sunnudagur, desember 09, 2007

Fór út kl. 7.00 á laugardaginn og tók Powerade hringinn í frosti og stillu. Frábært hlaupaveður. Hitti Neil, Jóa og Stebba við brúna um 8.30. Þá var ég farinn að finna dáltið fyrir hásininni á vinstra fætinum svo ég vildi ekki fara mikið lengra en til baka heim. Það gerðu 20 km og lét ég það gott heita. Þeir félagar héldu áfram. Ég hef verið með smá verk í hásinarslíðrinu síðan í Grikklandi en hélt að þetta myndi bara lagast. Það gerði það ekki svo ég ætlaði að klára þetta og fór að nudda auma staðinn með vel völdu kremi. Þá vildi ekki betur til en að þetta bólgnaði allt upp og varð miklu verra eftir en áður hvað sem olli því. Ég þarf að gefa þessu tíma til að lagast. Get vonandi stundað styrktaræfingar á meðan.

Myndaklúbburinn Fókus gefur út myndaalbúm árlega rétt fyrir jólin sem ætlað er félagsmönnum. Nú voru 38 manns sem tóku þátt í verkefninu. Við vorum að líma myndirnar upp á laugardaginn og var það skemmtilegt verkefni. Menn spjalla saman og fræðast hver af öðrum. Ég á einnig myndir í öðru álíka verkefni sem er sett upp á vegum www.ljosmyndakeppni.is. Maður sendir tvær myndir inn í árbókina í gegnum vefinn og síðan kemur út bók. Hún heitir Ljósár 2007 árbók áhugaljósmyndara á Íslandi. Virkilega flott verkefni sem gaman er að taka þátt í.

Í haust rakst ég á vef sem heitir www.blurb.com. Hann er þeirra rnáttúru gæddur að maður getur gert ljósmyndabækur í gegnum hann. Maður hleður forritinu niður og síðan er hafist handa. Hægt er að hafa síðurnar eins margar og maður vill. Maður velur form síðunnar úr mörgum mismunandi valkostum (1 - 4 myndir á síðu) og getur síðan haft bakgrunninn mismunandi litan. Ég gerði tvær bækur í nóvember til að prufa hvernig þetta kæmi út hvað varðar gæðin og prentunina. Ég fékk fyrra eintakið á föstudaginn og varð ekki fyrir vonbrigðum. Flott gæði og mjög snyrtilegur frágangur. Tilvalið að búa til innbundið ljósmyndaalbúm á þennan hátt úr einstaka viðburðum eða öðru því myndefni sem maður vill halda saman. Vel valin tækifærisgjöf. Bókin sem ég fékk á föstudaginn kostar rúma 40 USD hingað komin með öllum sköttum og skyldum. Hún er með 28 myndasíðum og myndum á útsíðum og innsíðum á kápu. Hægt er að skrifa íslenskan texta við myndirnar. Bækur sem gerða eru á vefnum eru kynntar þar og það er því möguleiki að selja þessar bækur ef einhver hefur áhuga. Setti sýnishorn af bókunum inn á síðuna hægra megin.

Fór á jólahlaðborð á Hótel Sögu í gærkvöldi með samstarfsfólki Sigrúnar. Maturinn á Grand hotel var eins og mötuneytismatur samanborið við það sem serverar var á Sögu. Svona eiga jólahlaðborð að vera. Fjöldi exótískra rétta og allir afskaplega góðir. Eftir matinn var söngvasjó sem Hemmi Gunn kynnti. Þar voru Hara systur, Guðrún Gunnars og Bjarni Ara. Þau stóðu sig öll frábærlega. Bjarni er góð tilbreyting frá mörgum öðrum því hann er söngvari en ekki raulari. Guðrún er fín söngkona en þegar hún söng Heyr mína bæn þá áttaði maður sig á því hvað Ellý Vilhjálms hefur verið mikil söngkona. Svo var rúsínan í pylsuendanum, sjálfur kóngurinn. Raggi Bjarna kom í hópinn síðasta klukkutímann og kallinn hefur engu gleymt (nema einstaka textahluta). Hann er flottur orðinn 73 ára gamall. Hemmi tók svo tvö lög í restina og endaði á söng Veiðimannsins úr Rauðhettu. Nördafélaginu í MR hefði líkað að hlusta á það.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hef verið í vandræðum með bólgin sinaslíður í gegnum árin og mér hefur reynst best að :
Passa að ekkert þrýsti á bólguna
Halda svæðinu heitu á hlaupum
og eins og þú ert búinn að komast að : láta það að öðru leyti vera.

Hjá mér er bólga í sinaslíðrum marga mánuði, jafnvel ár að hjaðna en verkurinn er löngu farinn áður en bólgan er hjöðnuð.
Bibba

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir góð ráð Bibba. Ætla að fara eftir þessum ráðum með að halda hita á á fætinum og láta tímann vinna á þessu.