Kom að vestan á sunnudagskvöldið eftir fínan túr. Það eina sem hefði mátt vera betra voru fleiri rjúpur. Það hafði snjóað slydduhroða í fjöllin rétt fyrir helgina og það gerði færðina verrri og líklega hafði fuglinn farið undan veðrinu. Þetta varð þó skammlaust þegar upp var staðið og ég held að gamlárskvöldsmatnum sé bjargað. Veðrið var eins gott og gat verið á þessum tíma og það er mjög gaman að pjakka einn upp á fjöllum við þær aðstæður. Ég gat dundað dálitið í húsinu og nú er næsta verkefni að fara að klæða á veggi þegar líður nær vori.
Þegar ég var á leiðinni niður dalinn heima sá eg mann sem stóð í vegkantinum og tók myndir með stórri linsu. Ég stoppaði hjá honum og tók hann tali. Þetta var ísfirðingur sem er búinn að búa í Los Angeles í tuttugu ár og hafði lært ljósmyndun þar. Hann hefur unnið þar sem brúðkaupsljósmyndari sl. 15 ár. Hann var að ferðast um Vestfirði í þeim tilgangi að taka myndir. Markmiðið hjá honum er að markaðssetja Vestfirði á vesturströnd Bandaríkjanna sem exclusívan ferðamannastað. Ég fékk nafnspjaldið hjá honum og ætla að vera í sambandi við hann á komandi vikum. Gaman verður að fylgjast með hvað úr þessu verður.
Mogginn klikkaði svolítið í gær. Á mbl.is var sagt frá kæru Vilhjálms Arnar sagnfræðings á hendur Extra Blaðinu vegna greina blaðsins um fjármálalega aðkomu íslendinga að atvinnurekstri í Danmörku. Danir höfðu skrifað um hvað íslendingarnir "på den forblæste klippe¢" hefðu á prjónunum og Mogginn þýddi þetta "á hinni vindsorfnu pappírseyju". Þetta er svona næsti bær við kryddsíldardæmið.
þriðjudagur, október 31, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli