Ekkert hlaupið í gær. Fór austur á Þingvöll seinnipartinn til að taka haustlitamyndir. Veðrið var fínt og fór batnandi. Um kvöldið fórum við upp á Skaga í fertugsafmæli Eydísar og Þorkels. Þau eru ein af góðum vinum okkar frá Raufarhöfn en hafa nú sett sig niður á Akranesi. Þar hafa þau sett mark sitt á samfélagið, Eydís situr í bæjarstjórn og Þorkell útibússtjóri SM.
Í morgun var tekinn hringur með Vinum Gulli. Veðrið var eins og best verður á kosið, logn og frekar hlýtt. Enda þótt það eigi að hlaupa frekar hægt á sunnudögum þá taka sig alltaf upp sprettir þegar Biggi og Hálfdán eru með. Við tókum góða rikki og hraðinn hélst bara þokkalega. Maður finnur strax muninn á hvað kílóunum hefur fækkað.
Eftir hádegi fór ég í könnunarferð suður á Reykjanes með myndavélina. Þótt skömm sé frá að segja þá hef ég ekki farið mikið um Reykjanesið. Ég fór út á Krísuvíkurbjarg, út að Selabásum, Reykjanesvita, Gunnuhver og sprungunni milli Evrópu og Ameríku. Þetta er rétt byrjunin en ótvírætt að víða er gaman að fara þarna um og skoða í góðu veðri eins og var í dag.
sunnudagur, október 01, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli