laugardagur, september 02, 2006

Ég fór á Laugardalsvöllinn í gærkvöldi að sjá U21 árs liðið spila við Ítalana. Þetta var leiðinlegur leikur með fáum færum. Ítalirnir sigruðu 0 - 1 en þeir áttu eitt annað færi í þeiknum en þá skutu þeir í stöng. Íslendingarnir áttu eitt eða tvö færi sem gátu endað með skoti en gerðu það ekki. Borðið var hins vegar dúkað fyrir gott fótboltakvöld, hlýtt, logn og margt af fólki á vellinum eða allt að 1500 manns. Stemmingin á vellinum var hins vegar eins og í jarðarför. Á meðan aðrar þjóðir hafa hefðir fyrir því að syngja og skemmta sér á áhorfendapöllum þá sitjum við og horfum einbeittir á leikinn og þegjum af staðfestu. Ef einhver kallar og hvetur liðið við slíkar aðstæður er hann álitinn annað hvort fullur eða skrítinn. Á undanförnum árum hefur orðið góð breyting hjá nokkrum félögum þar sem lögð hefur verið áhersla á að lífga bekkina við. Sveitir trumbuslagara slá taktinn og þá stendur ekki á því að áhorfendur taka undir. KR, Valur, Víkingur, Keflavík og Þróttur eiga öll góðar trommusveitir sem knýja áhorfendur áfram. Ég þarf ekki að láta segja mér það hvað það hlýtur að vera skemmtilegra fyrir þá sem spila á vellinum hverju sinni að heyra lífsmark með áhorfendum heldur en að hlusta á ískalda þögnina. Ég spurði einhvern eftir leikinn um hvers vegna ekki hefði verið taktsveit á vellinum í gærkvöldi. Þá var mér sagt að það væri bannað!!! Nú veit ég ekki hvort það séu í gildi alþjóðlegar samþykktir innan FIFA sem banna trommuslátt á knattspyrnuvöllum þegar landsleikir eru spilaðir. Það má vera og ef svo er þá er ekki meir um málið að segja nema að bölva í hljóði. En ef þetta er einhver uppfinning hér heima fyrir þá snýr málið öðruvísi við. Það er óásættanlegt að einhverjir njólar komist upp með að drepa niður þá möguleika sem eru fyrir hendi að framkalla stemmingu á landsleikjum. Að fara á völlinn á að vera skemmtun fyrir bæði leikmenn og áhorfendur. Áhorfendur eru partur af leiknum og eiga að taka þátt í honum á allann þann hátt sem þeir mega og geta. Við eigum að leggja okkur alla fram um að byggja upp stemmingu og fjör á pöllunum þegar landsleikir eru en ekki að sætta okkur við að það ríki einhver jarðarfararstemming og telja það sjálfsagðan hlut. Kannski hefur einhver þöngulhausinn farið að kvarta yfir hávaða og haft sitt fram. Þeir sem ekki þola hávaða á áhorfendapöllunum hafa þá þann valkost að horfa á leikinn í sjónvarpinu og skrúfa fyrir hljóðið. Hinir mega skemmta sér í friði. Fyrst maður minnist á landsleiki á annað borð þá er rétt að koma því að að langlundargeð vallaryfirvalda á Laugardalsvellinum gagnvart veggjakroti er með ólíkindum. Baka til við Sýnarstúkuna er allt útlits eins og í yfirgefnu vöruhúsi í slömmhverfi. Meir að segja fær veggjakrotskrass að vera óáreitt inn á vellinum sjálfum. Hvar í ósköpunum ætli menn geti séð þjóðarleikvang einhvers lands útkrassaðan inni á vellinum og utan hans nema hér? Það þýðir ekkert að afsaka þetta með framkvæmdum á vellinum. Þetta hefur verið svona árum saman. Það tæki ekki nema nokkrar mínútur að mála yfir óþverrann hverju sinni sem nýtt krass kemur ef menn hefðu nennu til. Kannski eru menn orðnir svo samdauna þessu að þeir eru hættir að sjá það.

Las merkilega grein í Mogganum um daginn. Einhver menningarvitinn hafði farið á sýningu Chippendales, sat á efri svölunum, horfði á það sem fram fór og hugsaði greinilega: "Guð ég þakka þér að ég er ekki eins og aðrir menn" og skrifaði síðan grein um upplifun sína. Það er alveg merkilegt hvað sumu fólki líður illa yfir því að annað fólk er öðruvísi en það sjálft og það fær engu um það breytt. Það mætti víst fullt af fólki (mest konur) á sýningu Chippendales strákanna og skemmti sér vel. Ég fór ekki en hafði enga skoðun á því að aðrir færu. Mér var nákvæmlega sama hvort einhverja langaði til að horfa á þessa stráka. Stemmingin var frábær las maður í blöðunum. Fínt, þá hefur þetta allt náð tilgangi sínum. En þá situr einhver úr harðlífisliðinu með fýlusvip á efri svölunum á Hótel Íslandi, nóterar niður allt sem hún getur hengt hattinn sinn á og fær inni í Mogganum með heilsíðugrein þar sem fyrirlitningin á svona uppákomum drýpur af hverju orði. Hvað kemur þessari manneskju þetta yfir höfuð við ef hún hefur ekki gaman af því að fara á svona sýningar. Það komst svo loks líf í greinarhöfund undir lokin þegar hún sá að einhver gestanna henti pappírsmiðum upp á sviðið. Þá stökk hún til og strunsaði niður til að reyna að ná í einhvern miðann til að fullvissa sig um að á honum væru símanúmer. En það var allt á eina bókina lært, þegar að sviðinu var komið þá voru allir miðarnir farnir. Synd. Á einhver úr hardrokk liðinu að sitja simfóníutónleika og skrifa síðan heilsíðugrein í Moggann um hvað þeir hafi verið ömurlegir eða öfugt. Hvað ætli yrði sagt ef einhver klassíski fanatíkerinn sæti á Músíktilraunum og rakkaði allt niður sem þar færi fram. Ef einhver hefur gaman að því að fara á sýningu hjá Chippendales þá kemur öðrum það bara ekki við, hvorki mér, Feministum eða forsjárhyggjuliðinu.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Góður..!!!