þriðjudagur, desember 05, 2006

Ég sé að ég hef verið ansi heppinn að hafa látið vaða í Western States í fyrra. Í sumar ætlaði hitinn alla að drepa umfram það sem venjulegt er og nú er aðsóknin svo mikil að það er einnig farið að draga úr útlendingahópnum. Fram til þessa hafa einungis bandaríkjamenn verið dregnir út en erlendir ríkisborgarar komist beint inn en nú er öldin önnur. Þrír norðurlandabúar höfðu tilkynnt þátttöku sína en einungis einn komst inn. Ég sé að Ástralir koma mjög sterkir inn á næsta ári. Vegna aðstæða takmarka skipuleggjendur fjölda þátttakenda við um 400 manns. Þetta er til marks um það að áhugi fyrir alvöru ultrahlaupum fer vaxandi víða um heim.

Norðmenn eru farnir að skilgreina betur hjá sér hvað telst unnið afrek. Ég sé t.d. að til að fá skráða þátttöku í 6 tíma hlaupi þurfa viðkomandi að hlaupa að lágmarki 50 km. Þetta er einnig til marks um aukinn áhuga og meiri kröfur. Ég hef ekki séð slík lágmörk í 12 og 24 tíma hlaupum.

Sá í sænsku blöðunum í gær að vísindamenn eru komnir að þeirri niðurstöðu að lífstíll fólks á árunum milli 50 og 60 ára ræður mestu um hve menn lifa lengi og vel. Óhófleg víndrykkja, reykingar, hreyfingarleysi, hár blóðþrýstingur og offita styttir líf fólks verulega ef skrokkurinn þarf að standa undir þessu þegar komið er yfir fimmtugt. Sænskir töldu að menn gætu bætt einum 10 árum við gott líf ef fimmtugt fólk reykti ekki og drykki vín í hófi, hreyfði sig reglulega og væri ekki að druslast með aukakíló í of miklum mæli. Á þessum árum fara líklega frumur líkamans heldur að gefa eftir og ef álagið á þær er of mikið þá láta þær fyrr undan.

Stundum er maður pirraður yfir umræðunni. Það hefur verið rætt mikið um heimilisofbeldi að undanförnu og alltaf á þá leiðina að karlinn sé gerandi og konan þolandi. Ég hef reyndar ekki séð neina skilgreiningu á því hvað heimilisofbeldi er. Eru það barsmíðar, öskur og læti, hrindingar, fúkyrði, andleg kúgun eða kannski allt þetta? Nú er það ljóst að ofbeldi hefur verið til staðar, er til staðar og verður til staðar. Það er hins vegar af hinu góða að draga djöfulskapinn fram í dagsljósið og reyna að draga úr honum. Meinið verður hins vegar seint upprætt. Mannskepnan er svoleiðis. Sá grein í Mogganum í morgun um þess mál þar sem sagt var að í norskri rannsókn hefði komið fram að heimilisofbeldi ætti sér stað á fjórða hverju heimili. Ekki var talin ástæða til að ætla að málin væru öðru vísi hér. Þá vitum við það. Ég minnist þess þegar ein talskonan fullyrti að fjórði hver karlmaður væri nauðgari og vísaði í skandinavískar rannsóknir. Þá vissu menn það. Ég sakna þess í umræðu um þessi mál að það er alltaf fjallað um málið eins og karlpeningurinn sé sökudólgurinn og konur fórnarlömd. Af hverju er ofbeldi kvenna gagnvart karlmönnum inni á heimilum ekki rannsakað. Ég veit ekkert um hvaða niðurstöður kæmu úr slíkum rannsóknum en ég veit að það er til. Ég skil ekki af hverju það ætti að vera svo mikið tabú að ræða þessa hlið málsins fyrst er farið að opna umræðuna um hina hlið þess, eða er það kannski öðruvísi?!! Birtingarmynd ofbeldis getur verið á marga aðra vegu en barsmíðar og ætla ég þó ekki að mæla þeim bót. Í skilnaðarmálum er mæðrum nær undantekningarlaust dæmt forræði yfir börnunum nema eitthvað mjög mikið sé að hjá móðurinni. Maður heyrir síðan sögur af því hvernig börnum er miskunnarlaust beitt gagnvart föðurnum í þessu samhengi. Ég þekki hörmulegar afleiðingar slíkra mála. Þegar einstæðir feður fara að tala um þetta þá spretta upp hraðar en hratt ótal sögur um einhverja helvítis karla sem vildu ekkert skipta sér af börnunum eftir skilnað og málið er afgreitt. Jafnréttisfrömuðirnir láta sér þetta hins vegar í réttu rúmi ligga því þetta er ekki interessant og selst ekki í umræðunni. Fjölmiðlar hafa heldur ekki áhuga á þessu. Hvers vegna? Líklega vegna þess að málefni karla eru ekki áhugaverð. Þeir eru að ýmissa mati forrréttindahópur sem hefur kúgað hitt kynið í gegnum aldirnar og nú skal sögunni snúið við. Loksins.

Þetta sjónarmið virðist ráða ferðinni hjá hluta þeirra sem fara fremst í flokki í hinni svokölluðu jafnréttisbaráttu bæði hérlendis og erlendis. Ég var þó ánægður með að heyra í forsvarskonu Stígamóta á Akureyri á dögunum. Hún kom inn á það sem maður heyrir annars aldrei talað um að það mætti ekki gleyma því í allri umræðunni um nauðganir að körlum væri einnig nauðgað og kæmi það meir að segja nokkuð oft fyrir. Þetta er annars aldrei talað um. Í umræðunni um vændi er alltaf talað um konum sem fórnarlömbin. Í niðurstöðum könnunar um vændi sem ég sá í fyrra kom fram að það væru mun fleiri strákar en stelpur á framhaldsskólaaldri sem seldu sig. Ég man ekki til þess að þetta vekti neinn áhuga hjá þeim sem umræðunni stjórna.

Starfsfólkið hér í vinnunni og makar fóru á Hereford Steakhouse á föstudagskvöldið til að gera sér glatt kvöld. Það var ágætt en helst til mikill hávaði í einhverjum strákum sem voru að spila og syngja. Það var svo sem þeir héldu að það væri hægt að vega það upp sem vantaði á gæðin með hávaða. Maturinn var svo sem ágætur en smáatriðin skipta einnig máli. Þegar ég bað um te var komið með stóran tekassa en í honum alls 4 tepokar þar af einn Melroses tea sem er versta te í heimi. Þegar ég fékk næst te voru þrír pokar í kassanum.

Engin ummæli: