laugardagur, september 09, 2006

Hlustaði á viðtal við forstjóra Vinnumálastofnunar í morgun um það ástand sem hefur skapast vegna ótímabærrar og óþarfrar opnunar fyrir frjálsa för launafólks til landsins frá þeim 30. apríl sl. Þær stofnanir sem eiga að sinna skráningu erlends vinnuafls í landinu ráða ekki við verkefni sín, atvinnurekendur skrá ekki starfsfólk sitt og svört atvinnustarfsemi blómstrar sem aldrei fyrr. Við hverju bjuggust menn? Það voru margir sem höfðu uppi varnaðarorð við ákvörðun stjónvalda en þau töldu sig vita betur. Þau voru líklega hrædd við þetta blessaða almenningsálit sem er uppfullt af fjölmenningarfjasinu og að við eigum að aðlaga okkur að siðum og venjum þess fólk sem flyst til landsins en ekki öfugt. Maður veit stundum ekki í hvaða veröld það fólk lifir sem talið er ábyrgt. Forstjóri Vinnumálastofnunar sagði að Bretar hefðu gert ráð fyrir að um 15.000 manns myndu flytja til landsins í kjölfar álíka opnunar þar í landi. Raunin varð 600.000, þar af eru um 200.000 á svarta markaðnum eftir því sem ég las í breskum blöðum í vor. Það vita allir sem vilja vita hvaða veruleika almenningur býr við í fyrrum kommúnistaríkjum Austur Evrópu. Hann er víða svakalegur og framtíðarhorfur almennings þar vægast sagt svartar. Þetta fólk leitar vitaskuld allra leiða til að skapa sér betri framtíð og hana er ekki að finna fyrir austan gamla járntjaldið. Það er ekki við etta fólk að sakast en hins vegar er engum greiði gerður með því að láta vanda þessara landa flæða hömlulaust yfir önnur lönd sem hafa á flestan hátt nóg með sitt.

Fjölmmiðlar hafa undanfarna daga hamrað á mannvonsku þeirra sem vildu fara eftir gildandi reglum fyrir vestan og veittu börnum ekki aðgengi í skóla fyrr en ákveðnum formsatriðum væri fullnægt. Þetta þótti fjölmiðlaliðinu náttúrulega ótækt því það er yfirleitt á móti stjórnvöldum, hverju nafni sem þau nefnast. Ég skil vel þá sem vilja framfylgja ákveðnum reglum í þessu sambandi. Í fjölmiðlum var vísað til barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna varðandi hin erlendu börn og réttarstöðu þeirra samkvæmt honum. En hvað með rétt þeirra barna sem fyrir eru í skólanum. Er hann enginn? Það kom meðal annars fram í fréttum að eitt af því sem verður að leggja fram við inngöngu í skóla er heilbrigðisvottorð en það var talið sjálfsagt að sniðganga það eins og aðrar reglur. Nú er það svo að í það minnsta í Rússlandi eru berklar verulega útbreitt og vaxandi vandamál eftir því sem maður les í skandinavískum blöðum. Það má vera að svo sé víðar í löndum fyrrum Austur Evrópu án þess að ég viti en kæmi það ekki á óvart. Miðað við myndirnar af munaðarleysingahælunum í Rúmeníu sem voru í fréttum fyrir nokkrum dögum virðist ýmislegt vera öðruvísi þar en þætti ásættanlegt hér. Ég sé ekkert sem réttlætir það að börn frá þessum löndum séu tekin inn í grunnskóla hérlendis án þess að fyrir liggi að lágmarki heilbrigðisvottorð, t.d. með tillit til berklahættu. Það er ekki við þessi börn að sakast heldur eru fyrrgreindar reglur settar vegna ákveðinna ástæðna. Þær eru settar sem ákveðið öryggisnet. Ég veit það að það myndi ekki þýða fyrir mann að mæta með börnin í skóla á öðrum Norðurlöndum fyrr en þessum formsatriðum væri fullnægt. Það tæki hins vegar kannski ekki svo langan tíma eins og hefur verið hér. Ég geri hins vegar ráð fyrir að maður sé sakaður um að vera með útlendingafóbíu, rasisma og útnesjahátt ef maður hefur svona skoðanir. Það verður þá bara að hafa það en mér sýnist að allt það sem maður hefur talið líklegt að myndi gerast vera að koma fram. Maður heyrir t.d. af sívaxandi núningi milli íslenskra unglinga og erlendra unglinga, sérstaklega þeirra sem koma frá austur Asíu eða eru litaðir á hörund. Það þarf ekki að leita lengra en til hinna norðurlandanna til að sjá hvar það endar. Það er hins vegar afar auðvelt að stinga hausnum í sandinn, afneita staðreyndum og fimbulfamba um fjölmenningarsamfélagið.

Það verður haldin ráðstefna um jafnréttismál á næstunni. Þar verða haldin 12 fagleg erindi. Allir 12 fyrirlesararnir eru konur. Eini kallinn sem hefur eitthvað hlutverk á ráðstefnunni fær að vera fundarstjóri. Byggir umræða um jafnréttismál hérlendis á svona forsendum? Mér er bara spurn.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það er nú bara við eitt ráðuneyti og einn flokk sérstaklega að sakast hvernig ástatt er í þessum málum útlendinga og gríðarlegri fjölgun þeirra hér landi... það skildi þó ekki vera félagsmálaráðuneytið og Framsóknarflokkurinn. Allt var þetta sagt fyrir þegar ákvörðun um Kárahjúkavirkjun var tekin, en eins og þú segir réttilega, þá er aldrei hlustað á varnaðarorð á Íslandi. Þá eru menn "bara á móti" eða "útlendingahatarar".

Vandamálið við réttindabaráttu kvenna eins og margra annarra hópa sem þurfa að berjast fyrir réttindum sínum er að "hinir" taka aldrei þátt eins og þeim komi málið ekkert við og því verður öll umræða frekar einlit.

Kveðja Halli