miðvikudagur, desember 19, 2007

Ég hitti snjallann Orkneying í Grikklandi í haust, William Sichel sem kláraði Spartathlon með miklum sóma og varð 9. Hann hljóp síðan 6 daga hlaup í Monaco og vann það, náði um 840 km á þessum tíma. Ég rakst nýlega á viðtal við hann þar sem hann fer meðal annars yfir Spartathlon og sex daga hlaupið. Magnaður maður.
Viðtalið er hér: http://www.stv.tv/content/news/headlines/display.html?id=opencms:/news/newArticle8792075

Staksteinar í Mogganum eru oft ágætir og þar er komið á framfæri beittum athugasemdum. Í morgun brá þo svo við að þar sé ég einn þann heimskulegasta texta sem ég hef séð lengi. Hann sýnir kannski frekast hvað þessi kynjaumræða er komin út í mikla vitleysu og út yfir allt sem vitrænt er. Í Staksteinum var enn og aftur fjallað um að það sitji jafnmargar konur í stjórnum fyrirtækja á verðbréfaþingi eins og fyrir tveimur árum síðan og þeim hafi ekki fjölgað hlutfallslega. Síðan er fullyrt að fyrir liggi kannanir sem sýni að fyrirtæki sem hafi konur í stjórn skili meiri langtímahagnaði en fyrirtæki þar sem einungis karlar sitji í stjórn. Síðan er skýrt frá því að í fyrradag hafi verið kosið í stjórn Icebank, fimm karlar í stjórn og fimm karlar í varastjórn. Hvað veldur? spyrja Staksteinar. Vilja fyrirtækin ekki tryggja mikinn langtímahagnað? og svo kemur gullkornið: Ætlar nýr viðskiptaráðherra, Björgvin G. Sigurðsson, að beita sér í þessu máli??!!!

Staksteinar eru sem sé að beina því til viðskiptaráðherra að hann liggi yfir fundargerðum fyrirtækja á verðbréfaþingi og grípi í taumana og leiðrétti kúrsinn þegar hann metur það svo að stjórnir og aðalfundir fyrirtækjanna hafi tekið heimskulegar ákvarðanir. Ef að það eru viðtekin sannindi sem meðal annars hafi verið staðfest óyggjandi í rannsóknum að fyrirtæki sem hafa kynjablandaða stjórn skili meiri langtímahagnaði þá er það heimskulegt að hafa stjórnir fyrirtækja samstetta af bara öðru kyninu. Slík heimskupör ætla Staksteinar sem sé viðskiptaráðherra hverju sinni að leiðrétta.

Það má vera að viðskiptaráðherrar Sovétríkjanna á stjórnartíð Stalíns og Kína á Maótímanum hafi m.a. haft það hlutverk með höndum að beina stjórnendum einkafyrirtækja af villu síns vegar þegar greindarskortur réði för en ég hélt satt að segja að ráðherrar í lýðræðisríki hefðu öðrum hnöppum að hneppa í vinnunni. Nema Staksteinar og þar með Mogginn vilji taka upp kommúniskt stjórnarfar. Það er kannski málið. Spyr sá sem ekki veit en hvað á maður að halda?

Ég horfði nýlega á þátt í sjónvarpinu sem fjallaði um stöðu kvenna í Afganistan. Í þættinum var lýst svakalegri stöðu kvenna í landinu sem mótast af miðaldahugsunarhætti þarlendra karla sem stjórnast að trúarofstæki islamista. Sjálfsmorðstilraunum þarlendra kvenna hefur fjölgað gríðarlega. Þær reyna að fremja sjálfsmorð með því að hella á sig steinolíu og kveikja í sér. Það gera þær í örvinglan þegar öll sund virðast lokuð. Margar deyja en sumar eru svo óheppnar að lifa af og þurfa að búa þaðan í frá við ólýsanleg örkuml og endalausar hörmungar. Maður skilur svo sem á vissan hátt eftir að hafa horft á þetta að konur klæðist burka í svona löndum. Konur eru í svo ömurlegri stöðu í þjóðfélaginu að þær halda í ögn af sjálfsvirðingu með því að láta kúgarana ekki sjá framan í sig. Það er betra að líta út eins og andlitslaust tjald með gægjugati en að þekkjast og hafa enga undankomuleið gagnvart karlaumhverfinu. Pedófílismi grasserar síðan þarna meðal annars í skjóli trúarinnar. Barnungar stelpur niður í 7 ára gamlar eru giftar (seldar) harðfullorðnum körlum. Sumar þeirra sjá enga aðra útgönguleið nema þá sem steinolían býður upp á.

Manni leið bara illa við að horfa á þetta. Hérlendis er aftur á móti fjasað fjöllum hærra um hve konur eru kúgaðar af karlafjöndunum og yfirleitt notað sem hin æðstu rök að konum hafi ekki fjölgað í stjórnum fyrirtækja á verðbréfaþingi.

Engin ummæli: