Ég las tvær bækur í ferðinni út. Það er gott að nota tímann í flugvélum og flugstöðvum til að lesa bækur. Fyrri bókin var seinna bindi sögu Eldeyjar Hjalta. Það er mögnuð saga sem Guðmundur Hagalín skráði. Þetta eru bara nöfn fyrir flesta en bak við þá báða er mikil saga. Annars vegar sem skrásetjara og hins vegar saga fátæklings sem reis upp og varð þjóðhetja sem skráði nafn sitt á spjöld sögunnar. Hjalti var alinn upp á venjulegu sveitaheimili austur í Skaftafellssýslu en eftir að faðir hans dó var heimilið leyst upp og honum komið í vist hjá vægt sagt vondu fólki (alla vega var kellingin það). Sem dæmi um aðbúnaðinn þá stækkaði hann ekkert í fjögur eða fimm ár frá 12 ára aldri til 17-18 ára. Þrátt fyrir að vera hálfdrepinn oftar en einu sinni úr vosbúð og vondum aðbúnaði þá slökknaði aldrei á honum og skapið var óbugað. Hann komst síðan til Vestmannaeyja og þar fór hann að hjarna við. Þar var nóg pláss fyrir kröftuga stráka sem vildu spjara sig. Hann flutti svo í Garðinn og síðar til Reykjavíkur. Hjalti var ótrúlegur klettamaður og vann sér það til frægðar að klifra Eldey fyrstur manna. Það hefur ekki verið einfalt, sérstaklega þar sem bergið slúttir fram yfir sig á kafla. Hann var ætíð síðar kenndur við þá frægðarför. Hjalti varð síðar umsvifamikill skipstjóri og útgerðarmaður og græddist fé. Á efri árum vann hann við kaupsýslu og fór víða um lönd í verslunarerindum, bæði til að kaupa skip eða láta smíða þau svo og í tengslæum við fyrirtækið Kol og Salt. Þetta e rmögnuð saga um mann sem reis úr sárri fátækt, styrktist við hverja raun en var alltaf með báða fætur á jörðinni. Honum þótti ekki mikið á sínum bestu árum að standa tvo sólarhringa í brúnni þegar mikið lá við. Hann gleymdi aldrei uppruna sínum og lagði hendi þar sem slíkt átti við. Meðal annars greiddi hann götu ungs drengs norðan úr Hælavík sem hafði löngun til að mennta sig með þvi að útvega honum stöðuga vinnu. Það var ekki sjálfgefið á þessum árum. Þessi drengur úr Hælavíkinni var Þórleifur Bjarnason námsstjóri sem skrifaði m.a. hina merku Hornstrendingabók.
Seinni bókin var Draumalandið eftir Andra Snæ. Ég var sáttari við hana eftir lesturinn nú en í fyrra þegar ég las hana enda þótt ég sé jafn ósáttur við fortíðarþrá hans til landbúnaðarins eins og hann birtist. Ég þekki hann mæta vel af eigin raun og þarf ekki að láta segja mér neitt í þeim efnum. Þetta var stanslaust puð til að tryggja skepnunum nóg fóður og alltaf sömu áhyggjurnar yfir því að nægt heyr væri í hlöðunni. Það var ekki fyrr en vélarnar komu að þetta fór að vera áhyggjuminna. Enda þótt Andra Snæ hafi þótt gaman að heimsækja afa sinn norður á Melrakkasléttu þá held ég að hann hafi ekki nokkurt einasta vit á því hvað hann er að tala um í þessum efnum. Á hinn bóginn get ég tekið undir margt annað sem hann er að fjalla um. Meðal annars er skírskotun hans til píramídanna áhugaverð. Einn píramídi kallaði á annan. Eru virkjanafjárfestingar meðal annars knúðar áfram af hagsmunum fyrirtækja sem eru sérhæfðar í stórum verkum. Hvað gerist ef þau fá ekki vinnu við hæfi? Fer þá allt uppíloft? Mér finnast þessar spekulationir eiga fullan rétt á sér? Hvað skila þeir gríðarlegu fjármunir sem settir eru í stóriðju mörgum ársverkum. Munu samsvarandi fjármunir skila fleiri ársverkum á einhvern annan hátt í einhverjum öðrum verkum. Það er áhugavert að velta fyrir sér á hverju danir lifa í auðlindalausu landi. Þeir eiga að vísu gott land og frjósamt en þar fyrir utan er það einungis hyggjuvitið sem fæðir þá og klæðir. Íslendingar hafa lengst af einbeitt sér að því að böðlast áfram beint af augum. Fyrst í fiskinum og nú í virkjunum en hafa varla litið til hægri né vinstri eftir öðrum valkostum. "Hvað er hægt að vera að dútla við þetta grefils fitl í sólskininu?" sagði Jón sterki á grasafjallinu.
Ástríður Pétursdóttir hélt útskriftarveislu frá MR í dag. Hún flutti inn á hæðina fyrir neðan okkur í Huldulandinu forðum daga með fjölskyldu sinni rétt eins árs gömul. Þær systurnar og strákarnir okkar voru og eru jafnaldra. Ofan í kaupið eigum við Ástríður sama afmælisdag. Við höfum haldið góðum kunningsskap við fjölskyldu hennar síðan í þá góðu daga í Huldulandinu. Í sumar vinnur Jói hjá pabba hennar norður í Mývatnssveit. Ástríður stefnir á brattann og ætlar að þreyta inntökupróf í læknisfræðina innan skamms.
föstudagur, maí 29, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli