Eitt af því sem er ágætt við jólin er að það er gott efni í sjónvarpinu til að horfa á ef ekki er annað að gera. Í kvöld voru m.a. tvær góðar myndir. Hin fyrri var í sjónvarpinu og var um Jón heitinn Pál sterkasta mann heims og superstar. Það er afar gott framtak að gera þessa mynd um Jón Pál til að halda minningu hans á lofti í samþjöppuðu formi. Jón var einstakur maður um margt. Fyrir utan sína gríðarlegu krafta og einbeitta vilja þá hafði hann hæfileika skemmtikraftsins í ríkum mæli og skildi manna best hve miklu skipti að tvinna saman íþrótt og skemmtun. Maður áttaði sig ekki á því fyrr en við að sjá þessa mynd hve stór hann var á þessum vettvangi. Hann var súperstar í Skotlandi og víðar. Það segir kannski best hvaða ses hann hafði með skotum þegar hann er valinn til að kynna Hálandadaleikana í auglýsingaherferð um þá, þjóðaríþrótt skota. Það er synd að hann skuli ekki hafa verið uppi á síðustu árum þegar miklu meiri peningar eru til í samfélaginu og hefði verið auðveldara fyrir hann að afla sér stuðningsaðila til að geta helgað sig íþróttinni áhyggjulaus af fjármálum.
Seinni mndin var á Skjá 1 og var sýnd í tveimur hlutum. Hún fjallaði um kanadískan leiðangur á Mt. Everest sem var farinn árið 1982. Leiðangurinn varð fyrir miklum áföllum og missti fimm menn, tvo kanadamenn og þrjá sherpa. Engu að síður komust fjórir á tindinn, tveir kanadamenn og tveir sherpar. Það er ekki síst áhugavert að horfa á svona myndir með það í huga að félagi Ásgeir Jónsson hefur það á stefnuskránni að klífa Mt. Everst í för sinni um The Seven Summits. Hann er þegar kominn áleiðis og mun næst fást við hæsta fjall Ameríku í vetur. Í myninni kemur vel fram hvílikt þrekvirki það er að klífa svona fjöll og að það eru hættur við hvert fótmál. Það eru einungis þeir hraustustu, öguðustu og skynsömustu sem fara alla leið í svona leiðöngrum.
miðvikudagur, desember 26, 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli