sunnudagur, september 10, 2006

Fór frekar seint út í gær því stórar suðvestandembur gerðu það ekki sérstaklega spennandi að fara út að hlaupa. Dreif mig samt út seint um síðir og tók góðan hring út fyrir Kársnes og svo brekkuæfingar í tröppunum, HK brekkunni og Réttarholtsskólabrekkunni. Maður hittir alltaf ýmsa á göngustígunum. Í gærmorgun hitti ég kunningja minn sem fór að skokka í fyrra. Hann er aðeins yngri en ég en ekki mikið. Í fyrra hljóp hann 10 km í RM, í ár lá hálfmaraþon og á næsta ári skal það vera maraþon. Þetta er almennilegt. Við Víkingsheimilið var skokkhópur Víkings að koma úr ca 15 km hring. Þar hefur byggst upp góður samheldinn hópur. Þar fóru margir hálfmaraþon á RM og stefnan tekin á heilt að ári. Hitti svo Nínu og Kristínu en þær voru að taka langt hlaup sem síðustu æfingu fyrir Berlínarhlaupið sem verður eftir hálfan mánuð.

Veisla hjá Bigga í gærkvöldi. Þar hittist góður hópur hlaupara og var meðal annars rennt yfir myndasyrpur frá Grænlandi, Bandaríkjunum og Tansaníu. Skemmtilegt kvöld.

Stundum er umræðan í blöðunum þannig að maður veit ekki hvað snýr upp eða niður. Sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli tók svo til orða nýlega að það væri greinilegt að Litháenska mafían væri komin með fótfestu hérlendis í eiturlyfjainnflutningi. Mjög rökrétt ályktun miðað við þann fjölda Litháa sem hefur verið tekinn við að smygla eiturlyfjum til landsins. Kemur þá ekki einhver Lithái sem er búsettur hér fram í viðtali í Mogganum og fer að segja að það séu flestir Litháar sem búa hér ágætt fólk. Ég hef enga ástæðu til að ætla annað en að svo sé en það breytir hins vegar engu um það sem sýslumaðurinn sagði að það er eðlilegt að draga ákveðnar ályktanir af þeim fjölda Litháa sem hefur verið tekin við að smygla dópi til landsins. Síðan sá Mogginn ástæðu til að endurtaka þetta í forystugrein að það séu ekki allir Litháar glæpamenn. Hvaða rugl er þetta? Það er enginn að segja að allir Litháar séu glæpamenn enda þótt sumir Litháar séu glæpamenn. Þetta er eins og svo oft að ef löggan segir eða gerir eitthvað þá er farið að snúa út úr því eða rengja það. Það má aldrei tala um hlutina eins og þeir eru. Auðvitað eru það að hluta til skipulagðir glæpahringir sem standa fyrir innflutningi eiturlyfja til landsins.

Engin ummæli: