sunnudagur, maí 31, 2009

Þegar tekist er á við ultrahlaup þá byggist árangur í þeim upp á þremur megin þáttum. Þeir eru æfingar, andlegur agi og mataræði. Allt þetta verður að spila saman til að ná árangri. Æfingar eru undirstaða árangurs, það þarf aga til að fara í gegnum nauðsynlegt æfingaprógramm og næringin þarf að vera í lagi til að æfingarskili sér. Ég hafði ekkert hugað sérstaklega að næringarþættinum þar til fyrir tiltölulega stuttu nema með þetta hefðbundna, gel og Carbó loade ofan á venjulegan mat. Carbó loadið datt þó fljótlega út. Ég hef aldrei carbólódað síðan í Western States eftir að það hélt fyrir mér vöku nóttina fyrir hlaupið. Ég las eftir Rune Larsson að carbo Loade dugar ekki nema í 3-4 tíma og í hlaupi sem tekur hálfan, heilan eða þaðan af lengri tíma þá hefur það ekkert að segja. Gerir jafnvel verr en ekki. Ég fór síðan að borða mjög vel fyrir löng hlaup, helst kjöt og fisk. Ég fann að það gerði mér gott og orkan hélst lengur. Maður heldur henni ekki uppi langtímum saman í gegnum brauð og sælgæti. Síðan náði ég upp á enn einn hjallann í þróunarbrautinni þegar ég fór að nota próteinduft. Ég hefði ekki trúað því að óreyndu að nokkrar matskeiðar af dufti með ákveðnu millibili héldu manni gangandi einn til tvo sólarhringa. Ég hef fyrst og fremst notað Herbalife prótein. Ég veit ekkert hvort það er það besta en það hefur alla vega reynst mér vel. Ég byrjaði aðnota það fyrir tæpum tveimur árum og þá fyrst og fremst í tengslum við langar æfingar. Ég get fullyrt það að það gerir mér kleyft að þola mun meira æfingaálag en fyrr því betra næringarástand á skrokknum gerir það að verkum að hann er betur búinn til að standast áreynslu og er fljótari að jafna sig. Ég fæ mér alltaf tvær góðar matskeiðar út í tæpan hálfan líter af mjólk eða djús áður en ég fer í tveggja tíma hlaup eða lengri. Þegar ég kem heim fæ ég mér svo sama skammt nema bæti við einni skeið af recoverydufti. Þetta fæ ég mér strax og ég kem inn, áður en ég fer í sturtu. Ég prufaði Herbalifið í 24 tíma hlaupinu í fyrra. Í upphafi lagði ég út með að fá mér hálfan líter á fimm tíma fresti. Ég fann að það var of langur tími svo ég stytti hann í þrjá tíma. Það hentar mér vel. Tuttuguogfjögurratíma hlaupið í fyrra gekk vel svo ég ákvað að nota þessa formúlu áfram. Ég fór Laugaveginn og Fimmvörðuháls í júlí í fyrra og notaði einvörðungu Herbalifeblönduna á ca 13-14 tíma ferð. Ég notaði hana einnig í tvöföldu maraþoni í Reykjavíkurmaraþoninu. Sama var uppi á teningunum í Haustlitahlaupinu, 2 x 65 km í Barðastrandarsýslum í ágústlok. Síðan kom aðal prófraunin, Spartathlonhlaupið sem tók rúma 34 klst. Þar gekk allt upp eins og best var á kosið. Í vetur notaði ég Herbalife við allar lengri æfingar eins og ég hef lýst. Í 48 tíma hlaupinu um síðustu helgi notaði e´g það alfarin nema ca síðsutu sex klukkutímana. Þá fór ég að halda fram hjá því, fyrst og fremst til að fá smá tilbreytingu fyrir bragðlaukana. Ég áttaði mig á því að orkan seig niður smátt og smátt en þegar ég fékk mér góðan hristing um klukkutíma fyrir hlaupalok, þá streymdi ný orka um fæturnar.
Ég tel mig því ekki þurfa meir vitnanna við hvað mig varðar um hvaða næring hentar mér best sem undirstaða við mikið æfingaálag og sem grunnnæring í löngum hlaupum. Maginn getur verið viðkvæmur undir miklu álagi. Eins kostar það meiri orku að melta fasta fæðu heldur en uppleysta. Næringin er því forsenda þess að aðrir þættir skili þeim árangri sem að er stefnt.

Allir sem vilja vita eiga að þekkja til hvernig heimsvaldastefna Maós hefur leikið Tíbeta í rúm 60 ár. Markvisst hefur hið volduga Kína stefnt að því að eyða einkennum Tíbet sem þjóðar og innlima það að fullu sem hérað í Kína. Við gætum sjálfa okkur séð í þeirra sporum ef Danir hefðu t.d. leikið sama leikinn hérlendis. Þegar ríkisstjórn Íslands varð fyrst þjóða til að viðurkenna sjálfstæði Eystrasaltslandanna þá sást hvaða áhrif smáþjóð getur haft. Mér finnst það vægast sagt snautlegt að enginn ráðherra ríkisstjórnarinnar skuli geta gefið sér tíma til að hitta Daili Lama, sameiningartákn Tíbeta, þegar hann kemur hingað. Að maður tali nú ekki um forsetann, þann mikla friðarpostula. Smáþjóð á að standa með undirokaðri smáþjóð. Það bætir stöðuna ekkert þótt einhver ráðherranna segist ætla að kaupa sig inn á samkomuna í Laugardalshöllinni. Skömmin er kannski einmitt þess meiri.

Engin ummæli: