sunnudagur, september 03, 2006
Þetta er búin að vera fín hlaupahelgi. Í fyrsta lagi hefur veðrið verið gott og í öðru lagi hefur verið hlaupið lengra en um langt skeið. Í gærmorgun þegar ég kom út upp úr kl. 9.00 og ætlaði að fara svona 15 km þá voru Hafrún, Kristín og Nína að gera sig klárar hér í heimreiðinni. Þær ætluðu að fara 30 km sem undirbúning fyrir Berlínarþonið og vitaskuld slóst ég í för með þeim. Við kláruðum síðan 30 km á tæpum þrem tímum í eins góðu veðri og hægt var að hugsa sér. Frábær dagur. Í morgun mætti ég svo niður í Laugar og hitti Vini Gullu. Þar var mættur góður hópur og ætluðu flestir að fara frekar stutt en við Biggi og Hálfdán fórum hefðbundna leið vestur á Eiðistorg og síðan austur með flugvellinum. Það vita allir sem þekkja Hálfdán og Bigga að þrátt fyrir góðan ásetning að hlaupa frekar rólega þá tekur sig alltaf upp gamall hraði hjá þeim. Dagurinn gerði 21 km og ég hef aldrei verið kominn heim svona snemma eftir að hafa farið hringinn úr Laugunum vestur á Eiðistorg og svo hefðbundna leið heim. Góð helgi enda ekki seinna vænna að fara að snúa sér í gang fyrir 6 tíma hlaupið eftir hálfan mánuð.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli