Heimsmeistaramótið í 24 tíma hlaupi var haldið í Bergamo á Ítalíu nú um helgina. Til að komast á það þarf maður að hafa hlaupið lengra en 180 km á síðustu tveimur árum. Ef maður hefur hlaupið yfir 200 km þá hefur maður ákveðinn forgang og ef maður hefur hlaupið yfir 220 km þá fær maður ferðir greiddar. Það vissi ég ekki í fyrra. Það hefði verið gaman að taka þátt í mótinu. Það er ekki á hverjum degi sem maður hefur tækifæri til að taka þátt í heimsmeistaramóti. Ég lét það liggja milli hluta að sinni en skoða það kannski á næsta ári. Maður verður að setja takmörkin einhversstaðar. Þetta kostar bæði tíma og peninga. Alls tóku rúmlega 200 manns þátt í hlaupinu að þessu sinni. Sigurvegari varð Henrik Olsson frá Svíþjóð en hann hljóp rúma 257 kílómetra. Það er næst besti árangur Norðurlandabúa frá upphafi. Rune Larsson hefur einn hlaupið lengra eða um 264 km. Alls hlupu 25 hlauparar lengra en þá 217 km sem ég hljóp á Borgundarhólmi í fyrra og 65 hlauparar náðu yfir 200 km.
Alls hafa 73 norðurlandabúar hlaupið lengra en 200 km í 24 tíma hlaupi frá árinu 1979. Þá varð finninn Marrti Moilainen fyrstur norðurlandabúa til að rjúfa þennan magiska múr með því að hlaupa 205,8 km. Árangur minn í fyrra upp á 217,8 km setur mig í 30 sæti norðurlandabúa frá upphafi.
Evrópuhlaupið gengur vel. Í dag var fimmtándi dagurinn. Þeir hafa verið að hlaupa í kringum 70 km á dag flesta dagana. Nokkrir eru hættir, fyrst og fremst vegna beinhimnubólgu. Eiolf hefur átt í nokkrum erfiðleikum en virðist vera að jafna sig. Trond félagi hans frá Noregi er mjög sterkur og er í sjöunda sæti. Svíarnir taka það rólegar og eru í 21. sæti. Þeir eru búnir að fara yfir Pósléttuna og næst bíða Alparnir. Þá byrjar fjörið fyrir alvöru.
Það er fleira að gerast á Ítalíu. Berlusconi er í einhverjum vandræðum. Það sýnir sig að það sem gengur á einum stað getur farið þversum ofan í aðra. Hérlendis hefur það þótt sýna sérstaka pólitíska visku að setja ungt og óreynt fólk framarlega á framboðslista, ég tala nú ekki um ef um er að ræða stúlkur. Það þykir sýna framsýni, nútímaleg vinnubrögð, jafnréttiskennd og ég veit ekki hvað. Berlusconi forsætisráðherra Ítalíu hefur einnig tileinkað sér þessi vinnubrögð. Hann þykir hafa farið mikinn að undanförnu í að velja ungar stúlkur án nokkurrar pólitískrar reynslu á framboðslista Lýðræðisflokksins til Evrópuþings. Að óreyndu hefði maður búist við að hann væri hylltur fyrir vikið. En það er nú eitthvað annað. Í stað þess að fá enn eina rósina í hnappagatið þá verður allt vitlaust í landinu. Hann er hæddur og smáður og konan hans ætlar að skilja við hann. Það er erfitt að gera svo öllum líki.
Maður heyrir það að einhverjum hlakki til að hér muni ríkja verðhjöðnun. Umræðan snýst um að þá lækki húsnæðislánin. Lengra nær hugsunin ekki. Verðbólga er slæm en verðhjöðnun er miklu verri. Hver kaupir eitthvað í dag ef maður býst við að það verði ódýrara á morgun? Enginn. Ef verðhjöðnun nær að festa rætur mun permafrost ríkja í samfélaginu. verslun mun dragast saman, framkvæmdum er frestað, umsvif opinberra aðila og einkafyrirtækja munu minnka. Peningar munu safnast upp því þeir hafa engin verkefni. Þrátt fyrir að þeir verði ódýrir þá verða þeir ekki notaðir því hver kaupir í dag ef verðið verður lægra á morgun.
sunnudagur, maí 03, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli