mánudagur, desember 10, 2007

Fór ekker tút að hlaupa á sunndaginn. Ætla að reyna að láta slá á bólguna í löppinni um sinn.

Mér fannst Egill snjall í Silfrinu í gær. Notaði bleika litinn, var með skekkt kynjahlutfall og tók drottningaviðtal þar sem engin gagnrýnin rödd var til staðar. Allt sem hefur verið gagnrýnt var til staðar. Ég hlustaði af athygli á viðtal Egils við þær stöllur þrjár. Maður reynir að finna út hvort það sé maður sjálfur sem sé á rangri braut eða ekki. Niðurstaðan var að ég er eins ósammála málflutningi þeirra eins og hugsast getur. Þá dynur náttúrulega á manni að maður sé á móti jafnrétti kynjanna. Það er eins hægt að spyrja mann hvort maður sé á móti jöfnuði í þjóðfélaginu ef maður er á móti þeim stjórnaraðferðum sem notaðar voru í Kína hér í den tíð. Þar var jöfnuðurinn gríðarlega mikill en því miður því sem næst allir jafn fátækir. Ég er á móti svoleiðis jöfnuði og ég er á móti því kynjajafnrétti sem yrði náð fram með ofstjórn og grímulausri forsjárhyggju þeirra sem telja sig þess hæfa til að hafa vit fyrir almúganum. Í þættinum kom fram að allt skipti máli í þessu sambandi, liturinn á fötunum á fæðingardeildinni skiptu meir að segja máli því allt skiptir máli. Svona lagaður hugsunarháttur fyllir mig hrolli. Það voru reknar nógu margar tilraunastofur í samfélagsfræðum fyrir austan járntjald eftir seinna stríð til að menn ættu að vera farnir að átta sig á því að forsjá lítillar sjálfskipaðar elítu sem veit betur en almúginn hvernig hlutirnir eiga að vera gengur ekki upp.

Það var talað nokkuð um róttækni í þættinum og m.a. skilgreint hvað róttækni er að mati viðmælenda Egils. Ég held ég muni það rétt að Ritari okkar flestra sagði einu sinni frá því í pistlum sínum að hann sat ráðstefnu framhaldsskólanema á árunum upp úr 1970. Ég sat svona ráðstefnu einu sinni og man best frá henni eftir Hannesi Hólmsteini. Ritarinn sagði svo frá að því ég man best að Laugvetningarnir hefðu verið svo róttækir á þessari ráðstefnu að lítt veraldarvanan nemanda að vestan setti hljóðan við að hlusta á alla þessa speki. Ég tel mig muna að Laugvetningar voru á þessum tíma mjög hallir undir Maóismann og töluðu fyrir honum af mikilli ákefð. Nú eru menn svo heppnir að geta borið saman teoríu og praxís hvað þessa ákveðnu tegund af róttækni varðar. Hún var framkvæmd á íbúum stærsta ríkis veraldar um nokkurra áratuga skeið. Ég læt aðra um að meta hvort þeir vildu hafa tekið persónulega þátt í þessu risavaxna tilraunaverkefni en ekki vildi ég það. Þar gengu allir í eins fötum, fólk mátti ekki eiga bók, fólk mátti ekki eiga mataráhöld eða matast heima hjá sér heldur skyldu allir matast í mötuneyti bæjarins og þannig má áfram telja. Þetta hefur vafalaust skilað ákveðinni hagkvæmni og varla hefur mismunandi litur fata á fæðingardeildinni verið þeim til útgjaldaauka. Þetta fyrirkomulag var skipulagt af þeim sem töldu sig vita hvað þjóðinni var fyrir bestu og niðurstaðan er eins og allir eiga að vita.

Menn hafa látið af því á seinni árum að predika ágæti kommúnismans fyrir vesturlandaþjóðum nema í algerum undantekningartilvikum. Kommúnisminn var hér áður gylltur fyrir almenningi sem hið endanlega Eldorado þar sem jafnaðarstefnan ríkti, auðnum væri úthlutað jafnt til allra og allir skyldu fjárhagslega jafnir. Nú er aftur á móti predikað dag út og dag inn fyrir svokölluðu kynjajafnrétti. Karlar eru komnir í hlutverki vonda liðsins samanborið við að borgarastéttin og atvinnurekendur voru það í augum kommúnista. Nú er hamrað á því að það þurfi að rýna í allt þjóðfélagið og endurgera það samkvæmt forskrift hinna vitrustu manna til að uppræta kynjamisréttið. Man einhver eftir umræðunni hér áður um nauðsyn þess að koma á kommúnistiskri byltingu til að koma á alræði öreiganna þar sem kommúnistaríkin byggju við betra þjóðskipulag en gerðist í hinum kapítalisku. Í kommúnistaríkjunum skyldi arður atvinnulífsins renna til verkamannastéttarinnar en ekki til afætanna sem holdgerðust í formi kapítalistanna og borgarastéttarinnar. Þetta fannst mörgum afskaplega rökrétt og í raun hið eina skynsamlega. Reyndin var svolítið önnur. Áður arðrændu kapítalistarnir almenning og kúguðu hann en nú arðræna karlar konur og kúga þær að mati þeirra sem gerst telja sig vita. Mér finnst þessi umræða vera eins og gamall uppvakningur sem búið er að sveipa um nýjum klæðum.

Það er í þessu eins og öðru, menn eru sammála um markmiðin en afskaplega ósammála um aðferðafræðina.

Umræða um mannsal og kynlífsþræla hefur verið fyrirferðarmikil að undanförnu. Í þessu sambandi finnst mér athyglisvert að skoða hvaðan það fólk kemur sem hafnar oftast í þessum hremmingum. Það kemur fyrst og fremst frá Austur Evrópu og síðan er umfangsmikið mannsal í gangi frá Kína. Hvaða eiga þessi lönd sameiginlegt. Jú þau eiga það sameiginlegt að vera þrotabú kommúnismans sem fór langt með að eyðileggja samfélögin í þessum löndum. Eftir stendur fólkið sem fjölmargt á engra annarra kosta völ en að selja sig á þeim versta atvinnumarkaði sem um getur. Ég las t.d. í bresku dagblaði í fyrra að þar var haft eftir þarlendum atvinnurekanda að það væri svo fínt að hafa pólverja í vinnu því þeir sættu sig við allan þann skít og drullu sem hugsast gæti. Af hverju skyldi það vera? Því þeir hafa ekki aðra valkosti.

Það voru dálítið fyndnar fréttir frá Noregi þar sem stjórnvöldu ætluðu að fara að framkvæmda jafnréttið víðar en í stjórnum fyrirtækja á verðbréfaþingi. Þau fóru að boða stelpur í herinn jafnt og stráka. Þá varð allt vitlaust svo það þurfti að hætta við þessa nýju jafnréttisáætlun norðmanna.

Spaugstofan er oftar mjög ófyndin en hitt þessar vikurnar. Þó eiga þeir til spretti. Góð hugmynd að syngja þjóðsönginn undir laginu I Walk the Line. Þetta gekk alveg upp.

Engin ummæli: