Ég man varla eftir því að hafa séð aumlegri ritsmíð heldur en þá sem forstöðumaður NFS skrifaði í blöðin í gærmorgun þar sem hann grátbað aðaleigenda stöðvarinnar að leggja meiri peninga í taprekstur stöðvarinnar. Fréttastofa er ekki einhver sjoppa. Fréttastofa er fjölmiðill sem hefur gríðarleg áhrif í samfélaginu með áherslum í fréttaflutningi og fréttavali. Það vita allir sem vilja vita. Sá sem grátbiður opinberlega aðaleigenda stöðvarinnar að leggja meiri peninga í rekstur stöðvarinnar hefur jafnframt fyrirgert rétti sínum tilað starfa við svona rekstur. Það vita allir að æ sér gjöf til gjalda. Hvernig á einhver fréttastofa að geta verið trúverðug í málflutningi sínum og vinnubrögðum eftir svona uppákomu. Það er útilokað. Ef tekjur duga ekki til og tekst ekki að auka þær upp í það sem gjöldin eru þá er dregið út úrgjöldum. Það er svo einfalt. Mínu litla viti hefur aldrei tekist að skilja viðskiptahugmynd NFS. Hvernig á að vera hægt að halda úti fréttastofu allann daginn í 300 þúsund manna samfélagi? CNN og BBC halda þessu úti svo dæmi séu nefnd en þau hafa líka allann heiminn undir. Sjónvarpsfréttastofur á Norðurlöndum ætla sér ekki svona stóran bita í munn. Hverjir horfa á NFS á daginn? Gamla fólkið sem hefur ekki annað að gera. Sjúklingar kannski. Hvorugur þessara þjóðfélagshópa eru markmið auglýsingahákarla. Þeir sem ég þekki segjast kannski horfa á NFS á daginn á virkum dögum þegar þeir eru veikir heima sem er sem betur fer ekki oft.
Listir göfga andann og eru nauðsynlegar í þjóðfélaginu. Markmið flestra listamanna er að komast yfir svolítið af peningum annarra gegnum skattakerfið til að geta farið að helga sig listinni óskiptur án þess að hafa fjárhagslegar áhyggjur og auðgað þannig andans líf á landinu. Það er góðra gjalda vert og er eðlilega hart sótt á þær lendur.
Listamaður ætlar að standa fyrir myrkvun borgarinnar. Reyndar fékk hann hugmyndina að eigin sögn fyrir einhverjum árum en sagði ekki frá henni fyrr en annar listamaður var búinn að standa fyrir samskonar gjörningi. Myrkur í borgum er varasamt og oft hættulegt. Ef menn vilja sjá myrkur geta þeir farið upp á fjöll. Borgir eiga að vera bjartar. Vona að listaverkið hangi ekki lengi uppi.
Annar listamaður ætlaði að endurreisa stúku Hitlers sem hann flutti sérstaklega heim frá Berlín til verksins. Hann gafst upp við að endurreisa stúkuna, hélt blaðamannafund, kallaði fjölmiðla á vettvang og sýndi listaverkið "Efnið yfirbugar listamanninn". Spítnahrúga lá á gólfinu fyrir aftan hann. Frá þessum merka viðburði var samviskusamlega skýrt í ýmsum fréttatímum.
Í dag heyrði ég í útvarpinu viðtal við listamann sem sýnir strokleður á merkri sýningu. Þeim er stillt upp á stöpla eins og þau koma af kúnni eða eftir að búið er að stroka út með þeim um sinn. Mjög áhrifamikið er að ganga kringum stöplana og virða strokleðrin fyrir sér frá öllum hliðum var sagt í viðtalinu. Einnig var verkið "Orð skulu standa" sýnt á sýningunni en það er glerkrukka með tómum blekhylkjum í. Ég er kannski ekki alveg viss um að ég muni nafnið rétt en það var "Orð" eitthvað.
Stundum á ég ekki alveg gott með að skilja hvað listamenn eru að segja eða meina. Rétt áðan heyrði ég viðtal við listamann í sjónvarpinu sem var að skýra út verk sitt. Hún sagði að markmiðið hennar sem listamanns væri að líkami áhorfandans gengi inn í verkið. OK, ég myndi skilja það ef um stórt verk væri að ræða en það var mjög lítið. Ég veit hins vegar ekki hvað starfsmenn Louvre safnsins myndu segja ef áhorf manns á myndina af Monu Lisu myndi enda á þennan hátt, eða þannig.
Ég vona að þessir listamenn eins og aðrir komist sem fyrst á full listamannalaun til að geta haldið áfram þrotlausu starfi við að auðga menningu landsins.
þriðjudagur, september 19, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli