þriðjudagur, desember 19, 2006

Maður les stundum í erlendum blöðum um trúarlega söfnuði þar sem forstöðumaðurinn hefur náð slíku heljarvaldi yfir safnaðarmeðlimum að þeir hlýða honum í einu og öllu. Orð hans eru lög. Ett þekktasta dæmið á seinni árum frá nágrannalöndum okkar er norski presturinn Helge Fossmo sem starfaði í sænskum söfnuði í Knutby. Hann hélt við barnagæsluna á heimilinu og náði slíkum tökum á henni að hann fékk hana til að skjóta konuna sína og eiginmann annars viðhalds sem hann átti innan safnaðarins. Konan dó en eiginmaður hinnar konunnar lifði af. Grunsemdir eru uppi um að presturinn hafi einnig myrt fyrri konu sína. Slíkur heilaþvottur fer yfirleitt fram undir formerkjum trúar og trúarsannfæringar. Sannfæringarkraftur slíkra einstaklinga er gríðarlegur og með ólíkindum hvað þeir geta komist langt.

Þegar maður horfði á Kompáss þáttinn um Byrgið var ekki hægt að komast hjá því að leiða hugann að svona hópum þar sem einn einstaklingur deilir og drottnar og gegnur yfirleitt miklu lengra en eðlilegt er talið. Í Byrgis tilfellinu er sérstaðan sú að þar er um að ræða skjólstæðinga sem eru að leita hjálpar og treysta þeim sem ferðinni ráða. Þeir hafa í fá önnur skjól að leita. Staða þeirra er því ekki sterk. Sterkir persónuleikar hafa því nær öll ráð þeirra í hendi sér.
Ég skil forstöðumann Byrgisins að hafa ekki mætt í Kastljósið í gærkvöldi.

Mér finnst ýmislegt athyglisvert hafa komið fram í dagsljósið fyrir utan meinta misnotkun frstöðumannsins á skjólstæðingum sínum. Viðbrögð þeirra sem voru að tjá sig um málið á bloggsíðum voru um margt athyglisvert. Ýmsir vildu halda því fram að það væri verið að brjótast inn í friðhelgi einkalífs forstöðumannsins. Aðrir töldu almenning litlu varða hvað hann gerði í sínu svefnherbergi. Enn aðrir álösuðu Stöð 2 að hafa lanserað þættinum rétt fyrir jólin og þannig spillt jólagleði forstöðumanns Byrgisins og fjölskyldu hans. Maður getur ekki annað en leitt hugann að því hvort þeir hinir sömu myndu vera svipaðrar skoðunar ef þeir ættu unga dóttur sem hefði lent í erfiðleikum með eiturlyf og byndu vonir við að það tækist að snúa þeirri vegferð við með dvöl á Byrginu en kæmust svo að því hvað færi fram þar innan dyra samkvæmt Kompáss þættinum.
Í annan stað vekur staða og eftirlitsskylda stjórnvalda upp margar spurningar. Það hefur verið dælt peningum í þessa starfsemi árum saman eftirlitslaust, enda þótt komið hafi fram að fjármálaumsýsla væri öll í skötulíki. Skýrslu um málefni Byrgisins var stungið undir stól. Hvers vegna og af hverjum??? Það kemur fram að starfsemin hefur engin tilskilin leyfi til afeitrunar eða meðferðar eiturlyfjasjúklinga. Í gærkvöldi kom svo framhja Stöð 2 að fasteignaumsvif Byrgisins hafa farið vaxandi. Hvaðan koma peningarnir til þeirra hluta og hver hefur eignarhald á fasteignunum?

Það verður fróðlegt að fylgjast með framhaldinu.

Engin ummæli: