sunnudagur, desember 16, 2007

Ég er allur að verða góður í hásininni. Held að það hafi gert henni gott að fara að hlaupa inni. Líklega hefur mér kólnað á fætinum um daginn þegar bólgan hljóp sem verst upp. Mér finnst ég vera í betra formi en í fyrra þegar ég fór að hlaupa inni og sterkari. Small í dag yfir mesta hlaupamagn á ári sem ég hef hlaupið hingað til eða rúmlega 3000 km. Ég hljóp svo sem aldrei mjög mikið í ár en hljóp aftur á móti nokkuð jafnt yfir árið. Þetta er einungis annað árið sem ég hleyp meir en 3000 km. Maður ætti náttúrulega að fara yfir 4000 km til að hafa þetta almennilegt og auka gæðin sömuleiðis. Þá væri maður nokkuð góður. Það hefur tvímælalaust verið til bóta að breyta mataræðinu í fyrra. Kolvetnin hafa því sem næst horfið úr matnum. Breytingin er áberandi. Maður er laus við aukakílóin og er einnig sterkari. Löngunin í sykur er alveg horfin. Það verður áhugavert að sjá hvernig Herbalivið kemur út. Ég fæ mér góðan slurk áður en ég fer á æfingu og síðan strax á eftir. Er byrjaður á að taka styrktaræfingar á fæturna í Laugum og ætla að halda því áfram í vetur.

Það hefur verið skítaveður að undanförnu í vikunni, hver lægðin eftir aðra. Ég heyrði fréttamann segja frá því með andköfum að þetta væri versta veður sem hefur gengið yfir Vesturland í heil 10 ár. So what. Tíu ár eru ekki langur tími. Enda þótt þetta væri drulluslæmt veður þá var þetta ekki skaðaveður að marki. Þau hafa komið fjölmörg verri. Mestu vandræðin hér syðra voru vegna þess að fólk hafði ekki gengið frá eigum sínum og verktakar ekki gengið frá drasli og byggingarefni á byggingarstað. Það flokkast undir draslaraskap og slóðahátt. Verst var þegar björgunarsveitir voru kallaðar út á sömu staðina þrisvar sinnum í sömu vikunni vegna þess að viðkomandi höfðu ekki rænu eða nennu á að gera klárt á vinnustaðnum.

Ég man best eftir skaðaveðri í lok janúar 1966. Þá var ég 14 ára og var heima yfir veturinn. Það var hvasst á norðan á laugardeginum en hægði undir kvöldið þegar hann var að snúa sér yfir í norðaustrið og herti síðan heldur betur á því um nóttina. Maður svaf ekki mikið þegar fór að morgna. Það sló í logn á milli en svo heyrði maður ýlfrið í rokinu þegar hviðurnar nálguðust og síðan var eins og risi tæki húsið, lemdi það að utan og skekti til svo allt ætlaði um koll að keyra. Klukkan hefur verið orðin um 8.00 þegar klæðningin í loftinu í herberginu sem ég svaf í sviptist niður eins og henni hefði verið rennt í sundur með rennilás. Síðan hvarf glugginn fyrir ofan rúmið mitt út í buskann í heilu lagi. Þarna mátti litlu muna að það hreinsaðist ofan af húsinu. Þá hafði brotnað gluggi á loftinu og vindurinn sprengdi sér leið út þar sem minnst var fyrirstaðan. Þegar birti þá gaf á að líta. Kýrnar stóðu á básunum í þaklausri tóftinni fyrir framan bæinn og eins var allt horfið ofan af hlöðunni. Ekki bætti úr skák þegar sást að hurð hafði slitnað upp á nýbyggðum fjárhúsum og var viðbúið að þakið sviptist af þeim. Pabbi reyndi að komast milli húss og bæjar til að loka dyrunum á fjárhúsunum en komst rétt í næsta símastaur og hékk þar á honum þar til hann komst heim aftur. Hann marðist allur á bringunni þegar hann stóð við staurinn með bakið í veðurofsann. Það var síðan ekkert að gera nema bíða eftir að veðrinu slotaði. Bragi frændi reyndi að komast milli bæja á traktor en varð frá að hverfa því veðrið svipti vélinni til á veginum þannig að hann hamdi hana ekki. Það tókst að koma kúagreyjunum upp í tóm fjárhús undir kvöldið og koma þeim þannig undir þak og gefa þeim tuggu. Veðrið datt ekki niður fyrr en á þriðja degi. Stór hluti að þakinu var horfinn af húsinu, skepnuhúsin í rúst en þau voru kannski ekki mjög merkileg. Kýrnar geymdar í einni kró uppi í fjárhúsi og ekki hægt um vik að mjólka þær eða fóðra. Það tókst síðan eftir nokkra daga að útbúa aðstöðu fyrir þær með hjálp góðra granna og síðan var húsið lagað að innan svo það varð íbúðarhæft á nýjan leik. Neglt var fyrir gluggann í herberginu mínu en ekki var hægt að ná í gler um veturinn. Ég man eftir því að það var oft skratti kalt í herberginu um veturinn en maður komst upp á lag með að vefja sænginni um sig þannig að kuldinn komst ekki að manni. Á þessum tíma voru veturnir oftast bæði kaldir og snjóþungir. Kirkjan i Saurbæ splundraðist í þúsund mola í þessu veðri og stóð predikunarstóllinn einn á grunninum þegar að var komið.

Það er ekki hægt að ímynda sér svona veður, þau verða menn að reyna á eigin skinni til að skynja kraftana sem eru þar á ferðinni.

Engin ummæli: