sunnudagur, desember 02, 2007

Ég varð þess heiðurs aðnjótandi á dögunum að fá tölvupóst frá skáldinu Hrafni Jökulssyni þar sem hann boðaði til útgáfufagnaðar á bók sinni "Þar sem vegurinn endar" í Iðnó í dag. Slík boð er bæði rétt og skylt að þiggja, ekki síst þar sem verið er að kynna góða bók sem er náttúrulega ekki lítils virði á svona dögum. Margt fólk tók hús á Hrafni í dag og var létt yfir fólki. Maður hittir ætíð alltaf einhverja á svona samkomum sem gaman er að spjalla við. Formann ferðamálanefndar Reykjavíkur á árunum 1990 - 1994 hef ég ekki hitt síðan störfum þeirrar ágætu nefndar lauk, hið milda yfirvald iðnaðarmála var á staðnum og síðan skáldið Þorsteinn frá Hamri sem þekkti mig af Hauki bróður. Bókina fékk ég áritaða af höfundi og er þegar búinn að lesa hana. Hún er enn betri við annan lestur. Margar eftirminnilegar frásagnir eru í bókinni, bæði skemmtilegar en einnig sorglegar. Gaman er t.d. að lesa frásögnina af þvi þegar lítill drengur stendur uppi á Grænlandssteininum með ör dregna á streng og skimar hvasseygur á hóp þýskra eldri borgara sem eru í íslandsreisu og leitar af sér allan grun um að Hitler leynist ekki í hópnum. Það höfðu nefnilega borist af því fregnir norður að það væri ekki öruggt um að hann væri eins dauður eins og af var látið.

Hrafn kynnti á fundinum stofnskrá Vinafélag Árneshrepps sem hefur að markmiði að leggja búsetu í sveitarfélaginu lið og freista þess að koma í veg fyrir að búseta leggist af í þessu fámennasta sveitarfélagi á landinu. Í mínum huga eru ekki mörg ráð sem duga í þeim efnum. Vilja stjórnvöld að búseta í Árneshreppi haldist eða er mönnum bara sama. Það ræður úrslitum í þessu efni. Trygg og góð atvinna er það sem öllu máli skiptir fyrir íbúa þessa sveitarfélags og annarra sem eru í áþekkri stöðu.

Einfaldasta leiðin til að styrkja búsetu á stöðum eins og Árneshreppi, Raufarhöfn og annarra þar sem íbúafjöldi hefur verið hraðfari niður á við er að veita íbúum þessara samfélaga aðgang að fiskimiðunum gegn skilyrði um formlega búsetu og lágmarks dvöl í sveitarfélaginu á hverju ári. Búsetu myndi fylgja kvóti sem væri ekki framseljanlegur né hægt að leigja frá sér og honum myndi fylgja löndunarskylda á staðnum. Þetta er byggðaaðgerð sem myndi skipta sköpum fyrir samfélög sem eiga fárra kosta völ. Þegar maður hugsar um allt brottkastið sem hefur viðgengist á miðunum gegnum árin þá virkar það magn fiskjar sem þyrfti til svona aðgerðar ekki mikið.

Ráðherrar byggðamála og sjávarútvegs og landbúnaðar voru báðir á staðnum og skrifuðu fyrstir undir stofnskrá Vinafélags Árneshrepps á Ströndum. Gaman verður að fylgjast með framhaldinu.

Tók 20 km með Vinum Gullu í morgun. Heldur gott veður til hlaupa.

Engin ummæli: