sunnudagur, desember 10, 2006

Fór góðan hring í morgun með Orwell. Í morgun vorum við hinir einu sem fylktum liði undir merkjum Vinum Gullu og fórum hefðbundinn hring vestur á Eiðistorg. Meðfram sjónum var fínt að hlaupa en strax og lengra dró frá sjónum var hálkan til leiðinda.

Nú er byrjuð hin árvissa umræða um fátækt. Það er rétt að gleyma því ekki að atvinnuleysi er ekkert í landinu. Það geta allir fengið vinnu sem vilja og geta unnið. Mér finnst ýmsir tala oft svo sem að það sé hægt að útrýma fátækt. Slíkt er firra. Í öllum samfélögum eru aðstæður manna misjafnar ýmissa hluta vegna. Aðstæður ýmissa eru sjálfskaparvíti en það fólk sem lendir í óviðráðanlegum erfiðleikum vegna veikinda eða slysa er oftast verst sett því slíkt gerir ekki boð á undir sér. Í slíkum tilfellum á samtryggingarkerfið að koma til skjalanna. Þó er vandrataður meðalvegurinn. Á hinum norðurlandanna er ásóknin í að fá sig metinn til örorku orðin það mikil að það er orðið þjóðfélagsmein. Félagsleg aðstoð er það mikil að margt fólk sér ekki tilgang í að vera að vinna ef það hefur það bara þokkalegt á bótum frá hinu opinbera. Það eru því æ færri sem standa undir verðmætasköuninni og velferðarkerfinu. Þarna lenda menn fljótt í vítahring, skattarnir hækka og hækka og fyrirtækin fara að leita til annara landa þar sem skattlagning er lægri. Viðbrögðin eru að hækka skattana enn meir á þá sem eftir eru.

Fyrir helgina var lögð fram skýrsla um fátækt á Íslandi. Þar kom fram að 6,6% barna á landinu lifðu við fátækt. Vísað var til að skýrslan hafi verið unnin eftir aðferðum frá OECD og þá á hún að vera óumdeilanleg. Ef hægt er að vísa til einhvers frá útlandinu er það óvéfengjanlegur gæðastimpill í augum margra. Stjórnmálamenn voru þegar komnir í fjölmiðla í gærkvöldi og héldu því fram að nú yrði að fara að útrýma fátæktinni með hækkun barnabóta. Mér finnst í fyrsta lagi frábært að samkvæmt þessari skýrslu skuli 93,4% barna á Íslandi lifa við góðar efnahagslegar aðstæður. Samkvæmt þessari skýrslu eru það því sára sára fá börn sem geta ekki stundað íþróttir eða tómstundastarf vegnafjárhagserfiðleika. Það er nefnilega oft svo í umræðunni að það er fjasað um að það sé gríðarlega stór hluti barna sem geti ekki tekið þátt í slíku tónstundastarfi af fjárhagslegum ástðum. Ef það eru ekki til peningar fyrir þessu þá virðist það fyrst og fremst vera um að kenna forgangsröðun foreldra samkvæmt þessari skýrslu.

En hvernig er fátækt skilgreind? Það kom ekki fram í umfjöllun fjölmiðla í gærkvöldi en skýrðist betur í Mogganum í morgun. Aferðafræði OECD gengur út frá því að fátæktarmörk miðast við ráðstöfunartekjur heimilanna. Fátæktarmörk eru skilgreind sem 50% af miðtekjum. Það eru ekki meðaltekjur heldur tekjur þess heimilis þar sem eru jafnmörg heimili með hærri tekjur og með lægri tekjur. Ef 100.000 heimili eru í landinu þá eru miðtekjur hjá heimili nr 50.000. Það er því sama þótt laun allra væru hækkuð um 100%, þá myndi hlutfall fátækra ekki breytast. Ég verð nú að segja að þetta er dálítið skrítin aðferðafræði. Það er ekki miðað við kostnað við framfærsluþörf annars vegar og ráðstöfunartekjur hins vegar, heldur er miðað við meðaldreifingu. Fátækt er því mjög afstæð samkvæmt þessu. Ef tekjur míns heimilis væru nálægt miðgildi þá væri ég ekki fátækur. Ef tekjur allra annara en mín myndu hækka svo mikið að ég væri með tekjur sem væru meir en 50% lægri en tekjur þess heimilis sem væri miðgildi þá er ég fátækur enda þótt ekkert annað hefði breyst. Vafalaust er ég skilgreindur fátækur miðað við tekjur þeirra sem eru hæst launaðir í samfélaginu en miðað við framfærslukostnað venjulegs heimilis þá er ég langt frá því að vera fátækur. Það er líklega vegna þessa sem einhverjir Vinstri grænna vilja reka ríka fólkið úr landi til að auka jöfnuðinn í samfélaginu. Þá myndi fátækum fækka samkvæmt þessari aðferðafræði. Í Mogganum kemur einnig fram að ef einvörðungu er miðað við launatekjur þá eru búa 12,7% barna við fátækt. Ef áhrif skattkerfis og sérstaklega barna- og vaxtabóta lækkar hlutfallið um 6,1% eða niður í 6,6%. Þegar tekið er tillit til námslána lækkar hlutfallið í 6,3% Ef tekið sé tillit til meðlagsgreiðslna þá lækki hlutfallið enn meir en það er ekki hægt að reikna það út. Nú, það er þá svona, það eru ekki allar tekjur teknar með. Niðurstöðurnar eru því rangar. Það er því enn lægra hlutfall barna sem býr við fátækt en hefur komið fram í fréttum.

Ég hef á tilfinningunni að það sé nauðsynlegt fyrir einhverja að gera sem mest úr þessari umræðu. Heyrði í forstöðumanni Fjölskylduhjálparinnar um að það væri voðalegt ef allir krakkar í skólum væru ekki í hátískufatnaði því það stingi í augun. Ég verð nú bara að segja að þarna finnst mér þykkt skorið. Ég hef aldrei heyrt talað um nauðsyn þess á mínu heimili að það þurfi að kaupa inn dýran tískufatnað til að klæðast í skólanum. Það má vel vera að svo sé annarsstaðar. En að skilgreina það fátækt að vera ekki í gallabuxum sem kosta 15 - 20 þúsund kall, það kaupi ég bara alls ekki.

Þegar ég var í skóla og lifði mestan part á námslánum þá hafði maður ekki mikla peninga milli handanna. Maður stillti þarfirnar eftir fjárhagslegri getu hverju sinni. Þetta var lífstíll sem maður hafði valið og var bara ánægður yfir því að geta verið í skóla enda þótt fjárráðin væru ekki mikil. Í þessari skýrslu hefði ég vafalaust verið skilgreindur bláfátækur. Það er hins vegar rangt í mínum augum. Á námsárum er maður að fjárfesta í framtíðinni. Íslenskt þjóðfélag er þannig að það getur hver sem vill farið í langskólanám. Þó námsmenn hafi takmarkuð fjárráð er það ekki birtingarmynd fátæktar. Það er hörmulegt þegar umræða um jafnalvarlegan hlut og fátækt byggir á svo veikum grunni eins og þessi skýrsla virðist vera. Það verður gaman að heyra hvað Stefán Ólafsson fátæktarsérfræðingur segir í útvarpinu í kvöld. Ég á hins vegar ekki von á að fréttamenn spyrji hann kerfjandi spurninga um aðferðafræðina heldur kói með eins og vanalega.

Engin ummæli: