þriðjudagur, október 10, 2006

Var fyrir vestan um helgina og kom í bæinn a sunnudagskvöldið. Jón Sigmar smiður og Haukur bróðir komu einnig með. Það gekk allt upp sem ætlað var, við settum grindur að veggjum í húsinu svo nú er renesancetímabilið hafið fyrir alvöru. Nú verður farið að setja panelinn á veggina svo þá fer að komast mynd á húsið að innanverðu á nýjan leik. NBæsta stórátak er að koma vatni í það og ganga frá hreinlætistækjum. Þegar það er búið er hægt að fara að vera þarna í góðu yfirlæti og dunda við að byggja upp á nýjan leik.

Keyrði Skarðsströndina á leiðinni suður. Hef oft hugsað um að taka þennan krók en aldrei látið verða af því vegna ímyndaðs tímaskorts. Ég fór fyrir Klofning þegar ég var 10 ára gamall og síðan ekki meir fyrr en á sunnudaginn. Þetta er heldur skemmtileg leið og ég þarf að fara hana aftur í bjartara veðri til að taka myndir. Á þessum slóðum eru hvað mestar líkur að sjá erni af þjóðvegi fyrir áhugafólk um slíka hluti.

Það er stundum pínlegt að heyra fólk tala í gegum sjálfan sig. Í gær kynnti ríkisstjórnin áform um lækkun virðisaukaskatts á matvælum og fleiri aðgerðir sem eiga að lækka matvælaverð. Gott mál fyrir flesta nema bændur eru svolítið áhyggjufullir. Tekið var viðtal við einn ágætan mann um málið. Í upphafi viðtalsins hræddist hann mjög að kaupmenn myndu hirða alla lækkunina þannig að neytendur fengju ekki neitt í sinn hlut. Í annan stað óttaðist hann að þessi aðgerð myndi vera verðbólguhvetjandi þ.e. að matarverð myndi lækka svo mikið að neytendur hefðu miklu meiri peninga milli handanna eftir en áður svo þeir færu að kaupa allan skollan fyrir þá peninga sem þeir keyptu mat fyrir áður. Þá allt í einu áttu kaupemnnirnir ekki að hirða alla lækkunina. Svo kom flokksformaðurinn og sagði að það væri alls ekki nóg að gert og lækkunin þyrfti að vera miklu meiri. Hverju á maður að trúa?

Súla í Viðey!! Friðarsúla í Viðey. Hvað hefur Viðey gert af sér til að verðskulda þetta? Það má vel vera að einhverjum finnist þetta sniðugt að fólk sem vill láta bera á sér reisi ljóssúlu í Viðey á okkar kostnað með að fyrir augum að súlan stuðli að friði í heiminum. Af hverju segir enginn við keisarann að hann sé ekki í neinum fötum. Ef svona súla gerir gagn þá á fyrst og fremst að reisa hana nálægt Hvíta húsinu í Bandaríkjunum svo forseti Bandaríkjanna hverju sinni geti gjóað á hana augunum þegar hann er að grípa í sig morgunskattinn. Afsteypu mætti reisa nálægt Kreml. Einnig mætti hafa færanlega súlu sem væri sett niður á mestu átakasvæðum hverju sinni s.s. í Írak og Darfur í augnablikinu. En að staðsetja hana úti í Viðey þar sem er nokkuð öruggt að það sér hana ekki nokkur maður. Skyldi frú Ono ekki hafa heyrt um Kárahnjúkavirkjun áður en hún dásamaði hvað vatnið væri mikill drifkraftur í þjóðarbúskap íslendinga? Að lokum finnst mér afar frumlegt af fréttakonunni að spyrja frú Ono spurningar sem hún hefur verið spurð að a.m.k. hundraðmilljónsinnum eða hvort hún hafi splittað upp Bítlunum, nær fjörutíu árum eftir að meintur atburður átti sér stað. Vitanlega sór sú gamla af sér alla ábyrgð á því enda málið löngu fyrnt.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta súludæmi er dæmigert fyrir íslenska stjórnmálamenn (enginn undanskilinn), þar sem auðvitað er undirliggjandi að ljósið á auðvitað að beinast að þeim og í leiðinni klassískt snopp fyrir "fræga" fólkinu, þar sem reynt er að baða sig í ljósaganginum frá því. 15 milljónir verða að sjálfsögðu að 20 milljónum sem skiptir auðvitað engu þegar svo "bráðnauðsynlegur" hlutur á í hlut. Á sama tima berst borgin með odd og egg fyrir því að þurfa ekki að greiða 4 milljónir á ári á móti ríkinu í eftirskólagæslu á fjölfötluðum börnum og unglingum. Þá eru engir peningar til. Þetta er hryllingur.

Kv. Halli

Gunnlaugur Júlíusson sagði...

Þetta síðasta sem þú kemur inn á Halli er ekki svona einfalt því ríkið er í þessu máli að reyna að koma yfir á sveitarfélögin verkefni sem er ríkisins að sinna samkvæmt lögum. Þau eiga að gilda jafnt fyrir báða aðila, bæði ríki og sveitarfélög. Ég sé hins vegar eftir peningunum í súluna. Ono hefði getað borgað hana sjálf ef hún vill koma svona fyrir bæri á laggirnar en ekki taka aurana úr mínum vasa og þínum.

Nafnlaus sagði...

Vissi þetta svo sem með deilur ríkis og sveitarfélaga í þessu efni. Ég gerði bara kröfur til R-listans sáluga að hann kæmi þessum einstaklingum og fjölskyldum þeirra til aðstoðar og redduðu málinu, þó ekki væri í princippinu viðurkennt að þeirra bæri að greiða. Þessi þræta tók mánuði og var báðum aðilum til skammar og olli atvinnuþátttöku aðstandenda miklum skaða.