Jólin hafa liðið hjá í rólegheitum og að mestu leyti tíðindalaus. Á aðfangadagskvöld reið yfir mikil þruma um kl. 19.00 og eldingarglampinn lýsti upp stofuna. Það er ekki algengt að svona dúndur heyrist hér en það gerist helst í suðvestanátt þegar skúra- eða éljaklakkar ganga yfir. Veðrið á aðfangadagskvöld va rafar fallegt, fullt tungl og logn. Í gærkvöldi vorum við í kvöldmat hjá Kötu mágkonu vestur á Nesi. Undir matnum fóru ýmsir að fitja upp á nefið og tala um reykarlykt. Það var leitað í öllum hornum, slökkt á kertum og allt gert til að leita af sér allan grun innanhúss. Lyktin magnaðist hins vegar svo að meir að segja ég var farinn að fina hana. Svo leit einhver út um gluggann og þá stóð reykjarkófið út frá húsi rétt handan við götuna. Slökkvilið og lögregla kom skömmu síðar og gekk fljótt að slökkva eldinn. þarna hafði kviknað í bílskúr og var allt brunnið og ónýtt sem í honum var. m.a. tvö mótorhjól. Það þarf ekki alltaf mikið að gerast svo af verði mikill skaði. þarna má svo sem þakka fyrir að það varð ekki meiri skaði á húsinu eða nærliggjandi íbúðum. ef gaskútur springur í svona eldi getur húsið stórskemmst með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.
Ég fékk æfisögu Sveins á Kálfskinni í jólagjöf ásamt fleiru. Ég er búinn að þekkja Svein í rúm 30 ár eða frá því þegar ég vann tæpt ár sem ráðunautur hjá Búnaðarsambandi Eyjafjarðar. Sveinn er einn af þessum öndvegismönnum sem eru gríðarlega verðmætir í samfélaginu og er fengur að hafa kynnst. Stórbóndi, framkvæmdamaður, félagsmálatröll, góður félagi og glaðsinna einstaklingur sem smitar lífsgleðinni í allar áttir. Hann er orðinn 75 ára en hefur ekkert breyst frá því ég sá hann fyrst og er alltaf á fullu. Ég vann hjá BSE í tæpt ár 1975/1976. Þá var Sveinn formaður sambandsins og leiddi stjórn þess sem var skipuð ungum og öflugum bændum. Haukur í Gerði, Arnsteinn í Dunhaga, Birgir á Öngulsstöðum og Sigurgeir á Staðarhóli og síðan Sveinn. Í minningunni lifir ein skemmtileg minning öðrum frekar frá þessum tíma. Á þessum árum var KEA allt um lykjandi í Eyjafirði meðal bænda og stóð kaupfélagið næst alföðurnum í huga margra. Ég varð þess þó var þegar ég fór vítt um sveitir og ræddi við bændur að þeir voru ekki alls kostar ánægðir með Kaupfélagið sitt á ýmsa lund en það mátti bara ekki tala um það nema út undir vegg. Fyrir aðalfund Búnaðarsambandsins um veturinn vorum við að velta fyrir okkur stöðu sambandsins og m.a. hvort það ætti að vera fagleg samtök eða hagsmunasamtök bænda. Ævarr Hjartarson, framkvæmdastjóri sambandsins og öflugur forystumaður á hinum faglega vettvangi hélt erindi um þetta efni á aðalfundinum. Ég var settur í að setja upp glærur til stuðnings erindinu þar sem átti að forma myndrænt ýmsar vangaveltur um stöðu búnaðarsambandsins gagnvart bændum. Þar á meðal setti ég upp tvær spurningar um hvert hlutverk sambandsins ætti að vera ef bændur yrðu fyrir erfiðleikum af veðurfarslegum ástæðum eða af hálfu Kaupfélagsins. Það varð í fáum orðum sagt allt vitlaust meðal Kaupfélagsmanna af þessari ósvífni búnaðarsambandsinmanna. Að voga sér að hafa það á orði að bændur gætu orðið fyrir áföllum eða erfiðleikum af hálfu Kaupfélagsins. Kaupfélagsmenn fóru mikinn og skömmuðust út í búnaðarsambandið, stjórn þess og starfsmenn þar til það kom í ljós að þessi framsetning var runnin frá vestfirskum unglingsbjálfa sem var þarna í tímabundnu starfi. Þá róuðust þeir þegar ljóst var að það var ekki að gera um sig bylting meðal eyfirskra bænda. Þessi ólga hjaðnaði síðan eins og hver annar vindur í vatnsglasi en það dapurlega var að það liðu ekki nema örfá ár þangað til Kaupfélag Svalbarðseyrar fór á hausinn með ómældum hremmingum fyrir þá bændur sem sátu í stjórn þess við gjaldþrotið. Þeir höfðu skrifað undir ábyrgðir í góðri trú sem stjórnarmenn en þegar gjaldþrotið varð staðreynd þá sátu þeir í súpunni. Við tóku fleiri ára málaferli þar sem þeir börðust fyrir því að halda jörðum sínum. Þá var engin elsku mamma af hálfu þess altumlykjandi kaupfélagsveldis. Þarna fengu bændur það högg beint í andlitið sem menn voru að ræða um að gæti hugsanlega gerst á búnaðarsambandsfundinum nokkrum árum áður og fengu vægt sagt litlar þakkir fyrir. Löngu seinna sögðu þessir ágætu bændur sem sátu í stjórn búnaðarsambandsins að þeir hefðu þegar frá leið haft svolítið gaman að því að það hefði þurft ungling vestan af fjörðum til að opna augu þeirra fyrir því að kaupfélagið með öllum sínum kostum væri ekki hafið yfir gagnrýni, jafnvel þótt KEA héti.
miðvikudagur, desember 26, 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli