Ég verð nú að segja að það verður að gera þá kröfu til þeirra sem ræða við fólk sem hefur farið illa út úr fjármálahruninu hérlendis að þá séu viðmælendur valdir af smá kostgæfni. Án þess að ég fjölyrði um það nánar þá get ég fullyrt það að ég hefði aldrei ráðið við það prívat og persónulega að kaupa mér gott raðhús á 100% lánum og hafa tvo bíla þar fyrir utan að mestu leyti á lánum miðað við þau laun sem ég hef haft í gegnum tíðina. Það verður að gera smá kröfur til fólks að það sýni smá fjárhagslega ábyrgð. Það heitir að sníða sér stakk eftir vexti. Ef maðurinn sem rætt var við í Kastljósi í kvöld var hættur að borga af lánunum í september þá hefur eitthvað verið þar á ferðinni annað en hrun bankanna. Margt fólk er í miklum erfiðleikum þrátt fyrir að það hafi sýnt þokkalega varfærni í fjármálum sínum. Það ætti frekar að ræða við einhverja úr þeim hópi en fólk sem var búið að gefast upp í september því þar hékk annað á spýtunni.
Ég fæ ekki skilið rökin fyrir því að halda því fram að það eigi að skila láninu frá AGS og taka þess í stað lán í Svíþjóð eða Noregi. Í fyrsta lagi er lánið frá AGS geymt á vöxtum í bandaríska Seðlabankanum og því er vaxtakostnaður af því ekki mikill. Í öðru lagi finnst mér svona málflutningur vera álíka og ef maður væri kominn með allt niður um sig í persónulegum fjármálum og bankinn gerði kröfur um að maður tæki sig á í eyðslunni ef hann myndi skuldbreyta lánunum. Þá yrði maður fúll, bölvaði þessum frekjum og héldi að lausnin væri að skipta bara um banka í þeirri von að þar væru gerðar minni kröfur um að maður sýndi aukna ráðdeild og sparsemi svo veislan gæti haldið áfram. Þetta er ekki trúverðugt.
Ég held að ég sé orðinn góður í hnénu. Það verður alla vega látið á það reyna í fyrramálið. Ég hafði gert ráð fyrir að fara að trappa álagið niður um næstu helgi svo þetta skiptir ekki öllu máli til eða frá. Ég fékk bréf í dag frá Kim. Þar er verið að lýsa aðstæðum á Borgundarhólmi. Brautin er heldur styttri en í fyrra eða rúmur kílómeter. Það verður rafmagn til staðar svo maður getur látið hlaða Ipod eða einhverja aðra tónhlöðu. Ekki mun af veita. Ég les á www.blogg.se að sumir í Evrópuhlaupinu eru orðnir nokkuð lúnir. Trond var mjög glaður í dag yfir að þeir fengu kjöt og kartöflur að borða. Hingað til höfdðu þeir fyrst og fremst fengið pasta og hakk að borða á kvöldin. Það er fáránlegur kostur við svona risaverkefni. Menn þurfa almennilegan mat en ekker trusl. Á morgun fara þeir yfir landamærin milli Ítalíu og Austurríkis. Nú bíða alparnir.
þriðjudagur, maí 05, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli