sunnudagur, desember 31, 2006

Ég dreif mig loksins í fyrrakvöld og fór að sjá Borat og varð ekki fyrir vonbrigðum. Enda þótt maður hafi heyrt og séð ýmislegt úr henni þá er myndin stórkostleg skemmtun allan tímann. Margar óborganlegar senur eru í myndinni s.s eins og þegar hann fer inn í byssubúð og spyr hvaða byssur eru bestar til að skjóta gyðinga með. Afgreoðslumaðurinn sagði án þess að blikna að 9 mm eða Colt 45 væru bestar til þess. Eina ástæðan fyrir því að hann fékk ekki að kaupa sér skotvopn var að hann var erlendur ríkisborgari. Ekki er senan hjá sértrúarhópnum síðri. Múgsefjunin og geðveikin var í raun og veru óhugguleg. Mér fannst ég kannast við ákveðna takta af því sem maður hefur séð frá forstöðumanni Byrgisins.

Hitti Halldór og Jóa í gærmorgun við brúna og við tókum góðan hring í gegnum næstu sveitarfélög í fínu veðri. Fórum til Hafnarfjarðar en sáum engan þar á ferli svo við fórum bara heim aftur eftir að hafa lagt um 25 km að baki. Skrapp svo með pabba og mömmu til Selfoss eftir matinn að heimsækja bróður pabba og fjölskyldu hans. Það var gaman að hitta þau og fara yfir ýmislegt frá fyrri árum. Ari frændi var jarðýtustjóri í 28 ár og kann frá mörgu að segja frá þeim tíma. Flest hefur breyst frá þeim árum. Þegar hann var t.d. við annan mann á vorin við snjómokstur á heiðum og hálsum í Barðastrandarsýslunni þá var það yfirleitt um þriggja vikna úthald. Vinnulagið var þannig að þeir voru tveir á ýtunni, annar vann en hinn svaf í bílnum eða las bók. Þannig gekk vélin allan sólarhringinn og voru vaktaskipti á klukkutíma fresti. Þegar þannig stóð á spori var ekki farið heim um helgar heldur haldið áfram þar til verki var lokið. Rúm, sturta, heitur matur eða fataskipti var munaður sem yfirleitt þýddi ekki einu sinni að hugsa um í svona túrum.

Horfði á Myrkrahöfðingjann í gærkvöldi. Þetta er léleg mynd að mörgu leiti. Eins og svo oft þá getur Hrafn ekki hamið sig þegar hann er að lýsa aðstæðum á þessum tíma eða var þetta kannski bara svona. Hver veit? Í þessari mynd eru sá versti fingurbrjótur sem ég hef séð í bíómynd. Í myndinni er yfirleitt allt á kafi í snjó. Þegar sýslumaðurinn ríður austur til að dæma galdramennina þá er snjór yfir öllu og skafrenningur. Svo eru aðstandendur galdramannana sendir til að rífa hrís í bálið því það var þeirra skylda. Þá er allt í einu komið fínt haustveður, hvergi snjó að sjá og allt í þægilegheitum. Daginn eftir þegar á að fara að brenna er kominn sami snjórinn yfir allt aftur. Þetta er náttúrulega ekki hægt ef menn vilja láta taka sig alvarlega.

Árið hefur verið gott. Þau markmið sem sett voru náðust en þau voru svo sem ekki neitt stórkostleg. Eitt er ég þó mjög ánægður með að skyldi ganga eftir en það er sex tíma hlaupið í september. Ég veit að það verður fjölmennara næsta haust því þetta er mjög gott skref fyrir rútíneraða maraþonhlaupara til að fara að takast á við aðra aðferðafræði og lengri hlaup. Fínn stökkpallur upp í 100 km og þaðan af lengra. Ég er ekki í vafa um að þetta á eftir að springa út á komandi árum eins og í nálægum löndum. Hvort það fjölgi um 100% á næsta ári í 100 km félaginu eins og í ár skal ég ekki segja til um en fjölgun verður. Menn eru þegar farnir að skrá sig.

Ég er persónulega afar sæll með að hafa tekið til í mataræðinu um mitt ár. Ég hef ekki þyngst um eitt gramm um jólin en samt sem áður finnst manni maður alltaf vera að borða og borða. Ég er nú um 8 kílóum léttari en um áramótin í fyrra. Eftir hátíðarnar fyrir ári síðan var ég kominn upp í níutíu kíló og gat síðan sargað af mér tvö með harmkvælum yfir veturinn. Þegar ég hætti að troða mig út af ónauðsynlegum kolvetnum þá fuku kílóin hins vegar án fyrirhafnar og eru nú eins mörg og ég vil hafa þau. Maður finnur glöggt hvað maður er léttari, sterkari og hlaupin fyrirhafnarminni nú en fyrir ári síðan. Þó hef ég ekki verið að hlaupa mikið að undanförnu.

Ég borða kjöt, fisk, ávexti og grænmeti og mikið af þessu öllu. Í hádeginu í vinnunni mixa ég saman banana, prótein duft og mjólk. Hafragrautur, rúsínur og hunang er morgunmaturinn. Sætindin eru döðlur, vínber og mandarínur. Ég borða ekki kökur, sætt kex, sælgæti, smjör eða sósur og smakka rétt einstaka sinnum á kartöflum, brauði, hrísgrjónum og pasta og þá mjög lítið. eins og stendur sé ég enga ástæðu til að breyta þessu. Það er svo merkilegt að enda þótt smákökur og sælgæti séu á hverju borðshorni yfir jólin eins og venja er þá kemur mér það ekki við. Mig langar ekki hið minnsta í mola. Hér áður gat maður ekki hætt fyrr en skálin var búin. Það er kannski ekkert voðalega gaman að bjóða mér í veislu vegna þess að maður tekur ekki af öllum sortum en mér finnst það sem ég borða vera mjög gott.

Um áramót er rétt að setja markmiðin niður. Ég er búinn að skrá mig í Boston maraþon. Það verður örugglega jafn gaman eins og í London í ár. Marsmaraþonið og haustmaraþonin verða á sínum stað. Síðan stefni ég á 24 tíma hlaup á Borgundarhólmi í byrjun maí og er búinn að kaupa flugmiðann. Það er ekki síður andleg þrekraun heldu en líkamleg en það er partur af þessu. Þar er hlaupið á hring sem er 1,8 km langur. Í þessum hlaupum skiptit taktikin höfuðmáli. Ég vonast til að komast í Mývatnsmaraþon og Laugaveginn. Um mánamótin júní/júlí bíður áskorun sem hefur verið að gerjast í vinnunni. Kemur í ljós síðar. Ég vonast til að komast í RM en vinnan og RM hafa stundum flækst saman og þá er ljóst hvað verður að víkja. Síðan bíður Sparthathlon þann 26. - 27. september. 240 km milli Spörtu og Aþenu. Það er LSD. Þangað er langur vegur og mjörg ljón á veginum. Þangað til er níu mánaða prósess þar sem margt getur gerst á leiðinni og ekkert sjálfgefið. En ef maður hefur ekki skýr markmið þá má taka sér orð kattarins í Lísu í Undralandi í munn: "Þá skiptir ekki máli hvaða leið þú velur".

Ég óska öllum þeim sem kíkja inn á síðuna gleðilegs árs með þakklæti fyrir árið sem er að líða með ósk um mörg og árangursrík hlaup þar sem það á við.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Takk sömuleiðis, gleðilegt ár Gunnlaugur minn. Megi þau verða mörg engu síðri en þetta.