Veðrið undanfarna daga hefur verið með ósköpum og ekki séð fyrir endann á því enn. Þetta minnir mann reyndar bara á hvar maður býr og að það er vetur. Undanfarnir vetur hafa verið það mildir og veðurgóðir að fólk er farið að gleyma því hvað almennilegur vetur er. Við þessar aðstæður kemur glöggt í ljós hve miklu hlutverki björgunarsveitir gegna um allt land. Þær hafa víða unnið stórvirki við erfiðar aðstæður þessa dagana við að bjarga margháttuðum verðmætum og forða stóráföllum. Eitt stingur mann þó í augun. Þegar rætt er við björgunarsveitamenn sem hafa staðið í ströngu er alltaf rætt við kalla. Af hverju gerir talskona Feminstafélagsins ekki eitthvað í málinu?
Nú er hafin umræða um árás endurskoðunarsinna og realista á gamla jólavísu sem hafði verið sungin svo áratugum saman ...upp á stól, stendur mín kanna... Uppeldisfræðingaliðið þoldi ekki eitthvað sem það skildi ekki og breytti textanum í ... upp á hól, stend ég og kanna .... Tveir virtir fræðimenn hafa fært að því óyggjandi rök með myndum og máli að gamla versjónin er bæði rökrétt og byggir á staðreyndum. Vonandi lætur fólk af þessari vitleysu því hvað veit maður hvað kemur næst.
Þegar maður var krakki lék maður sér gjarna með sverð og skjöld. Það voru vopn sem fyrirmyndir manns í vopnaburði notuðu gjarna svo sem eins og Eiríkur víðförli, frægur víkingur. Síðar kynntist maður skammbyssum eftir að maður fór að lesa teiknimyndasögur um Kidda Kalda, Panco og Dreka. Þá urðu knallettubyssur draumurinn. Öll kom þessi viska úr Tímanum, blessuð sé minning hans!! Þegar börn nútímans lesa fornssögur í skólanum s.s. Njálu og Grettissögu er ekki ólíklegt að það vefjist fyrir þeim hvað er verið að tala um þegar vopnum þeirra tíma manna er lýst svo dæmi sé tekið. Ef endurskoðunarsinnum er gefinn laus taumurinn er viðbúið að það verði farið að staðfæra þetta eins og annað. Því er rétt að spyrna við fótum enda þótt aðeins sé um að ræða lítið gamalt jólakvæði.
Maður gat ekki annað en dáðst að stúlkunni sem kom fram á Stöð 2 í gærkvöldi og ræddi þar opinskátt um samskipti sín við forstöðumann Byrgisins. Mér dettur ekki annað í hug en að hún hafi verið undir miklum þrýstingi um að þegja því ella væri það á hennar ábyrgð ef starfsemin færi upp í loft. Öll þessi saga sem kannske er minnst af komin í dagsljósið ætti að kenna þeim sem völdin hafa hve varhugavert það er að fela einstaklingum sem skrýða sig trúarkufli framkvæmd verkefna sem ríkið á sjálft að standa fyrir. Heimilið í Gunnarsholti var vafalaust lagt niður og þeim Byrgismönnum lagt til fé af því að það var ódýrari lausn. Síðan virðist eftirlit með starfseminni hafa verið afar takmarkað, alla vega hvað varðaði fjármálin. Svo mikið veit ég að ef svona mál hefði komið upp í Skandinavíu eða Danmörku þá væri það talið mjög alvarlegt og myndi teygja sig upp í hæstu hæðir stjórnkerfisins. Byrgið er að hluta til rekið fyrir opinbert fé og því er ábyrgð stjórnkerfisins veruleg.
föstudagur, desember 22, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli