mánudagur, október 16, 2006

Sleppti morgunhlaupinu í gærmorgun því mér leist ekkert á veðrið. Rigning og rok er eitt versta hlaupaveður sem til er. Þess í stað fór ég út í gærkvöldi eftir Spaugstofu og tók létt hlaup út í Nauthólsvík. Léttur og nokkuð brattur. Fór svo í morgun niður í Laugar og tók um 20 km með vinum Gullu. Svolítið stirður eftir gærkvöldið, því það hefur verið lítið hlaupið að undanförnu. Maður reynir þó að fara haustmaraþonið svona upp á félagsskapinn.

Ég fór á viktina í gærmorgun. Viktin sýndi 81,5 kg, samanborið við um 88 kg í júlíbyrjun. Breytt mataræði sem meðal annars felur í sér því sem næst bann við óþörfum kolvetnum hefur haft þessi áhrif. Ég næ kolvetnaskammtinum með góðum hafragrautardisk og hunangi á morgnana en annars eru þetta kjöt, fiskur, ávextir og grænmeti. Sælgæti, kex og kökur eru alger bannvara. Ég ætla að fara niður í um 80 kg fyrir áramót og þá er ég orðinn góður.

Fór í mesu í dag með Maríu. Hún er að fylla upp í fermingarkvótann. Pálma mæltist vel að vanda enda þótt fjölmiðlar væru ekki á staðnum í leit að frétta efni. Hann talaði hvorki um málefni samkynhneigðra né Kárahnjúkavirkjun. Hann ræddi hinsvegar um málefni aldraðra og aðbúnað þeirra öldrunarheimilum. Hann sagðist þekkja dæmi þess að ef einstaklingur missti maka sinn þar sem þau hefðu búið saman þá væri ekki búið jarða þann látna þegar búið væri að setja ókunnuga manneskju í plássið. Mér er sem ég sæi mann sjálfan ef stjórnvöld settu ókunnuga manneskju í húsið ef eitt herbergi losnaði bara si svona. Hann sagðist þekkja annað dæmi þess að einstaklingur fengi 34 tegundir lyfja vegna þess að lyfjagjöf væri ákveðin af fleiri en einum aðila og engin tengsl þar á milli. Það hljóta að vera alveg stálhraustar manneskjur sem þola 34 lyfjategundir á dag. Það er hins vegar flestum sama um þessi mál þar til kemur að einhver þeim nákominn lendir í þessari stöðu og menn reyna ástandið á sjálfum sér eða sínum skyldmennum.

Nokkrir drengir (3 - 5) voru að mótmæla veru herskips í höfninni í dag og vitaskuld voru fjölmiðlamenn mættir. Nema hvað, þarna voru mótmæli. Drengirnir mótmæltu veru skipanna hástöfum og það var í lagi meðan þeir töluðu fyrir sjálfan sig. En þegar þeir fóru að tala í nafni þjóðarinnar þá var mér nóg boðið. Mótmæli eiga fullan rétt á sér en mótmælendur geta ekki talað fyrir aðra en sjálfan sig. Ég hef ekki gefið neinum leyfi til að tala fyrir mig hvað varðar þessi skip og óska eftir því að fá að halda þeim skoðunum fyrir mig. Fjölmiðlagreyin gleypa þetta hinsvegar allt hrátt eins og venjulega ef mótmæli eru á ferðinni. Það er alveg makalaust hvað þröskuldargildið er lágt hérlendis með að komast í fréttir eða í aðra umfjöllun fjölmiðla. Ef tveir menn koma saman og segjast vera mótmæla einhverjum skrattanum þá er liðið mætt með myndavélar og microfóna. Hvar eru fréttastjórarnir?

IKEA var að opna búð. Gott mál fyrir þá sem þurfa á vörum frá þeim að halda. En að reyna að skapa einhverja þjóðhátíðarstemmingu í fjölmiðlum vegna þess að það sé opnuð búð og samkvæmt þeim sé enginn maður með mönnum nema hann sé búinn að fara í nýju IKEA búðina er náttúrulega hreint út sagt idjótiskt.

Engin ummæli: