Það hlaut að koma að því að fólk af báðum kynjum misstu þolimæðina gangvart hinni svokölluðu jafnréttisumræðu. Öfgafullir feministar hafa árum saman dælt gagnrýnislítið yfir almenning röngum fullyrðingum auk allskonar hálfsannleiks sem hefur átt að sannfæra almenningsálitið um að konur á Íslandi séu kúgaðar og undirokaðar af körlum. Misgjörðir glæpamanna hafa blygðunarlaust verið alhæfðar yfir á alla karla: "Karlar nauðga konum", "karlar berja konur". Umræða um meintan launamun kynjanna hefur verið skrumskæld á alla mögulega kanta og ráðist af mikilli grimmd á þá sem hafa reynt að færa umræðuna inn á vitrænt svið. Má taka viðbrögðin við greinum háskólaprófessorana sem dæmi þar um. Síbyljan um hve konur séu undirokaðar og kúgaðar dynur látlaust í fjölmiðlum eins og ég hef stundum farið yfir hér á þessari síðu. Fullyrt er látlaust að ekkert hafi miðað í jafnréttismálum kynjanna hérlendis áratugum saman enda þótt hver venjulegur maður þurfi bara að opna augun til að sjá hvílík fjarstæða það er. Yfirleitt eru rökin sem færð eru þessu til stuðnings niðurstöður úr talningu á fjölda kvenna í stjórnum fyrirtækja á Verðbréfaþingi. Það er hið endanlega markmið sem allt snýst um virðist manni á stundum.
Ég hef í þessari umræðu tekið mið af því hvað ég eigi að segja við mína eigin dóttur. Á ég að þylja yfir henni dag út og dag inn hve konur séu undirokaðar á allan mögulegan hátt af karlafjöndunum eða á ég að segja að konur og karlar hafi jöfn tækifæri í samfélaginu og það sé undir henni sjálfri komið hvernig hún nýti sér þau? Henni standi allar dyr opnar í námi og starfi ef hún haldi vel á sínum spilum. Ég veit með vissu að hinn seinni útgangspunktur er henni hollara vegarnesti út í lífið enda er hann staðreynd.
Þegar öfgafullir feministar gerðu grímulausa tilraun til að ritskoða vinsælasta umræðuþátt landsins og hefta þannig málfrelsi í landinu með því að krefjast þess að tommustokksaðferðinni væri beitt á allar umræður í ríkisfjölmiðlum var mörgu fólki nóg boðið. Þegar ofan í þetta var farið að tala um að nota kynlaus föt á fæðingardeildum var fólki öllu lokið.
Ég held að þeir sem kveinka sér mest undan viðbrögðum almennings þessa dagana ættu að líta í sinn eigin barm og reyna að átta sig á hvað valdi því að orðið feministi er hefur neikvæða merkingu í huga alls almennings og er orðið að skammaryrði í hugum margra.
Hún var áhrifamikil greinin sem konan skrifaði í Moggann á helginni um dvöl frændsystkyna sinna á Kumbaravogi. Ég verð nú að segja að ég vissi ekki um tilvist þessa barnaheimilis þar til fyrir skömmu. Manni fallast eiginlega hendur þegar maður les þetta. Börnum er haldið þarna í fangelsi árum saman og ekki einu sinni leyft að hitta fjölskylduna á stórhátíðum eða við serstök tilefni eins og fermingar. Það fólk sem starfaði í s.k. barnaverndarnefndum á þessum tíma hefur haft vægast sagt skrítinn vinkil á tilveruna. Mál unga mannsins sem fannst látinn í slippnum árið 1985stakk mig sérstaklega vegna þess að ég kynntist hinum stráknum sem hlaut sömu örlög í slippnum vestur á Patró fyrir margt löngu. Ég vissi svo sem ekkert um bakgrunn hans en hann var viðræðugóður og skemmtilegur strákur á margan hátt. Maður sá þó að hann átti við einhverja að stríða en það var svo sem ekki óalgengt á þessum árum að það ylti á ýmsu hjá því fólki sem kom út í þorpin á landsbyggðinni á veturna til að fara á vertíð. Þannig var lífið og maður tók þátt í því og vildi ekki hafa misst af þessum árum fyrir nokkurn mun. Mér finnst að það hljóti að vera skylda stjórnvalda að fara ofan í saumana á þessari umræðu ekkis íst þar sem forstöðumaðurinn situr enn í sínum sessi á Kumbaravogu en hefur nú fengið aðra vistmenn. Ásakanir um að barnaníðingur hafi fengið að mestu að leika lausum hala óátalið á heimilinu er náttúrulega svo svakalegt að það nær ekki nokkru tali. Maður sér af álíka málum erlendis að þar fyrsnast svona mál ekki. Má til dæmis benda á klerka Kaþólsku kirkjunnar í Bandaríkjunum sem hafa tekið út makleg málagjöld. Einnig má benda á klaustrin þar sem Margaretusysturnar voru á Írlandi sem ég sá mynd um fyrir ekki löngu. Það er svona álíka dæmi eins og Breiðavík og Kumbaravogur.
Ég sá í Mogganum á laugardaginn að það ætti að sýna Syndir feðranna kl. 14.00 vestur í Háskólabíói og hafa umræður á eftir. Ég fór vestur eftir um kl. 15.00 og spurðist fyrir um þetta í miðasölunni og hjá dyraverðinum. Þar kannaðist ekki nokkur maður við eitt eða neitt í þessum dúr svo ég sneri frá. Síðan sé ég að þessi samkoma var í bíóinu á þessum tíma. Þarna vantaði eitthvað í upplýsingaflæðið.
Ég get ekki sagt að ég sé kirkjurækinn maður. Engu að síður set ég mikinn fyrirvara við þann boðskap Siðmenntar og Vantrúar að hreinsa eigi allt sem tengist kirkju og trú út úr grunnskólunum. Ég hef á sinni árum mikinn fyrirvara á því sem kemur frá fólki sem hefur höndlað sannleikann. það fólk gefst aldrei upp, það situr allra lengst á fundum í þeim tilgangi að knýja fram ályktanir og það er ekki hægt að rökræða við það. Mér finnst að það ætti einfaldlega að hafa almennar atkvæðagreiðslur um svona mál og láta meirihlutann ráða. Það er óþolandi að ör - örlítill hópur fólks skuli vera farinn að stjórna ferðinni í málefnum fjöldans. Þessi viðhorf tengjast mjög þeim vandamálum sem hafa sprottið upp í þeim samfélögum nálægum þar sem islamistar hafa sest að. Þar vill lítill minnihluti sveigja meirihlutann undir sinn vilja og sína skoðun. Þar er aldrei gefist upp, aldrei.
þriðjudagur, desember 04, 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Sæll Gunnlaugur,
alltaf gott og fróðlegt að lesa bloggin frá þér.
Ég er alveg sammála þér í því að feministar virðast oft á villigötum með áherslur sínar og hugsa virðist vera ekki allt til enda sem lagt er af stað með.
Eitt er þó ljóst að þeir( feministarnir) eru að kalla eftir breytingum, sem fljótt oft á litið virðast bara breytinganna vegna.
Ég get ekki ímyndað mér hvernig það er að alast upp sem kvenmaður í okkar þjóðfélagi eða segjum bara okkar menningarheim, við getum víst ekki talist lengur einagrað sker í norðurhöfum. Ég get ekki ímyndað mér hvernig er að alast upp sem dökkur einstaklingur í okkar menningarheimi, en geri mér þó ljóst að eithvað gæti hugsanlega verið til staðar í menningu okkur sem skert gæti sjálfsmynd dökkra einstaklinga sem í henni þrífast. Svona eins og hæg undiralda. Eithvað sem ég tek ekki eftir dags daglega þar sem ég einblíni á hvítfissandi öldutoppa sem eru að snerta líf mitt og mín áhugamál með beinum eða óbeinum hætti. Ég er alveg sanfærður að það er til staðar slík undiralda sem að dætur okkar, mæður og systur hafa alist upp við og lært að lifa með, sumar komast á legg með sterka sjálfsímynd og aðrar ekki svo sterka. Þessar undiröldur sem eru vart merkjanlegar á radar okkar hvítu karlmanna, geta verið ólgusjór í lífi kvenna, hörundsdökkra, gyðinga, osf. Ekki til staðar en samt þarna einhvernvegin til staðar.
Þú þyrftir ekki að vera að velta fyrir þér svona ef allt er með felldu, hvort þú ættir að lesa yfir dóttur þinni feminista pistilinn eða allt er í gúdí svo framarlega sem að þú ert dugleg og með óskerta sjálfsímynd pistilinn.
Ég og þú og feministar og ekki feministar verðum að viðurkenna tilurð þessara fyrirbæra(undiraldna) og reyna af fremsta megni að eyða þeim með öllu. Lítum á mannkyn sem fugl, annar vængurinn eru konur og hinn karlar, bara ef að fullkomið jafnrétti ríkir á milli þessara vængja getur fuglinn flogið.
Skrifa ummæli