föstudagur, desember 01, 2006

Skráði mig í fyrradag í Boston maraþon í apríl, nánar tiltekið þann 16. apr. n.k. Ég hef heyrt að það sé góður hópur á leiðinni þangað sem gerir ferðina enn skemmtilegri. Meðan maður er að þessu þá er gaman að taka svona eitt stórt maraþon á ári. Ég fann það í London í vor hvað það er allt önnur upplifun að hlaupa maraþon með 30 - 40 þúsund öðrum og er þá ekki verið að gera lítið úr þeim ágætu hlaupum sem sett eru upp hérlendis.

Fór á fund gærkvöldi inni í Laugalækjarskóla sem haldinn var á vegum Samfoks. Ingvar Sigurgeirsson lektor frá KHÍ var að kynna niðurstöður úr könnun á agavandamálum í grunnskólum. Könnunin er svo sem ágætt skref inn í þessa umræðu en ýmislegt var þó aðfinnsluvert við hana. Í sjö skólum í Reykjavík voru engin vandamál samkvæmt könnuninni (sem er umhugsunarvert, eru þau ekki viðurkennd?), í 21 skóla voru dálítil vandamál en ekki meiri en gengur og gerist en í sjö skólum var allt í hers höndum. Mér fannst niðurstaðan vera sú að ástæðunnar fyrir mismunandi agavandamálum milli einstakra skóla er ekki síður að leita hjá stjórnendum skólanna og mismunandi stjórnunarstíls heldur en hjá börnunum sjálfum. Hverju veldur þegar krakki sem er óalandi og óferjandi í einum skóla og er fluttur úr skólanum vegna agavandamála plumar sig bara vel í næsta skóla?

Ég hef þá trú að skipulag skólastarfs hafi töluverð áhrif á þessu sviði. Of víða eru kennslustundir 2 x 40 mínútur samfleytt án frímínútna á milli eða samtals 1 klst og tuttugu mínútur. Það segir sig sjálft að krakkar á aldrinum 10 - 13 / 14 ára eiga mjög erfitt með að einbeita sér í allann þennan tíma sérstaklega þegar er gerð krafa um að þeir sitji kyrrir og þegi. Fullorðið fólk er farið að missa einbeitningu eftir 3 kortér á fundum eða í kennslustundum, hvað þá krakkarnir. Ég fór í heimsókn í skóla í Finnlandi í fyrra og spurðist fyrir um skipulag frímínútna. Þar er kennslustundin alltaf 45 mínútur og síðan 15 mínútur í frímínútur. Undantekningar voru þó gerðar í handavinnu eða matreiðslu. Finnarnir sögðu að svona skipulag eins og er hérlendis væri hreinlega bannað í Finnlandi. Börn þurfa hreyfingu og er nauðsynlegt að leika sér. Ef skólastarfið verður leiðinlegt og þvingandi þá vakna alls kyns draugar.

Partur af þessari þróun er að stærstur hluti kennara í grunnskólum eru konur. Nú eru konur sem slíkar alls ekki lakari kennarar en karlar en þær hafa önnur viðhorf og aðra sýn. Þegar kynjahlutföllum á vinnustað eins og í grunnskólum fer að halla svo á aðra hliðina eins og raun ber vitni hérlendis þá er hætta á að upp spretti alls kyns vandamál. Þetta er ekki gott við að gera en það má ekki gleyma þessu sjónarmiði.

Mér fannst Ingvar hafa raunsæa sýn á viðfangsefnið og lesa úr niðurstöðunum á skynsaman máta. Eini gallinn við fundinn var að hann var giska fámennur. Hér er á ferðinni umræða sem á erindi til allra foreldra en ekki einungis örfárra. Síðan er lokaspurningin, hafa ekki alltaf verið agavandamál í grunnskólum? Er það bara ekki partur af hinu daglega lífi. Þegar fólk fer að rifja upp sín unglingsár, þá gekk oft dálítið á, var það ekki?

Engin ummæli: