Það hefur lítið verið hlaupið undanfarna daga. Tíminn hefur bara farið í annað enda í lagi. Hvíldarperíódan er hafin fyrir hlaupið um aðra helgi. Það verður eitt og eitt rólegheita hlaup en ekkert erfiði.
Við Jói fórum með Fókusfélögum austur í friðland í Flóa á sunnudaginn. Það er alltaf gaman að koma þarna uppeftir. Nú vantaði bara veðrið. Það hékk þurrt en dimmt yfir og lágskýjað. Fuglalífið er að komast í góðan gír og verður gaman að fara þarna austur eftir í góðu veðri þegar birtan er eins og hún þarf að vera. Við fórum einnig niður i fjöru og við gömlu bryggjuna er afar skemmtilegt fuglasvæði þar sem brimið skolar þaranum á land. þar er fullt af tildru, lóuþræl og rauðbrystingum sem eru að fara að láta sjá sig. Þangað þarf maður að koma aftur.
Ég las skemmtilega bók um daginn. Hún var um Hrafnkel A. Jónsson austfirðing og Jökuldæling sem lést fyrir aldur fram fyrir nokkrum árum. Hrafnkell var einn af þessum félagsmálatröllum sem gaf sér alltaf tíma til að til að vasast í félagsmálum. Verkalýðsfélagið, sveitarstjórnarmál og flokkspólitík. Meir að segja var hann formaður íþróttafélagsins Á Eskifirði í ein 8 ár þegar engin annar fékkst til þess. Á mynd af honum með strákum frá Eskifirði sést meir að segja einn sem varð síðar atvinnumaður í fótbolta. Svona menn eru gulls ígildi enda þótt þeir fari stundum sínar eigin leiðir og séu ekki ætíð í vinsældakeppni. Þeir austfirðingar sem komu að því að taka saman þessa bók um Hrafnkel eiga sóma skilið fyrir það.
Víkingar töpuðu á sunnudaginn enn einum leiknum sem þeir höfðu komist yfir í. Það er vonandi að þetta tap verði þeim holl lexía fyrir sumarið. Stuðullinn á að Ólsarar myndu vinna leikinn var yfir 9.
Það er gaman að fylgjast með bloggi þeirra sem eru að hlaupa Evrópuhlaupið mikla. Alls eru 24 dagar liðnir af þeim 64 sem hlaupið tekur. Vegalengdin er 65 - 80 km á dag. Nú er hópurinn kominn til Þýskalands. Merkilegt að skipulagið er ekki í lagi. Íþróttahúsin sme þeir eiga að sofa í eru svo lítil að menn þurfa næstum því að slást fyrir plássi fyrir svefnpokann. Hlaupið var skipulagt fyrir um 40 hlaupara en síðan lögðu alls um 70 manns af stað. Til viðbótar bætast svo hlauparar við sem hlaupa nokkra daga með hópnum. Það er ekki til að bæta stöðuna. Grundvallaratriði er að fá næga hvíld við svona átök. Eins var maturinn ekki í lagi. Hakk og spaghetti er engin undirstöðufæða eftir nær tvær vikur í röð.
Lög þurfa ekki að vera flókin eða íburðarmikil svo þau séu eftirminnileg. Innlegg Ísraels í Evróvision fyrir 22 árum er manni enn í fersku minni. Þarna voru greinilega engir stílistar í forgrunni heldur réði einfaldleikinn ferðinni. Viðlagið var oft raulað af vilja meir en getu þegar lítill drengur var svæfður þetta árið en það dugði alltaf jafn vel.
þriðjudagur, maí 12, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli