miðvikudagur, desember 20, 2006

Ég hlustaði nýlega á endusýningu á þættinum sem sendur var út árið 1984 þegar Milton Friedman sat fyrir svörum í sjónvarpssal. Ólafur Ragnar, Birgir Björn og Stefán Ólafsson voru þar mættir sem gagnrýnir fræðimenn hvað varðar kenningar Friedmans. Það var eiginlega frábær skemmtun að horfa á þáttinn. Sá gamli hafði allt á hreinu og tók þá íslensku á hné sér í fræðunum. Þarna var ekki að merkja neinn aðstöðumun vegna málakunnáttu því andmælendurnir þrír voru ágætlega mæltir á enska tungu svo það hallaðist ekki á af þeim sökum. Á margan hátt einkenndist málflutningur þremenninganna af frasapólitík eða fyrirfram mótuðum fullyrðingum sem síðan stóðust ekki þegar komið var í návígi. Á þeim tuttugu árum sem liðin eru frá því þátturinn var sýndur sér maður að stærstur hluti af kenningum Friedmans hefur staðist tímans tönn og sannað sig. Karlinn hafði einnig góða áru, var brosmildur og kátur með allt á hreinu á meðan þremennngarnir voru samanherptir og þungbrýndir yfir því að sitja þarna augliti til auglitis við ódáminn sjálfan. Ég skil hins vegar ekki hví þátturinn var sýndur eftir miðnætti. Skyldi það hafa verið gert af tillitssemi við hina íslensku þátttakendur?

Heyrði nýlega viðtal við veðurfræðing í útvarpinu. Spyrillinn talaði dálítið um veðurfræði og veðurspádóma en kom svo með hliðarspurningu. Hann vildi spyrja veðurfræðinginn um Árna Thorlacíus. Veðurfræðingurinn vissi ekkert hver Árni Thorlacíus var. Spyrillinn sagði að hann hefði verið frumkvöðull í veðurmælingum á Íslandi. „Já, hann með veðurathugunarstöðina á Bessastöðum“ sagði veðurfræðingurinn. Það var nú ekki alveg svoleiðis því Árni Thorlacíus hóf veðurmælingar í Stykkishólmi árið 1841 (að því mig minnir) og þar hafa verið stundaðar veðurmælingar óslitið allar götur síðan, lengst allra staða í heiminum. „Æ, ég vissi þetta ekki“ sagði veðurfræðingurinn, „ég lærði nefnilega í Bergen.“ Fyrir alla þá sem hafa smá áhuga og vitneskju á veðri þá eiga menn að kannast við Árna Thorlacíus, hvað þá þegar um lærða veðurfræðinga er að ræða. Enda þótt þetta sé ekki kennt í veðurfræðinámi í Bergen þá eru svona hlutir partur af þeirri alhliða þekkingu sem verður að gera kröfu til að fagfólk hafi til að sjá aðeins út fyrir bókarröndina.

Engin ummæli: