Fór út í morgun og tók 12 km morgunhlaup. Hvasst og kalt. Hnéð var í lagi svo ég held að þetta sé orðið gott. Þetta hefur líklega verið einhver þreyta sem þurfti bara smá tíma. Það er bara eins og gengur og allt í lagi með það.
Nú eru Evrópuhlaupararnir komnir til Austurríkis. Sautján dagar búnir. Mörgum sem heyra á þetta minnst finnst þetta bara vera tóm klikkun. Það er hins vegar bara spurning hver er klikkaður í þessu samhengi. Það er engin klikkun að takast á við verkefni sem maður ræður við en það er nær því að vera klikkun að færast meir í fang en maður stendur undir. Ultrahlaup komu mjög seint til Íslands. Okkar nágrannaþjóðir eiga margra áratuga sögu í þessum málum. Það eru ekki nema tíu ár síðan að Ágúst Kvaran hljóp 100 km fyrstur íslendinga. Það þótti mikið afrek á sínum tíma. Nú eru um 25 íslendingar búnir að hlaupa 100 km. Svona þróast hlutirnir hratt þegar einhver brýtur ísinn. Það eru 30 ár síðan fyrsti norðurlandabúinn hljóp yfir 200 km í 24 tíma hlaupi. Það eru um 150 ár síðan fyrsta 24 tíma hlaupið var þreytt. Það eru tvö ár síðan ég hljóp fyrsta 24 tíma hlaup íslendings. Þannig mætti áfram telja. Margra daga hlaup eru algeng erlendis. Við eigum eftir að brjóta þann ís. Þetta er allt spurning um hvað maður vill. Við erum bara langt á eftir okkar nágrannaþjóðum í þessu efni. Því ættum við að leggja mat á hlutina með það í huga í stað þess að býsnast og fárast með upphrópunum.
Gauti náði frábærum tíma í New Jersey hlaupinu á sunnudaginn. Hann hljóp maraþonið á 2 klst 44 mín. Bæting um ca 3 mín frá New York í fyrra. Gauti er ekkert unglamb lengur svo þetta er enn magnaðra fyrir vikið. Svona kallar og hans líkar eiga að fara að takast á við alvöru vegalengdir. Þeir munu ekki síður njóta sín þar.
Það var magnaður leikur hjá Man. Udt á Emerites Stadium í kvöld. Svona spila bara meistaralið.
Ég má til með að láta fylgja hér með uppáhaldslag Gísla aðalritara. Hinn geðþekki tónlistarmaður Mickie Krause flytur lagið Geh doch zu Hause. Textann er að finna í athugasemdum á www.malbein.net svo áhugasamir geti aðeins áttað sig á innihaldi textans.
þriðjudagur, maí 05, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli