Stjórn sambandsins var með vinnufund á Ísafirði á fimmtudag og föstudag. Það var gaman að koma vestur eins og endranær. Flugvélin þurfti að hringsóla í nær klukkutíma yfir inndjúpinu áður en hægt var að skjóta henni niður. Ísafirði var 100% logn svo kaupstaðurinn stóð á höfði í pollinum. Ótrúlega fallegt. Skemmtiferðaskip var í höfninni, eitt af nær 30 sem koma þar við í sumar og skila af sér miklum fjármunum í hafnarsjóð og nær 30.000 manns upp á kæjann í skemmri og lengri skoðunarferðir. Við komumst t.d. ekki út í Vigur vegna umferðar!! Þegar svetiarstjórn og hafnarstjórn Ísafjarðarbæjar hóf að kynna Ísafjörð á söluráðstefnum skemmtiferðaskipa erlendis fyrir um 10 árum síðan var það gagnrýnt harðlega af heimamönnum. Markmið viðkomandi með slíku brasi var af mörgum talið vera það eitt að komast í skemmtiferðir til útlanda. Tíu árum síðar liggur árangurinn fyrir, nær 30 skip komu í sumar og um 30.000 gestir. Það yrði lítið um framfarir og þróun ef úrtöluraddirnar fengju alltaf að ráða.
Eins og oft var farið í skoðunarferð um nágrennið með heimamönnum. Við fórum fyrst inn í Engidal og sáum þar nýopnaða virkjun sem nýtir afl vatnsins sem kemur úr göngunum (um 700 sekúndulítrar). Síðan skoðuðum við fossinn í göngunum og enduðum á því að fara út í sjókvíar í Súðavík. Þar er þorskur alinn í kvíum, bæði klakfiskur og seiði sem veidd eru í Djúpinu. Það stendur til að slátra 500 tonnum úr þessum kvíum á næstunni. Það er álíka magn og meðalvertíðarbátur veiddi hér á árum áður. Þessi fiskur er allur utan kvóta. Fyrirtækin sem standa að þessu líta á kvíaeldið sem helstu framtíðarþróunarmöguleika þeirra vegna þess hve kvótinn er dýr.
Helgin var heldur róleg. Fór Kársneshringinn í morgun og endaði í um 20 km með góðum brekkusprettum. Tók tröppurnar 3svar og endaði á HK brekkunni.
Myndin Fargo var skemmtileg í sjónvarpinu í gærkvöldi eins og við var að búast. Ég hef séð hana áður en hún eldist mjög vel. Karakterarnir eru skemmtilegir og mállýskan sem er töluð á þessu svæði í Canada er sérstök. Þetta langa jaaaaaaaaaa sem er rauður þráður í samtölum fólksins setti sérstakan blæ á myndina. Örþrifaráð bílasalans sem hafði farið yfir mörkin í fjármálunum endaði með 7 líkum.
sunnudagur, september 02, 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Bara til gamans, þá er Fargo í Norður-Dakota!
Takk fyrir Elín. Vonandi hefur þú haft jafn gaman af myndinni eins og mér.
Skrifa ummæli