Ég hef svo sem ekki horft af miklum áhuga á Supernova þættina en þó af og til. Það hafa aðrir á heimilinu séð um þau verk af miklum áhuga. Ég horfði reyndar á síðasta þáttinn til enda. Það kom mér mest á óvart að heyra hvað Magni er góður gítarleikari. Hann tók gamla "Fire" með Hendrix af snilld í lokaþættinum. Þetta er greinilega náungi sem getur spilað á hvað sem. Það sem mér finnst flottast hjá þessum Magna er að láta vaða og taka þátt í svona ævintýri. Ef aldrei er vogað þá gerist ekki neitt. Hann stóð í sjálfu sér frammi fyrir því í upphafi að geta verið sendur heim með fyrstu vélunum og þá í sjálfu sér lítið haft upp úr þessu nema kostnaðinn og fyrirhöfnina. En af því hann lét á þetta reyna og gerði sitt besta þá stendur hann uppi sem sigurvegari, enda þótt hann hafi ekki verið kjörinn í hljómsveitina sjálfa. Ef menn hugsa fyrirfram að verkefnin séu hvort sem er óyfirstíganleg þá gerist ekki neitt. Það býr nefnilega oft meira í fólki en það gerir sér grein fyrir og býst við að óreyndu.
Fyndið að sjá loftmyndir á vefnum af heimaborgum þeirra fimm sem síðast voru eftir. Montreal, New York, Melbourne, (man ekki eina), og Borgarfjörður eystri (öll 20 húsin)!!!
Ég sé ekki annað en að það sé gert ráð fyrir blíðu á morgun. Logn. sólfar og 10 stiga hiti. Það verður kannski veður fyrir stuttbuxur og hlýrabol. Megi gott á vita. Ég held að það sé allt að vera klárt. Stebbi kom með Powerateduftið og töflu í gær. Hann er svo að fara norður í kvöld og ætlar að setja persónulegt met í 1/2 maraþoni fyrir norðan á morgun. Það á einnig að viðra vel á morgun fyrir norðan. Honum fylgja bestu óskir með þökk fyrir alla hjálpina.
Ég veit ekki hvort maður á að láta talskonu Feminstafélagsins pirra sig endalaust en mér fannst ekki voðalega uppbyggilegt að heyra hana bíta út úr sér orðin í fyrramorgun í útvarpinu þegar hún var að færa rök að því að skoðanir konu sem vinnur við súludans væru rangar og hún (talskonan) vissi betur. Konan sem vinnur við súludans hafði verið í viðtali í útvarpinu og var þar að lýsa sýn sinni og viðhorfi á starf sitt sem hún leit á eins og hvert annað starf. En talskonan vissi meir um eðli málsins en sú sem var að lýsa sinni eigin reynslu og sagði að hún hefði bara rangt fyrir sér. Það er ekki nýtt að til sé fólk sem hafi séð ljósið og lifi í fullvissu þess að það viti betur en annað fólk og skoðanir þess séu réttar en annað fólk hafi rangt fyrir sér. Trúarofstæki, pólitískt ofstæki og annað ofstæki byggir á svona viðhorfum. Forsjárhyggja byggir einnig á svona viðhorfum. Hinir vitru eiga að hafa vit fyrir fávísum pöplinum og leiða hann inn í Eldorado. Það er verst þegar pöpullinn er svo vitlaus að hann áttar sig ekki á því að fylgja þeim sem hafa séð ljósið.
Til að forða misskilningi og útúrsnúningi þá á súludans sem er stundaður af fúsum og frjálsum vilja að mínu mati ekkert sameiginlegt við það þegar eintaklingar eru þvingaðir til að stunda þess háttar vinnu eða hvers konar nauðungarvinnu yfir höfuð. Mannsal er allt annar hlutur.
föstudagur, september 15, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Gott gengi með 6 tíma hlaupið á morgun. Fínt framtak sem vonandi verður framhald á.
Skrifa ummæli