Það var skemmtileg hugleiðing á síðunni hans Ásgeirs í gær þar sem hann er að skýra frá ssamræðum sínum við Marshall Ulrich sem er einn af þessum mönnum sem ekkert stenst fyrir. Hann leggur áherslu á hvað andlegi þátturinn sé mikilvægur við undirbúning að miklum verkefnum. Trúa á að maður geti hlutina og hve mikilvægt það sé að klára þá, segja frá fyrirætlunum sínum þannig að ekki sé til baka snúið og byggja síðan upp aga og alúð við æfingar. Skipuleggja hvert skref. Aldrei að hugsa um að maður geti ekki hlutina heldur að það sé einungis ein leið fær og hún er áfram. Hugsa um sett markmið og láta sig dreyma um síðustu skrefin yfir marklínuna. Í stórum dráttum þá er þetta álíka aðferðafræði og ég hef notað við fullorðin verkefni. Ekki veit ég hvort það hafi verið lykilinn að því að klára sett markmið en það er ljóst að ef þú hefur ekki trú á sjálfum þér þá er eins gott að hætta strax og snúa sér að öðru. Vitaskuld verður ákveðið raunsæi að vera til staðar, en það er ljóst að þú stekkur aldrei lengra en þú hugsar.
Í gærkvöldi heyrði ég einn ágætan sjónvarpsfréttamann segja frá því með andköfum að fátæktin væri orðin svo mikil á Íslandi að kirkjan væri búin að setja upp styrktarsjóð fyrir ungmenni sem ekki gætu að öðrum kosti komist í gegnum framhaldsskóla. Er kreppan komin hugsaði maður. Nei vitaskuld er ekki svo. Atvinnuleysi er svo lágt að það er naumast hægt að tala um atvinnuleysi þegar það er komið niður í eitt komma eitthvað prósent. Það geta semsagt allir fengið vinnu sem vilja og geta unnið. Nú er það staðreynd að það er sama hvaða samfélag er skoðað að fólk getur lent í erfiðleikum, jafnvel svo miklum að það ræður ekki við þá. Slys, sjúkdómar, dauðsföll eða upplausn fjölskyldu af einhverjum ástæðum og þannig má áfram telja. Þetta gerist óháð efnahagsástandi hverju sinni en meiri líkur eru á slíkum áföllum þegar atvinnuleysi er mikið en þegar það er ekki neitt. Börn og unglingar lenda oft í erfiðri stöðu þegar fjölskylda sundrast eða aðrir atburðir gerast sem ekki eru viðráðanlegir. Sveitarfélögin veita fjárhagsaðstoð þegar fólk lendir í erfiðleikum. Það er virðingarvert að kirkjan eða aðrar hjálparstofnanir standi einnig við bakið á börnum og unglingum í slíkri stöðu til að gera þeim auðveldara að mennta sig og koma þannig undir sig fótunum. Samkvæmt viðtali við fulltrúa kirkjunnar var hér um að ræða 12 einstaklinga. Um var að ræða stuðning við bókakaup og strætómiða. Ekki stórir peningar þegar miðað er við peningaleg umsvif kirkjunnar í heild sinni.
Nú er það svo að það eru oft fleiri en einn flötur á teningnum. Það er giska auðvelt fjárhagslega fyrir unglinga í þéttbýli að stunda nám í framhaldsskóla þar sem hægt er að fara heiman að frá sér í skólann með strætó eða gangandi. Það er hins vegar miklu erfiðara fyrir börn utan af landi að sækja framhaldsskóla þegar þau þurfa að taka sig upp 16 ára gömul og fara að heiman. Það kostar nefnilega verulegan pening að halda sér uppi heilan vetur í leiguherbergi eða í heimavist. Ferðakostnaður er styrktur að hluta en ekki uppihald. Sem betur fer hefur framhaldsskólum fjölgað á landsbyggðinni á undanförnum árum þannig að það eru æ fleiri sem geta sótt skóla heiman að frá sér. Það eru hinsvegar ófá dæmin þar sem fjölskyldur hafa tekið sig upp og flutt í átt að skólanum þegar börnin voru komin á framhaldsskólaaldur vegna þess að bæði hafði fólk ekki efni á að kosta uppihald barnanna í öðru byggðarlagi og einnig vildu þau ekki senda þau frá sér aðeins 16 ára gömul. Það eru einnig ekki ófá dæmi þess gegnum tíðina þar sem krakkar hafa ekki getað haldið áfram skólagöngu eftir grunnskóla vegna þess að efni voru ekki til staðar til að kosta skólagöngu þeirra í framhaldsskóla fjarri heimilinu og þau því farið út á vinnumarkaðinn á unga aldri, alla vega um stundarsakir. Ég þekki það sjálfur að á sínum tíma voru ekki til peningar til að fjármagna skólagöngu fjarri heimilinu þegar maður var kominn á framhaldsskólaaldur. Það var bara þannig og þótti ekki tiltökumál. Maður tók þá tíma í að vinna og safna peningum til að geta haldið áfram í skóla. Svona hefur þetta alltaf verið og verður alltaf.
Það er hins vegar svo að þegar er hrópað "Úlfur Úlfur" í tíma og ótíma að þá er hlustað minna eða jafnvel ekki þegar virkilega er ástæða til þess að leggja við eyrun. Í þessu sambandi er ábyrgð fjölmiðla mikil eins og í svo mörgu öðru.
föstudagur, október 20, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli