Ég keypti tvær bækur í gær sem er náttúrulega ekki í frásögur færandi - og þó. Báðar eru heldur sérstakar. Maður kaupir helst ekki venjulegar bækur. Sú fyrri er skrifuð af Bjarna Guðleifssyni prófessor á Möðruvöllum í Eyjafirði. Hann skýrir þarna frá því skemmtilega verkefni sem hann og nokkrir félagar hans áttu við í ein tólf ár. Verkefnið var að ganga á hæsta fjall í hverri sýslu. Þarna var ekki um kappgöngu að ræða af neinu tagi heldur fjallgöngur sem voru farnar göngumönnum til ánægju og yndisauka. Það sló hugmynd í höfuðið á Bjarna og síðan vatt þetta upp á sig. Það avr svolítið merkilegt að það var ekki einfalt að finna út hvert var hæsta fjall í hverri sýslu. Þeir gengu á þrjú fjöll í þessari seríu sem reyndust svo ekki vera hæsta fjall sýslunnar. Þá var að ganga aftur á rétt fjall. Bjarni sagði mér frá þessu verkefni fyrir nokkrum árum og nú er það komið út á eigulegri bók sem var lítil hugmynd fyrir allnokkrum árum. Þótt Bjarni eigi ekki digital vél og taki myndir eingöngu á filmuvél þá prýða bókina fjölmargar fínar myndir af staðháttum og ferðalöngum. Þetta er fín viðbót í æ stækkandi stafla bóka sem fjalla um útivist á Íslandi.
Seinni bókin er ekki um útivist heldur um útrás og hvernig hún tók snögglegan endi. Það er hin umtalaða bók "Sofandi að feigðarósi" sem Ólafur Arnarson hefur skrifað. Hann fjallar í henni um bankahrunið, aðdraganda þess og ótrúlega atburðarás vikurnar á eftir. Þrátt fyrir að hann fjalli þarna um mjög viðkvæma hluti og dregur ansi skarpar ályktanir af ýmsum hlutum þá hefur bókin ekki fengið mikla gagnrýni. Það fær mann til að trúa því að honum hafi tekist nokkuð vel með þessa sagnaritun og fari ágætlega rétt með. vafalaust hefði hún verið rifin í tætlur ef á henni hefðu verið miklir meinbugir. Efni hennar er svo viðkvæmt og niðurstaðan það hastarleg. É stuttu máli er það niðurstaða hans að fyrrverandi formaður bankastjórnar Seðlabankans hafi verið algerlega vanhæfur í starfi. Mistök hans séu það mörg, stór og afdrifarík að það sé ekki hægt að þegja yfir því. Keisarinn hafi ekki verið í neinum fötum.
Mér finnst það mjög hraustlegt hjá Ólafi að skrifa þessa bók. Hann var innmúraður í flokkinn hér á árum áður, aðstoðarmaður menntamálaráðherra og framkvæmdastjóri þingflokks sjálfstæðismanna. Þess þá heldur er það vel af sér vikið að skrifa mikilvægan kafla í samtímasöguna þar sem fyrrum samstarfsmönnum hans og yfirboðurum er hvergi hlíft.
föstudagur, maí 08, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Gunnlaugur. Þessi bók hans Ólafs Arnarsonar um bankahrunið hefur einmitt verið rifin í tætlur, t.d. af Bjarna Harðarsyni (sjá amx.is). Þessi bók er einstaklega rætin í garð Davíðs Oddssonar þannig að maður fær eiginlega á tilfinninguna að þarna sé leigupenni á ferðinni. En gangrýnisleysið á útrásarvíkingana er ótreúlegt. Litli sæti Jón Ásgeir og Kaupþingsmennirnir voru bara svona klárir og sætir. Hvers vegna er ekki talað um gríðarleg eignatengsl í íslensku viðskiptalífi þarna og hvernig eigendur bankanna misnotuðu þá í eigin þágu? Þessi bók er áróðursbók og á að skoða í því ljósi.
Skrifa ummæli