þriðjudagur, maí 26, 2009

Ég hef hlaupið fjórum sinnum á Borgundarhólmi. Í öll skiptin hefur hellirignt annað hvort daginn áður en hlaupið byrjaði eða daginn eftir að því lauk. Nú kom rigningin kvöldið áður. Ég var nýkominn í hús á sumarhúsahverfinu í Galökken þegar byrjaði að hellirigna og það var alvöru rigning. Eldingarnar dönsuðu í skýjunum og þrumurnar hömruðu á þakinu. Glamparnir voru enn á gluggunum þegar ég sofnaði. Maður vonaði bara það besta fyrir morgundaginn. Þá hafði skipt um og komið dæmigert íslenskt vorveður, um 10°C hiti, sólfar og golukaldi. Ég rölti niður í bæ á föstudagsmorguninn og keypti mér morgunmat og síðan fylgdi rauðvín og bjórdollur með með sem gott var að hafa í farteskinu um sunnudagskvöldið. Kim var á fullu við að gera klárt ásamt fleirum og ýmsir lausir endar sem þurfti að hnýta. Þetta var í annað skiptið sem 48 tíma hlaup er haldið á þessari braut en 24 tíma hlaupið hefur verið haldið nokkrum sinnum áður. Kim er mikill hlaupari. Við vorum herbergisfélagar í Spörtu í haust og síðan hlupum við báðir Western States árið 2005. Hann hefur einnig lokið Badwater sem er eitt það aldjöfullegasta hlaup sem um getur. Ég borðaði vel og fór síðan að gera mig kláran. Það er alltaf ákveðin spenna í þessum fasa, hefur maður gleymt einhverju, mun eitthvað koma upp á, hvernig er maður undirbúinn? Ég hafði hlaupið frekar lítið í maí mánuði til að fá smá álagsmeiðsli í hnénu góð. Ég fann ekki annað en að það væri allt orðið gott en það kæmi í ljós hvort það væri rétt mat.

Í markinu voru keppendur að safnast saman. Ég þekkti ekki marga en þó var heimakonan Gurli Hansen þarna en ég hljóp nokkuð lengi með henni fyrir fimm árum þegar ég fór mitt fyrsta 100 km hlaup á Borgundarhólmi. Hún leiðbeindi mér þá um ýmislegt og gaf góð ráð. Nú var hún að fara í 48 tíma hlaup í fyrsta sinn. Hún hafði undirbúið sig vel yfir veturinn og meðal annars vaknað fyrir vinnu flesta morgna til að hlaupa. Einnig hafði hún tapað nokkrum kílóum. Það gerir allt léttara. KG Nyström var einnig þarna. Hann er fullorðinn svíi um sjötugt sem hefur tekið þátt í fleiri hundrað ultrahlaupum. Í fyrra tók hann þátt í 14 hlaupum og fór að jafnaði yfir 200 km í þeim, þrátt fyrir að hafa hækjur með. Hann segir að kerfið ætli honum frekar pláss í hjólastól en á hlaupabraut en KG er þrjóskur og þver. Stór svíi heilsaði mér. Þar var kominn Stefan Lindvall en hann hafði m.a. tekið þátt í Spartathlon í fyrra og hitteðfyrra en ekki náð að klára í hvorugt skiptið. Hann setti sænskt met í 48 tíma hlaupi á hlaupabretti í vetur og hljóp þá 291 km. Hann lauk Marathon de Sables hlaupinu árið 2005. Einnig var þarna finnsk kona sem hafði verið áður í 24 tímum sem ég kannaðist við í sjón. Svo þekkti ég finnskan hlaupara sem hafði lokið Spartathlon tvisvar.
Ég ætlaði að leggja út á svipaðan hátt og áður. Hlaupa fyrstu þrjá tímana, fara þá að ganga spöl á hverjum hring og lengja það síðan eftir 12 tíma. Ég vissi að ef maður fer of skarpt út í svona löngu hlaupi getur það komið í bakið á manni þegar á líður. Þetta er því hárfínn línudans ef hámarksárangur á að nást. Ég setti mér að ná 180 km fyrri sólarhringinn og samtals yfir 300 km í heildina. Sæti í hlaupinu skipti miklu minna máli og ég gerði mér engar sérstakar væntingar í þá áttina. Þó hafði ég séð á yfirliti yfir fyrri hlaup þáttakenda að ég átti ágætis lista miðað við ýmsa aðra.
Maður var vel klæddur í síðum buxum, langerma peysu og blússu. Það var ekki hlýtt. Mér fannst ég vera hálf stirður fyrstu klukkutímana eftir að hlaupið hófst. Líklega komu þar fram frekar lítil hlaup síðustu vikurnar. Eftir nokkra klukkutíma fór skrokkurinn allur að liðkast og maður varð sáttari við sjálfan sig. Ég hélt hraða sem svaraði 10 km á klukkutíma sem þykir ekki mikið í skemmri hlaupum en ég vissi að því myndi maður ekki halda mikið yfir hálfan sólarhring í svona löngu hlaupi. Eftir þrjá klukkutíma fór ég að ganga rúma 100 metra á hverjum hring. Þrátt fyrir það datt dampurinn ekkert niður en það fór betur með fæturnar. Yfirlit um heildarvegalngd hvers hlaupara var hengt upp strax eftir hvern klukkkutíma svo maður fylgdist mjög vel með hvernig hlaupið gekk fyrir sig. Ég var lengi framan af í 5-6 sæti og var bara sáttur við það. Stefán hinn sænski tók strax forystuna og ég sá að hann myndi skrefa drjúgt ef ekkert kæmi upp á. Ég kláraði 60 km á um sex tímum og 100 km á eitthvað yfir 10 klst og var mjög sáttur við það. Það var eiginlega betra en ég hafði búist við. Var ég kannski að fara of hratt? Ég ákvað að hægja enn meira á mér eftir 12 tíma og fór að ganga lengra á hverjum hring. Á þessum tíma fór þó strax að bera á einhverju sem ég átti ekki von á. Ég fékk stærðar blöðru á milli tánna. Það hafði ég aldrei fengið áður. Ég plástaði tána og skipti um skó og sokka. Einnig fór klofsæri að gera vart við sig. Það er ekki þægilegt. Maður drakk mikið og svitnaði því mikið. Kannski hefði ég átt að fara í hitaæfingar eins og fyrir Spartathlon. Þetta var ekki alltof gott því það voru 36 klst eftir.
Tíminn leið frekar fljótt og nóttin datt á á ellefta tímanum. Ég drakk Herbalife prótein blöndu á þriggja klukkutíma fresti og það virkaði fínt eins og í fyrri hlaupum. Orkan var í fínu standi. Annað borðaði ég ekki nema bita af Löparlarssons orkubitum af og til. Annars var nóg að borða af hálfu hlaupsins en það freistaði mín ekki. Kökur, kex og sælgæti eru ekki minn pakki. Ekki heldur franskbrauð. Rúsínur eru ekki góðar því þeim fylgir mikill vindgangur. Bananar eru hins vegar í lagi. Um nóttina fór að bera á öðrum vandræðum. Ég hafði fundið fyrir smá nuddi á hásinina á vinstri fætinum en uggði ekki að mér. Þegar ég skoðaði svo fótinn þá var hann orðinn nokkuð bólginn. Ekki vissi það á gott. Nú voru góð ráð dýr. Ég skar skóinn niður að aftan og það lagaði nuddið en skaðinn var skeður. Bólgin hásin er ekki skemmtileg í löngum hlaupum.

Tíminn leið og planið hélt þrátt fyrir einar og aðrar uppákomur með blöðrur og skafsár. Ég þreifaði mig áfram með buxur næst mér og fann loks þær sem særðu mig minnst. Á slaginu hálf fimm vöknuðu allir fuglar skógarins og morgunskíman varð stærri og stærri. Sólin kom upp um kl. hálf sjö og þá fór allt að verða skemmtilegra. Reyndar fannst manni að fyrri sólarhringurinn hefði liðið ótrúlega fljótt. Það er allt svo afstætt. 24 tíma hlaup er ekki langt miðað við 48 tíma. Það er hins vegar langt miðað við 100 km eða maraþon. Við Stefán náðum vel saman, skokkuðum oft saman og spjölluðum margt. Með tímanum hafði ég þokast upp röðina og varð orðinn í 2. sæti þegar þarna var komið. Nokkrir voru hins vegar skammt á eftir og ég vissi ekki alveg hverjir það voru. Þegar leið nær hádegi sá ég að 180 km markið myndi náðst mjög auðveldlega. Þrátt fyrir ákveðnar heitstrenginar um að taka því rólega þegar því væri náð og fram að hádegi þá gerði maður það náttúrulega ekki. Þegar klukkutími var eftir var ég kominn vel yfir 190 km. Því sá ég allt í einu fram á að komast yfir 200 km markið á fyrri sólarhringnum. Stefán var þegar öruggur með það. Tvö hundruð km á 24 tímum er draumamarkið og það hljóp því í mig einhver kraftur sem ég vissi ekki að ég hefði til. Eymslin hurfu og ég náði níu hringjum á síðasta klukkutímanum og fór vel yfir 200 km. Það var miklu meira en ég átti von á áður. En þetta kostaði dálítið. Ég þurfti að taka töluverðan tíma í að skvera fótunum í lag því blöðrunum hafði fjölgað við tiltækið og einnig stirnuðu fæturnir fljótt eftir svona hrossaálag að afloknu 23 klst hlaupi (og aðrir 24 eftir). Ég fór því rólega næstu þrjá klukkutímana til að láta fæturna jafna sig og ná jafnvægi. Síðan gekk allt betur. Á þessum tíma fór aftur á móti að draga af Stefáni. Hann hafði fengið álagsmeiðsli í vinstri fótinn og fór að ganga meir en áður. Það dró því saman með okkur smátt og smátt. Ég varaði mig þó á því að fyllast einhverju bráðakappi því það gæti komið mér í koll siðar. Á hinn bóginn hafði bilið í þriðja manninn lengst og var um 30 km eftir sólarhring. Enn vissi ég ekki hver hann var en hann var finnskur eftir nafninu að dæma. Klukkutímarnir liðu smám saman án þess að vandræðin jykjust nema að blöðrurnar voru ekki til að flýta fyrir manni. Þeim fjölgaði meðal annars af því að til að hlífa hásinareymslunum þá hljóp maður með öðrum hreyfingum en vanalega. Það setti álag á nýja staði og það var ávísun á fleiri blöðrur. Undir miðnættið sögðu starfsmenn mér að ég væri kominn fram úr Stefáni og kominn með forystu. Á sama tíma sá ég að ég þyrfti að safna mér aðeins betur saman. Ég fann að ég var orðinn aðeins ringlaður og jafnvægisskynið ekki upp á það besta. Ekki væri gott að rjúka flatur út í skóg. Ég sagði því til með að ég þyrfti að leggja mig smá stund hvað sem öllum sætum liði. Þarna voru til staðar tjöld og dýnur sem sumir notuðu sér ótæpilega. Ég stakk mér niður í svefnpoka og bað um 30 mínútur. Maður fór úr hundblautum fötunum og hlýnaði fljótt. Þó var langt í frá að ég gæti sofnað. Eftir hálftíma var ýtt við mér eins og ég bað um. Það var ekki beint þægilegt að tína á sig rennblaut og ísköld fötin en það var ekkert annað í stöðunni. Maður skalf eins og hundur en vaknaði þó alla vega almennilega. Svo skrefaði maður af stað og liðkaðist fljótt. Ég sá að þetta hafði ekki haft mikið að segja hvað röðina varðaði. Stefán hafði þó náð mér en finninn lagt sig eins og ég. Ég fór töluvert hraðar yfir en Stefán og náði þannig forystu fljótlega aftur. Á fjórða tímanum sótti allt í sama farið aftur með hausinn og þá bað ég um teppi, vafði því utan um mig og lagðist út af um stund í grasið við hliðinu á tjaldinu. Ekki náði ég að sofna en var miklu brattari þegr ég fór aftur af stað og nú var orðið stutt í birtuna. Finninn hafði heldur nálgast og ég bjóst við að hann ætlaði sér að smjúga aftan að okkur ef við hefðum farið of hratt af stað. Ég var heldur fljótari á hlaupum en hann en hann hljóp oftar. Ég fór eitt sinn fram úr honum sem oftar. Vanalega hafði hann ekki skipt sér að því en nú reyndi hann að hanga. Þá það, þá skyldum við bara láta á það reyna hvor héldi lengur út. Ég hljóp því nokkra hringi með finnann á hælunum þar til hann gaf sig. Það skiptir ekki öllu máli hvað þú ert heldur hvað aðrir halda að þú sért. Eftir þetta fannst mér hann verða afslappaðri og einbeitti sér líklega að því að ná vel yfir 300 km og halda þriðja sætinu með sóma. Við spjölluðum töluvert saman eftir þetta og þetta var vitaskuld viðmótsþýður og fínn drengur. Maður brýtur oft ísinn í svona samskiptum með því að hrósa fólki fyrir góða frammistöðu. Allir eru í sama bátnum í svona dæmi.
Þegar 42 klst voru liðnar þá var forystan orðin það góð að ég fór að einbeita mér að þvi að halda henni örugglega án þess að leggja of mikið á fæturnar. Ég gekk því kraftgöngu síðustu sex tímana. Bæði var hásinin orðin þannig að hlaup voru ekki það sem menn langaði mest í og einnig fjölgaði blöðrunum frekar en hitt. Ég sá að ég færi vel yfir 300 km þannig að því markmiði var náð. Sigur í hlaupinu væri því óvæntur bónus.
Þegar fór að líða á hlaupið fór ég að borða meir af borðinu þar sem mótshaldarar lögðu fram veitingar. Rúnnstykki, pasta og pizzur. Ég gerði það fyrst og fremst til að halda lystinni almennilega í gangi því það er svolítið leiðigjarnt að borða alltaf það sama í nær tvo sólarhringa. Smám saman fór ég að taka eftir því að hraðinn fór minnkandi. Bensíntankurinn var að tæmast því þessi matur (ef mat skyldi kalla) gaf manni einfaldlega ekki næga orku. Þegar tæpur klukkutími var eftir fékk ég mér því góðan próteindrykk á nýjan leik. Það var eins og við manninn mælt. Orkan kom aftur á svipstundu og ég gekk létt og greiðlega síðustu hringina þar til niðurtalningin byrjaði kl. 12.00. Það var ánægjuleg tilfinning að setjast niður á stól og vita að þessu mikla hlaupi væri lokið með öruggum sigri. Það var meira en ég hafði einu sinni hugsað um sem möguleika. Vegalengdin fyrri sólarhringinn hefði dugað í fjórða sæti í 24 tíma hlaupinu ef ég hefði tekið einvörðungu þátt í því. Að hlaupinu loknu var létt yfir hópnum. Það var nauðsynlegt að fara strax í þurr föt því maður hríðskalf frá hvirfli til ilja þegar hreyfingunni sleppti. Það var ánægjulegt að ná settu marki og að ekkert slæmt hafði komið upp á. Blöðrur jafna sig á nokkrum dögum en það tekur langan tíma að jafna sig á vonbrigðum yfir því ef maður hefði gert einhverjar megin vitleysur eða undirbúið sig ver en maður hefði getað gert.

Við hlaupalok tilkynnti Kim að næsta ár yrði sex daga hlaupi bætt við. Það er bara þannig. Góður svefn gerir oft lítið úr miklum heitstrenginum um að gera eitthvað aldrei aftur.

Þegar maður fer yfir hlaupið þá var ýmislegt sem maður hefði getað gert betur og er til að læra af því.
1. Líklega hefði verið skynsamlegt að fara í nokkrar hitaæfingar til að ræsa svitakerfið almennilega. Ég var ekki sáttur við hvað ég svitnaði mikið og þurfti því mikið að drekka.
2. Ég varð var við óvanalega mikla bjúgmyndun bæði á höndum og fótum. Ég er ekki vanur því. Ég tók dálítið af söltum sem líklega hefur ekki verið snjallt. Þau binda vökvann í skrokknum.
3. Ég hafði í athugunarleysi reimað skóna of þétt að framan. Það olli blöðrumyndun milli tánna.
4. Ég hafði ekki hlaupið skóna nógu vel til sem ég notaði. Það ásamt bjúgmynduninni gerði það að verkum að hásinin fór að nuddast.
5. Án þess að það kæmi að sök þá reyndi ég það svo áþrifanlega að það borgar sig ekki að svindla á næringunni. Herbalifið er einfaldlega fínn næringargjafi í svona hlaupum og það er engin ástæða til að halda fram hjá því.
6. Ég þarf að gera eitthvað róttækt í nærbuxnamálum. Maður á að forðast bómull eins og pestina.
7. Ég fékk ábendingu um að smyrsli sem notuð eru á smábörn séu miklu betri en vaselínið við svona aðstæður. Þarf að reyna að nálgast það.

5 ummæli:

Stefán Gísla sagði...

Til hamingju enn og aftur með þetta ótrúlega afrek! Og takk fyrir frásögnina. Það er ævintýri líkast að lesa þetta. Og svo er það líka uppörvandi fyrir svefninn. Það teygðist nefnilega aðeins úr vinnudeginum hjá mér. En nú sé ég að ég þarf ekki að kvarta neitt yfir hátt í 5 tíma nætursvefni. Svoleiðis er náttúrulega bara lúxus! :)

Nafnlaus sagði...

Frábær frásögn sem við hinir lærum af ef við skyldum einhvern timann leggja í svona ævintýri.
Steinn J.

Bjarni Stefán sagði...

Heill og sæll og innilega til hamingju með þetta frábæra afrek. Sigur í mikilli mannraun og frábær timi.


Bjarni Stefán

Biggi sagði...

Til hamingju með enn eitt glæsilegt afrek! Gaman að geta fylgst svona vel með íþróttamanni á heimsmælikvarða. Þú sýnir og sannar að með réttu hugarfari er hægt að ná lengra en flesta dreymir.

Kveðja góð,
Birgir Sævarsson

Gisli sagði...

Gunnlaugur!
Þú ert Maðurinn!
Aðalritarinn.