laugardagur, október 28, 2006

Ég hef ekkert hlaupið síðustu viku eftir að maraþoninu sleppti. Þetta verður vonandi ein af síðustu letivikunum um langa hríð. Ég ætla ekki að hafa það í ár eins og undanfarin ár að fara að byggja upp með hækkandi sól, heldur ætla ég að nota tvo síðustu mánuði ársins vel. Ekki mun af veita.

Í gær var viðtal við mann í kvöldfréttum sjónvarpsins sem er ákærður fyrir eignaspjöll. Fréttastofa sjónvarpsins sá ástæðu til að taka álnarlangt viðtal við hann þar sem hann fékk tækifæri til að flytja landslýð sína hlið málsins og sín rök. Ég hef ekki séð það áður í fréttum að sakborningar í slíkum málum fengju svona meðhöndlun hjá sjónvarpinu að þeir gætu flutt málsvörn sína allt að því í beinni útsendingu. Það ætti ekki að koma neinum á óvart að þessi einstaklingur var ákærður fyrir eignaspjöll við Kárahnjúka. Það virðist vera heimilit að misnota ríkisfjölmiðlana endalaust í tengslum við gagnrýni á þá framkvæmd.

Heyrði í dag viðtal við leikstjóra sem er að setja upp leikrit. Leikritið á að fjalla um hvaða augum erlent fólk sem sest hér að lítur frumbyggja landsins og einnig áþað að lýsa samskiptum þes við heimamenn. Eins og leikstjórinn sagði þá á leikritið að leiða í ljós moldbúaháttinn í íslendingum í samskiptum við erlent fólk sem flytur til landsins. Ef það er eitthvað sem fer í taugarnar á mér þá er það svona lið sem snobbar takmarkalaust fyrir því sem erlent er og lítur niður á innlenda lýðinn. Ég hef sett mig niður í tveimur löndum, Svíþjóð og Danmörku. Vitaskuld gekk manni erfiðlega að skilja og tjá sig framan að í samskiptum við heimamenn en það kom allt. Að manni dytti í hug að álasa innfæddum fyrir bjálfaskap og moldbúahátt vegna þess að það skildi mann ekki kom ekki nokkrum manni til hugar. Það var vitaskuld manni sjálfum að kenna ef samskipti voru ekki eins greið og skyldi við heimafólk vegna þess að maður kunni málið ekki nógu vel. Þeir erfiðleikar minnkuðu eftir því sem maður lagði meir að sér að læra mál heimamanna. Sama lögmál á að gilda hér. Það á að gera skilyrðislausa kröfu til að það erlenda fólk sem ætli að setjast hér að og njóta gagna landsins og gæða með landvistarleyfi og ríkisborgararétti eigi að læra íslensku. Það er bara ekki flóknara. Annars gengur dæmið bara alls ekki upp. Því er út í hött að fara að byggja upp þjónustu við viðkomandi á tungu hvers og eins nema með allra nauðsynlegustu túlkaþjónustu í upphafi ef brýn þörf er á því. Að hefja útvarpssendingar á erlendum málum til að gera lífið auðveldara fyrir erlent fólk er fráleitt. Það frestar bara vandanum og gerir hann að mörgu leyti enn verri. Fjölmenningarliðið getur litið á það sem útnesja- og moldbúahátt íslendinga ef siðir og hefðir rekast á þegar erlent fók flytur til landsins. Ég geri ekki ráð fyrir að slást í þann hóp svo ég er á annarri skoðun.

Fer vestur á morgun og reyni að taka nokkrar rjúpur í leiðinni. Veðurspáin er heldur batnandi svo þetta sleppur vonandi allt til.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Já það á sem sagt að fara að setja í gírinn núna Gunnlaugur, er það rétt skilið hjá mér að stefnan sé núna set á Spartathlon?
Já og til hamingju með allan árangurinn varðandi mataræðið, það munar um 6 til 8 kg löngu hlaupunum, þó ekki sé nú mera sagt:-)
Síðan þurfum við að fara taka eitt langt saman við tækifæri:-)