Kom frá Höfn í Hornafirði í kvöld. Á Höfn var haldið hafnasambandsþing í gær og dag og var það hin ágætasta samkoma eins og áður. Í gær húðrigndi þannig að skoðunarferðin fór að mestu fram fyrir luktum gluggum en það var allt í lagi. Fólk hittist og hefur um margt að tala. Félagslega hliðin er ekki síður mikilvæg á svona þingum en hin faglega. Í gærkvöldi reið svo yfir sannkallað þrumuveður og sló eldingum niður í einhverja bæi svo skemmdir hlutust af.
Ég fór út á Stokksnes eftir hádegi í dag. Þangað hef ég ekki komið áður. Það er orðið lítið eftir af umsvifum ratsjárstofnunarinnar sem þar var staðsett. Nokkur loftnet, ein kúla og svo skiltið við hliðið þar sem aðgangur er bannaður að svæðinu. Það er fallegt þarna fram á nesinu og maður þarf að koma þarna út eftir aftur í bjartara veðri, ganga svolítið um og taka myndir.
Ég fór á landsleikinn á miðvikudagskvöldið og tók myndir fyrir fótbolta.net. Það fór betur með veður en á horfðist. Synd að strákarnir skyldu ekki ná stigi úr leiknum því þeir léku flestir hverjir vel allann leikinn og börðust vel. Skor í neðanverða slána, niður og út á lokamínútunum sýnir að íslenska landsliðið átti ekki að ná neinu út úr þessum leik. Ekki verður hjá því komist að minnast á áhorfendurna. Það mátti halda að það hefði verið komin ísöld á bekkjunum. Það er helvíti hart að láta 30 svía taka yfir völlinn þegar yfir 8000 manns eru mættir. Svíarnir sungu og skemmtu sér allann tímann og yfirgnæfðu íslendingana langtímum saman. Á danaleiknum var þó trommusveit til að keyra upp taktinn en slíkt var ekki á vellinum á miðvikudaginn. Stákarnir voru að reyna að biðja um stuðning, þá kom smá glæta en svo koðnaði allt niður aftur. Það ætti að vera metnaður KSÍ og vallarstjórnar að byggja upp sem mesta stemmingu á vellinum þegar aðsóknin er svo góð sem raun ber vitni. Þarna vantar eitthvað á. Að lokum má minna á að veggjakortið er enn inni á veggnum umhverfis völlinn. Þetta er náttúrulega til háborinnar skammar, ekki bara fyrir þá sem eiga að hafa umsjón með vellinum heldur fyrir íslendinga yfir höfuð. Mér finnst veggjakrot inni á þjóðarleikvangnum vera svipað og ef búið væri að krassa út Dómkirkjuna, Alþingishúsið eða Ráðhúsið. Þeir sem ráða á Laugardalsvellinum eru greinilega á öðru máli.
föstudagur, október 13, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli