föstudagur, október 06, 2006

Jens Guð er mikill poppfræðingur. Hann kenndi mér einu sinni skrautritun norður á Raufarhöfn. Sú þekking hefur komið að góðu gagni. Það var svolítið lúnkinn pistill eftir hann í Fréttablaðinu í morgun þegar hann var að spjalla um meintan framgang Nylon í Bretlandi. "Nylon í efsta sæti í Bretlandi" hljóðaði forsíðufyrirsögn í Fréttablaðinu á dögunum. Jens Guð sá af skarpskyggni að það var ekki breski listinn sem um var að ræða heldur einhver smálisti sem mætti jafna við vinsældalista og dreifingarsvæði hjá Útvarp Kántríbæ (með fullri virðinu fyrir því ágæta útvarpi). Það virðist sem svo að Garðar Hólm sé alltaf á ferðinni.

Maður veltir stundum fyrir sér á hvaða lúxusferð samfélagið sé. Þegar ýmsir kröfuhópar vilja sækja á ríkisvaldið þá er æði oft miðað við það sem best er og flottast gert í nálægum löndum. Það er leitað þar til besta (og yfirleitt dýrasta) útfærslan finnst og síðan er tekið til við að hamra járnið í fjölmiðlum. Það er bara vonandi að farmiðinn á lúxusfarrýminu gildi ekki bara hluta af leiðinni. Ég var á dögunum að ræða við forseta bæjarstjórnar í Bolungarvík. Bolungarvík er tæplega 1000 manna pláss sem hefur átt nokkuð undir högg að sækja á undanförnum árum. Hún sagði að hjá sér ynni þýsk kona sem væri nýflutt til landsins en áður vann hún við kennslu í Þýskalandi. Sú þýska átti ekki orð yfir þeim lúxus öllum sem var til í grunnskólanum í Bolungarvík miðað við þær aðstæður sem þýskum börnum er kennt við. Nú hef ég ekki trú á að grunnskólinn í Bolungarvík skeri sig nokkuð frá öðrum svipuðum grunnskólum á landinu. Við erum bara svona vön því að heimta og fá alltaf það besta að okkur finnst sjálfsagt að hafa þann standard og ekki í frásögur færandi. Það er ekki fyrr en utanaðkomandi benda manni á að þetta sé kannski ekki alveg sjálfgefið að augu manns opnast.

Fer í fyrramálið vestur á Rauðasand og verð þar yfir helgina. Held að veðurspáin sé þokkaleg.

Engin ummæli: