Sopranos serían kláraðist á fummtudaginn. Það er mikil eftirsjá að henni. Drullusokkarnir í New Jersey voru orðnir eins og heimilisvinir sem maður sér eftir að fá ekki í heimsókn lengur. Sopranos er sería sem hægt er að jafna á við þær bestu eins og Matador og Dallas. Endirinn var frábær. Allt í einu var allt svart og síðan byrjaði textinn að rúlla upp skjáinn. Maður er eiginlega viss um að T var drepinn á veitingahúsinu, kannski öll fjölskyldan því það var ekki vanalegt að hún færi út saman að fá sér hamborgara og allt komið í þokkalegt jafnvægi hjá þeim þessa stundina. Það var allt orðið andbrekkis hjá þessum kumpánum. Mágurinn dauður, Chris var drepinn á heldur snautlegan hátt af stórfrændanum T, Sil grænmeti inni á sjúkrahúsi, gamli frændi orðinn senil á elliheimili og Paulie búinn að taka að sér verkefni sem hafði þann skugga yfir sér að allir sem höfðu sinnt því fram til þessa höfðu verið drepnir. Það tókst meir að segja að gera senuna ógleymanlega þegar Phil var drepinn með því að láta afturhjólið á bílnum fara yfir hausinn á honum steindauðum. Önnur sena af ótal mörgum kemur upp í hugann þegar Paulie var búinn að gera einhvern skrattann en blöðruhálskrabbinn plagaði hann á sama tíma svo hann var dálítið meyr inni við beinið. Því fór hann í heimsókn til mömmu sinnar eftir ódæðið og horfði með henni á norska þjóðdansa í sjónvarpinu til að róa hugann. Maður verður að kaupa seríuna á CD til að geta kíkt í heimsókn af og til.
Það var ágætt viðtal við Jón og Höllu í Hvestu í Fréttablaðinu í dag. Ég þekkti þau hér á árum áður eins og fleiri sem maður kynntist á góðum stundum á böllum fyrir vestan. Þau fóru ung að búa í Ketildölum við erfiðar aðstæður en hafa með mikilli vinnu og dugnaði komið sér vel fyrir. Nú búa þau við rafmagnsframleiðslu eftir að hafa virkjað vatnsföllin í Hvestudalnum. Fólki hefur fækkað mikið þar í sveit eins og svo víða þarna fyrir vestan og má segja að það sé barist hús úr húsi við að halda búsetu á þessum slóðum. Þau lýsa vel því sem hefur gerst eftir að umræða um að byggja olíuhreinsistöð í Hvestudalnum fór á flug fyrr á þessu ári. Tvennt gerðist í kjölfar þess. Í fyrsta lagi fóru öfundargenin af stað og baknagið byrjaði að grassera. Margir sáu ofsjónum yfir þeim ímyndaða gróða sem þau gætu ef til vill kannski haft út úr því að stöðin yrði sett niður þarna í dalnum. Í annan stað fóru þeir sem eiga sumarbústaði utar í firðinum að reyna að hafa áhrif á þau í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að stöðin yrði reist á þessum slóðum. Þessi afstaða sýnir vel viðhorfið gegn því fólki sem enn berst fyrir þvi að geta átt framtíð í fjörðum vestur. Þessu fólki finns tvoða gaman að koma vestur þegar það á frí en það er líka voða gott að þurfa ekki að búa þarna allan ársins hring að margra mati. Þegar á síðan að breyta einhverju til hagsbóta fyrir þá sem enn búa þar heilsársbúsetu þá verður allt vitlaust.
Ég sá nýlega haft eftir bæjarstjóranum í Vesturbyggð að heilsársbúseta væri horfin að hans mati á þessu svæði að óbreyttri þróun innan fimmtíu ára. Ég held að hann sé að ætla þessu of langan tíma ef ekkert gerist annað en það sem er í spilunum í dag, því miður. Það þarf margt að breytast til að hægt sé að snúa þróuninni við. Það má segja að rafræna samgöngukerfið sé orðið allt að því eins mikilvægt og samgöngur á landi ef þessi samfélög eiga að geta þróast eins og samfélagið gerir í heild sinni. Ef svo er ekki þá verður ójöfnuðurinn sífellt meiri og meiri, aðstöðumunurinn meiri og meiri og þar kemur að eitthvað mun undan láta. Ég hljóp fram hjá olíuhreinsunarstöð í sumar á leiðinni frá Aþenu til Corinth í Grikklandi. Þarna var náttúrulega saman kominn gríðarlegur massi af pípum og tönkum en annars var þetta bara eins og hver önnur verksmiðja. Ég varð ekki var við mengun til vandræða.
Er farinn að hlaupa inni í Laugum. Tek líka styrktaræfingar. Mér finst ég vera í mun betra formi en í fyrra um þetta leyti. Löppin er að skána svo þetta lítur allt heldur vel út.
laugardagur, desember 15, 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli