miðvikudagur, desember 05, 2007

Stefán (þekki marga Stefána)skrifar ágætt komment í framhaldi af því sem ég skrifaði í gær. Ég vil í framhaldi af því skýra mál mitt aðeins betur. Ég veit þekki það mætavel að það hefur ekki verið alltaf verið jafnrétti milli kynjanna hérlendis á liðnum árum og þarf kannski ekki að fara ákaflega langt aftur í tímann til að finna ýmis dæmi þar um. Þau birtust á marga vegu. Þegar ég fór fyrst að vinna í frystihúsi árið 1970 þá voru konurnar á lægri töxtum en karlar. Það var reyndar leiðrétt í næstu kjarasamnngum en svona var þetta. Ég þekki stöðuna í landbúnaðinum eins og hún var þar sem konurnar stóðu fyrir búi og heimili en voru réttlitlar bæði hvað varðaði forsvar fyrir rekstrinum og eignarhald yfir jörðunum og þá ekki síður hvað varðaði félagskerfið. Ég þekki það einnig að það þótti ekki eins sjálfsagt að stelpur færu í nám eins og strákar. Vafalaust hefur víðar verið pottur brotinn í þessum efnum en ég tel það upp sem ég þekki best. Þetta hefur allt breyst vegna þess að tíðarandinn er annar og allir hafa viðurkennt að það fyrirkomulag sem var og sá tíðarandi sem ríkti var ekki sá skynsamlegasti. Hlutirnir breyttust ekki vegna þess að karlarnir væru úthrópaðir sem kúgarar og kvenníðingar heldur áttuðu allir sig á því að tímarnir væru að breytast og menn stóðu saman að því að breyta þjóðfélaginu. Þetta gerðist bæði vegna þess að öflugar og framsæknar konur sóttu eftir breytingum og einnig vegna þess að víðsýnir karlar sáu að hlutirnir voru ekki eins og þeir ættu að vera og hvöttu til breytinga.

Það þótti t.d. á sínum tíma ekki alveg sjálfsagt að konur þjónuðu sem prestar þegar fyrstu konurnar voru prestvígðar en þau viðhorf komu ekkert síður frá konum en körlum. Nú deplar enginn auga yfir því. Þannig má finna fleiri dæmi. Það tekur oft smá tíma að breyta ríkjandi hefðum en reynslan sýnir að það hefur gengið býsna vel hérlendis.
´
Ég fullyrði það að í dag eiga bæði kynin jafna möguleika að sækja sér menntun í skólakerfinu og störf á atvinnumarkaði, bæði hjá opinbera geiranum og í einkageiranum. Konur eru ráðnar og kosnar til æðstu starfa hjá ríki og sveitarfélögum og konur eru ráðnar til allra mögulega áhrifastarfa í einkageiranum. Engu að síður er það fámennur en hávær hópur sem málar sífellt skrattann á vegginn hvað þessi mál varðar í öllum mögulegum og ómögulegum tilvikum. Í þeirri umræðu er eins og ekkert skipti máli nema stjórnarseta í fyrirtækjum á verðbréfaþingi þvi rökin fyrir meintum ójöfnuði á vinnumarkaði eru ætíð sótt í tölfræði um kynjahlutfall í stjórnum þessara fyrirtækja. Því er haldið statt og stöðugt fram að ekkert hafi gerst í jafnréttismálum á liðnum áratugum. Það er hamrað á tommustokksaðferðafræðinni sem þýðir að konur eigi ekki að hafa fyrir hlutunum heldur eigi þær að fá hlutina upp í hendurnar til jafns við karla án þess að þurfa að bera sig eftir því. Jafnréttisiðnaðurinn fjallar aðeins um jafnrétti kynjanna út frá sjónarhóli kvenna en leiðir hugann aldrei að því að það halli á karlmenn í einhverju tilliti. Ég sé til dæmis nú að það er verið að kynna ráðstefnu um hvað borgin getur gert í ofbeldi gagnvart konum. Gott og vel en hvað með ofbeldi gagnvart körlum og börnum. Mér kæmi ekki á óvart án þess að ég viti það nákvæmlega að það verði fleiri karlar en konur fyrir ofbeldi á hverju ári. Ef þetta er rangt hjá mér þá viðurkenni ég vitaskuld staðreyndir.

Ég verð að segja að mér finnst það ekkert skrítið að það missi margir þolimæðina að endingu gagnvart þessari yfirdrifnu síbylju og á það bæði við um konur og karla. Það hefur einkennt þá sem eru öfgafyllstir í þessari umræðu að þeir þola illa gagnrýni. Þeir sem vilja kynna sér slíka hluti betur ættu t.d. að lesa greinar Petru Östergren, sænska feministans, þar sem hún lýsir reynslu sinni af því að vera fryst úti af sænsku feministahreyfingunni vegna þess að hún var ekki sammála þeim um ýmis málefni.

Þeir sem reiða hátt til höggs geta búist við því að það sé tekið á móti þeim. Þá kemur í ljós úr hverju viðkomandi eru gerðir.

Það skal að sjálfsögðu tekið fram að ég þekki vitaskuld mökk af hörkuduglegum konum sem dettur ekki í hug að þær þurfi á neinni sérmeðferð að halda heldur hafa komist þangað sem þær eru á eigin verðleikum og dugnaði og á það bæði við um störf og önnur viðfangsefni. Þar þekkir maður hlaupin einna best. Konurnar þar eru sko aldeilis ekki að biðja um neina sérstöðu heldur keyra áfram á fullu gasi fullar af sjálfstrausti og eru betri en margir karlanna, þar með talinn undirritaður. Þeir sem gerst þekkja til mála fullyrða að konur taki fram úr körlum í vaxandi mæli í ultrahlaupum á komandi áratugum. Það er meðal annars vegna þess að þær hafa hærri sársaukaþröskuld en karlar sem byggist upp með fæðingum barna.

Ég held að ég þurfi að fara að skrifa eitthvað um hlaup, að fer að verða komið nóg af þessari jafnréttisumræðu um sinn.

Engin ummæli: