laugardagur, september 30, 2006

Sá í Fréttablaðinu í morgun að Mummi í Mótorsmiðjunni var ekkert fyrir sig hrifinn af Forvarnardeginum og þeirri strategíu sem þar var lagt upp með. Svona dæmi eru ágæt aðferð til að kauða sér góða samvisku á lítinn pening en hvaða gagni skila þau, það sem svo annað mál. Ýmsir fyrrverandi kollegar mínir sem ég hitti fyrir norðan hristu hausinn yfir þessu. Þeir höfðu séð svo mörg átaksverkefni ganga yfir á þessum vettvangi sem engu skiluðu. Á sama tíma sér maður að venjulegt fólk út um allar sveitir á Suðurlandi er að skjóta saman í fíkniefnahund til handa löggunni á Selfossi vegna þess að opinberar fjárveitingar hafa ekki fengist til þess arna. Hvað er þetta? Að láta lögregluna vera að fást við baráttuna gegn eiturlyfjum og þá baróna sem í sölu þeirra standa án þess að ráða yfir þjálfuðum hundi er eins og að stofna til slökkviliðs og láta það hafa vatnsfötur til að slökkva með. Hvurjum dytti slíkt í hug? Maður veltir stundum fyrir sér alvörunni sem á bak við liggur.

Það er nú hálf fyndið að lesa frásagnir af því að fólk hafi sest út á svalir á fimmtudagskvöldið í hátíðaskapi með hvítvín í glasi til að njóta stjörnuhiminsins þegar allir sem höfðu horft á veðurfréttir vissu að það yrðu skýjað og ekki ein einasta stjarna myndi sjást. Þegar stjörnufræðingar voru síðan ofan í kaupið að lýsa stjörnum í útvarpinu sem ekki sáust fyrir skýjahulunni var kvöldið náttúrulega fullkomnað. Það er ekki annað hægt en að óska öllum hlutaðeigandi til hamingju með vel lukkað kvöld en í forbífarten er hægt að benda áhugamönnum um stjörnur að líklega verður bjartur himinn á sunnudagskvöldið. Þá er tilvalið að klára úr hvítvínsflöskunni og horfa til himins. Það er alltaf jafn gaman í góðu veðri. Veðrið er sem betur fer ekki alveg farið að haga sér eftir því sem auglýsingastofur vilja, ennþá.

Engin ummæli: