laugardagur, september 16, 2006

Það sást strax í morgun að þetta yrði fínn dagur. Hlýtt og bjart. Ég hafði verið svolítið áhyggjufullur fyrir sex tíma hlaupið því sumarið hafði farið alveg út og suður hjá mér. Það var ekki fyrr en um síðustu mánaðamót sem ég tók í rassgatið á sjálfum mér og fór að hlaupa nokkuð reglulega. Hraðaæfingar í hádeginu hafa verið einna drýgstar. Einnig munar um kílóin fimm sem hafa horfið í sumar. Nú var ekki til baka snúið. Ég vissi að það væri ekkert sjálfgefið í þessu. Vegna æfingaleysis gæti alveg eins skeð að fæturnir stirðnuðu og allt færi í baklás þegar líða færi á. Ég hafði tekið vel af steinefnum og vítamínum í síðustu viku og eins borðaði ég bara kjarnafæði dagana fyrir hlaup en lét allt pasta og Carboload eiga sig.
Hitti Sigurjón um níu leytið. Við urðum sammála um að láta tjaldið eiga sig því veðrið var með slíkum ágætum. Allt var klárt á tilsettum tíma. Einn keppandi skilaði sér ekki svo við urðum bara fimm. Síðan kom einn sem ætlaði að hlaupa en mátti sig hvergi hræra. Gísli aðalritari lét okkur standa áveðurs svo hann smitaði okkur ekki (þetta er kannski ofsagt) en hann fékk slæma magasýkingu í Tyrklandi á dögunum og léttist nú um 300 grömm á dag og verður svo eitthvað áfram.
Við lögðum af stað um tíu leytið og hlupum sólarsinnis. Það kom margt fólk fyrsta kastið sem tók slaufur með okkur fyrstu hringina og ljóst er að marga langaði til að vera með en eitthvað hamlaði eins og gengur. Sex tíma hlaup er alveg kjörið fyrir vana maraþonhlaupara að kynnast rytmanum og tilfinningunni fyrir 100 k hlaup. Það þarf að leggja það öðruvísi upp og það er lærdómur út af fyrir sig. Hringirnir kláruðust ein af öðrum og alltaf var jafn gaman að hlaupa. Það er ekki sjálfgefið að geta hlaupið í stuttbuxum og hlýrabol um miðjan september. Rigning í gær og rigning á morgun. Þetta er alltaf happdrætti. Ég kláraði maraþonið á ca 3.50 og leið eins og best verður á kosið. Þetta nuddaðist áfram mun betur en ég hafði þorað að vona. Þegar um einn og hálfur tími var eftir sá ég fram á að hafa möguleika á að ná yfir sextíu km. Það var mun betra en ég hafði búist við miðað við hvað sumarið fór í vaskinn. Það gekk eftir og var ég mjög sáttur við það og í sjálfu sér vel saddur. Maður hefði alveg getað nuddað áfram og klárað 40 km á 5 - 6 tímum því það var allt í lagi með fæturna. Því hefði ég ekki trúað að óreyndu. Stirðleikinn var í lágmarki og enginn særindi farin að koma í lærin. Líklega hafa selenið, magensíumið og C vítamínið góð áhrif.

Úrslitin urðu sem hér segir:

Börkur 63 km 631 m
Elín 62 km 344 m
Gunnl. 60 km 814 m
Höskuldur 52 km 321 m
Bryndís 44 km 441 m

Nú hafa menn árangur til að keppa við á næstu árum. Það er fínn árangur að þrír keppendur fari yfir 60 km. Í sex tíma hlaupinu á Borgundarhólmi sl. vor fóru tveir yfir 70 km og árangur Barkar hefði dugað honum í fjórða sætið. Reyndar hef ég trú á að hann hefði ekki þolað við að sjá í bakið á þeim sem varð í þriðja sæti og bætt við þeim km sem þurfti til að draga hann uppi. Börkur er harður. Sama má segja um Elínu. Hún hefur ekki hlaupið mikið frá því í Lapplandi en er greinilega í fantaformi.

Þetta hlaup er komið til með að vera. Allt gekk vel í framkvæmd þess og þetta er mjög einfalt í framkvæmd. Sigurjón, systir Barkar, Elín og Þórólfur og Maggi Guðm sáu um drykkjarstöðina með sóma auk þeirra sem komu til að horfa á og hvetja. (Já takk fyrir verðlaunin Eva). Ég veit um marga sem hafa áhuga á að takast á við svona hlaup þannig að þátttakendur verða örugglega fleiri á næsta ári. Ég hef lesið um að þegar fyrsta formlega maraþonhlauið var haldið hérlendis fyrir tæpum 40 árum þá tók einn íslendingur þátt í því. Jón Hlaupari, hver annar. Hann var þá 42 ára gamall og blöðin skrifuðu um að það ætti að banna svona gömlum mönnum að hlaupa maraþon, þetta væri tómt rugl að leggja svona langhlaup á gamla fætur. Nú hafa á áttunda hundrað íslendingar hlaupið maraþon og fer stöðugt fjölgandi. Ég hef trú á að þróunin í 100 km hlaupum verði nokkuð ör á næstu árum. Það er fullt af fólki hér sem hefur alla burði til að takast á við þá vegalengd og sex tímahlaup er fyrirtak sem millistig til undirbúnings.

Eftir að hafa farið í sturtu fór ég suður í Hafnarfjörð og sá seinni hluta leiks FH og Víkinga þar sem ekki fór á milli mála hvort liðið sat í sitt hvorum enda töflunnar. Við verðum að vona það besta fyrir síðasta leikinn sem verður í Víkinni eftir viku.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Væri óraunhægt að setja upp 100 km hlaup hér heima á næsta ári?