Það var glæsilegt að sjá Hval 9 sigla út úr Reykjavíkurhöfn í gær í blíðunni. Að vísu gekk ferðin eitthvað brösótt hjá honum til að byrja með en fall er fararheill. Það er kominn tími til að hefja hvalveiðar í atvinnuskyni að nýju. Hrefnuveiðar voru blómlegur atvinnuvegur á nokkrum stöðum á landsbyggðinni hér áður en það hrundi allt þegar alþingismenn þorðu ekki að mótmæla hvalveiðibanni hvalveiðiráðsins. Vonandi nær þetta að rísa upp á nýjan leik. Alveg var merkilegt að hlusta á fréttir í dag. Alltaf skyldu fréttamenn segja fyrst frá mótmælunum en síðan hunduðust þeir til að skýra frá því að fjölmörg ríki styðja ákvörðun íslendinga.
Það voru enn ein mótmælin í gær. Sjónvarpið mætti á staðinn, nema hvað. Nú voru það glæpamennirnir í steininum á Skólavörðustígnum sem hótuðu því að fara í hungurverkfall ef þeir fengju ekki epladjús með matnum og meira að borða af eplum og appelsínum. Það vantaði ekki að sjónvarpið tók álnarlangt viðtal við einhvern dólginn þar sem hann skýrði þessar kröfur út í ítarlegu máli. Þeir höfðu að vísu ekki rætt við fangelsisyfirvöld og beðið um djús og appelsínur áður en þeir hótuðu að fara í hungurverkfall. Skyldu þeir ekki mega það. Ég hefði nú látið þá hafa neitað að borða grautinn í svona viku áður en það væri orðið fréttnæmt. Ætli þeir hefðu haldið út dag eða tvo. Kannski það ,en örugglega ekki meir. Það er makalaust hvað þetta lið á fréttastofu sjónvarpsins býður okkur upp á sem erum lögþvinguð til að borga þeim kaup. Mér er sem ég sæi fréttastofur í nálægum löndum hlaupa svona upp til handa og fóta út af svona rugli. Ég veit ekki hvað það mætti vera vitlaust svo RÚV væri ekki mætt í viðtal ef það héti mótmæli á annað borð. Nema Helgi H. Hann fær ekki viðtal og mótmælir hann þó upp á hvern dag. Hvers á hann að gjalda?
Fór út í góðan hring í kvöld. Kalt en besta veður. Ég hef ekki séð á vefnum enn hvernig Höskuldi gekk á helginni, en þá ætlaði hann að takast á við 100 M í Kansas. Það kemur vonandi í ljós sem fyrst. Gott viðtal við Guðmund í Mogganum í morgun. Virðingarvert hjá Mbl að skýra frá þáttöku íslendinga í 100 km hlaupum. Það eru ekki lakari fréttir en margt annað.
Sá í morgun að það eru einhverjir glöggir kennslufræðingar komnir á þá skoðun að gamla bandprjónsaðferðin er líklega best við lestrarkennslu. Sísí á s. Ási á á. Á tímabili voru hinir sjálfskipuðu fræðingar í kennslu svo vissir um eigið ágæti að þeir jafnvel óskuðu eftir því að foreldrar reyndu ekki að kenna börnum sínum að lesa áður en börnin kæmu í skólann, því það væri gert á vitlausan hátt og gæti verið barninu skaðlegt. Niðurstaðan er ótvíræð, lestrarkunnáttu hefur hrakað og bóklestur minnkað.
fimmtudagur, október 19, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli