Umræðan um að halda alvöru hlaup hér heima er að þroskast og bara spurnig um hvenær teningunum verður kastað. Það hafa margir sagt við mig að þeir muni taka þátt í sex tíma hlaupi næsta haust (sem verður haldið) og það er góður áfangi til frekari átaka. Síðan eru einhverjir reiðubúnir að takast milliliðalaust á við 100 km hlaup, ekki spurning. Fjöldinn er ekki takmark út af fyrir sig í upphafi, það kemur með tímanum. Það voru ekki nema fimm hlauparar í fyrsta 100 M hlaupi á norðurlöndum sem haldið var í suður Svíþjóð um daginn. Í Bergen í Noregi var haldið 100 km hlaup fyrir skömmu. Þar lögðu 14 af stað og 10 skiluðu sér alla leið í mark. Sá sem sigraði (Helge Hafsås) hljóp á 6 klst og 50 mín. Hann æfir þannig að hann ýtir á undan sér þungum vögnum með kjötskrokkum á í 8 klst á degi hverjum (hann vinnur í sláturhúsi). Eftir vinnu fer hann út og hleypur 14 km á fullu gasi. Sá sem átti lakasta tímann hljóp á 10 klst og 57 cek. Þetta hlaup hefur verið af hæsta gæðafokki þótt það hafi verið fámennt.
Ég er ekki sammála því að það sé til bóta að hafa brautina hæðótta því ritarinn minnist á möguleikann á að halda hlaupið á Poweratehringnum. Brekkur taka í, sérstaklega þegar líður á. Það brýtur hlaupið alveg eins vel upp að ganga inn á milli á jafnsléttu en brekkur eru til erfiðisauka.
Það verður haldið 24 klst hlaup innandyra á Bislet leikvanginum í Osló í byrjun september. Brautin verður rúmlega 500 metra löng. Nú þegar eru komnir 47 þátttakendur en hámarkið er sett við 100. Gaman hefði verið að taka þátt í þessum viðburði en ég er ekki í standi til þess nú.
Ég var tekinn svakalega í gær. Var að fara á fund niður í Vík og þá víkur sér að mér maður og heilsar mér kunnuglega með tilvísan í þann tíma sem ég var sveitarstjóri fyrir norðan. Ég þekkti hann ekki og sagði honum það að ég væri ekki viss en hann vék sér undan því að koma mér á rétta leið. Síðan leiddi hann talið að gönguferðinni á Hvannadalshnjúk árið 1998 sem var dálítið dramatísk. Bæði varð félagi minn örmagna á Kaffiklettinum vegna ofþornunar og álags og síðan lentum við í snjóflóði á leiðinni niður af hnjúknum. VIð töluðum svolítið um atvikið á kaffiklettnum og ég sagði honum að áfallið hefði verið það mikið fyrir félaga Sigga að hann hefði gránað í vöngum og það hefði tekið hárið um það bil 6 mánuði að ná fyrri lit. Ekki áttaði ég mig enn á hvað maðurinn héti. Siðan fórum við yfir í að tala um snjóflóðið en þar lenti fararstjórinn Hermann í því að það skreið fleki undan honum á leiðinni niður af Hvannadalshnjúknum og hann fauk fram af ca 3ja til 4ra metra háum hjalla, annar í línunni kom niður á eftir honum, sá þriðji hékk á brúninni en franskir strákar sem vor aftastir hentu sér á ísaxirnar, keyrðu þær á kaf, stoppuðu skriðið og komu þannig í veg fyrir að stórslys yrði. Það sem gerði að þeir brugðust svona rétt við var að Hermann var búinn að fara yfir með okkur daginn áður niðri á jökli hvernig ætti að beita ísöxum í tilvikum sem þessum. Ekki grunaði okkur þá í blíðunni niðri að það væri skemmra en ætla mætti í að þessi kunnátta kæmi að notum. Ég sagði þetta vera dæmi um hvernig það gæti varnað slysförum þegar fararstjórar undirbyggju svona ferðir vel. "Gerði Hermann þá allt rétt" spurði maðurinn sem ég vissi ekki enn hvað hét. "Já" sagði ég, "Hermann gerði allt rétt" "Þekkirðu mig ekki enn" spurði hann þá heldur kankvís, "Ég er Hermann!!!" Helvíti fannst mér þetta fyndið en ég slapp fyrir horn. Hvernig á maður að þekkja menn aftur mörgum árum síðar eftir að hafa kynnst þeim með húfu niður fyrir eyru og í jöklaúlpu?!! Hann sagðist hafa lemstrast nokkuð við fallið, marist og tognað en ekki brákað bein. Í fyrra lentu menn í slysi á Hvannadalshnjúk við nákvæmlega sömu aðstæður, þá voru menn ekki eins heppnir því einn fótbrotnaði en aðrir slösuðust minna. Það er óskemmtilegt að vera með slasaða menn þarna uppi því langt er í hjálp.
fimmtudagur, október 26, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli