun í hita, ofkælingu í kulda. Setja þarf upp áætlanir um ýmis atriði, það dregur úr því að eitthvað óvænt komi upp á.
Það kemur manni ekki á óvart að erlendir hlauparar skuli eiga erfitt að átta sig á leiðinni á stundum, bæði í kringum Hvanngil og eins á Söndunum. Það er mjög einfalt að bæta úr þessu og það þarf að gera það.
Ég var að lesa í gær bókina Distance running eftir skoskan hlaupara sem býr í Suður Afríku. Hann dregur mjög í efa gagnsemi þess að pastaát hafi nokkuð að segja í svo löngum hlaupum eins og Laugavegurinn er. Maraþonhlaup séu þeu lengstu sem pastaát geri eitthvað gagn í. Hann leggur miklu meiri áherslu á að byggja líkamann upp með long burn energy við hlaup sem eru lengri en 5 klst. Það er bara fyrst og fremst kjöt og fiskur. Staðgóðar máltíðir sem maður þarf við erfiðisvinnu. Nú vill maður næst fá stórsteikur fyrir Laugavegshlaup en ekkert pastarusl.
miðvikudagur, júlí 19, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Sammála hverju orði um Laugaveginn. Laugavegurinn er orðið það stórt hlaup að mun erfiðara er að halda utan um það en áður. Því er það rétt hjá þér að það þurfa að vera til plön fyrir abnormal veður, heitt og kalt, það mun bæði hjálpa mótshöldurum sem og hlaupurum. Í heitu veðri þarf fleiri drykkjarstöðvar og í köldu þarf að tryggja að hægt sé að koma fólki í skjól og veita þeim sómasamlega aðhlynningu. Það er margt gott búið að gera og reyna, nú þarf bara að fastnegla það sem reynslan hefur kennt mönnum.
Skrifa ummæli