Ég skrópaði í Sólstöðuhlaupið, því miður. Það kemur alltaf á daginn að það eru aðrir hlutir sem eru mikilvægari á þessum tíma árs og þannig er það bara. Halldór og Svanur héldu fánanum hátt á loft og rúlluðu hringinn. Neil lauk löngu morgunhlaupi fyrsta hálftímann með þeim en svo kallaði kærastan sem lenti í Keflavík skömmu eftir hádegið. Þeir félagar fengu fínt veður alla leiðina en Halldór sagðist hafa verið orðinn nokkuð þreyttur enda ekki hlaupið langt í nokkurn tíma. Svanur gaf sig hins vegar hvergi og er til alls líklegur á komandi mánuðum og misserum, enda hnén nýuppskveruð.
Anna systir var með sína árlegu skötuveislu í kvöld. Hún heldur hefðinni við og það er afskaplega gaman að borða þennan magnaða mat. Einhversstaðar heyrði ég að hefðin fyrir skötuáti á Þorláksmessu hefði byrjað þannig í árdaga að með því að hafa heldur bragð"vondan" mat á Þorláksmessu þá hefði sjálfur jólamaturinn bragðast enn betur þegar hann var borinn fram. Sel það ekki dýrara en ég keypti en nú er fátækramaturinn orðinn hefð um land allt og þykir hinn fínasti matur.
Fórum niður á Laugaveg eftir skötuna og hlustuðum á <3 Svanhvít spila í portinu á móti Skífunni. Krakkarnir stóðu sig vel og var vel gert hjá þeim að halda út í rúman klukkutíma í kuldanum.
mánudagur, desember 24, 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli