Ég komst ekki í Haustmaraþonið sökum anna svo ég fór minn eigin veg í dag. Ég lagði af stað undir hálf sjö og fór tvo Eiðistorgshringi eða 40 km. Ég var kominn heim kl. tæplega 10:00. Þá þurfti ég að gera eitt og annað en lagði aftur af stað upp í Breiðholt um kl 12:00. Þar var ráðgert smá skokk og ganga í tengslum við Breiðholtsdaga sem styrktaraðgerð við Grensássöfnunina. Ég kom við í markinu í Elliðaárdalnum. Þar var fólk að drífa að í hálfu og heilu maraþoni. Veðrið lék við hlauparana enda náðust fínir tímar bæði í hálfu og heilu. Sannkallaður hátíðisdagur. Hópur fólks var samankominn við Breiðholtslaugina. Edda Heiðrún Backmann, sú mikla kempa, fjallaði aðeins um hvers vegna verið er að safna fyrir Grensásdeildina og borgarstjórinn skaut hópnum af stað. Svo var gengið og skokkað dálitinn spöl eftir aðstæðum hvers og eins. Að því loknu var safnast saman í Gerðubergi, teygt, spjallað, og þorstanum svalað. Síðan rúllaði ég heim aftur. Nokkrir tugir þúsunda söfnuðust en Guðrún frænka mín forstöðukona í Gerðubergi er búin að setja sér ákveðið markmið í söfnun fjármuna sem hún ætlar að ná á næstunni. Fínn dagur.
Ég sé á textavarpinu að formaður VG hefur áhyggjur af því hvernig stjórnsýslan yrði ef ráðherrar létu undan þrýstingi hagsmunahópa. Þessar áhyggjur hans koma til vegna þeirrar gagnrýni sem umhverfisráðherra hefur orðið fyrir í sambandi við ákvörðun hennar um umhverfismat í sambandi við fyrirhugað álver í Helguvík. Ég tek alveg undir þessi sjónarmið formannsins. Það væri ekki burðug stjórnsýsla ef ráðherrar sveifluðust fyrir veðri og vindum í afstöðu sinni eftir því hvernig hljóðin og hávaðinn væri í einstökum þrýstihópum. Umhverfisráðherra er ekki eini ráðherrann sem hefur orðið fyrir harðri gagnrýni á undanförnum dögum. Dómsmálaráðherra hefur einnig fengið sinn skammt af gagnrýni vegna þeirrar ákvörðunar sinnar að vísa nokkrum hælisleitendum úr landi á dögunum. Ráðherra hefur vísað í ákveðið regluverk í því sambandi. Umhverfisráðherra hefur þó fengið hljóð á þeim fundum þar sem hún hefur flutt mál sitt og rökstutt afstöðu sína en óhljóðin í gagnrýnendum dómsmálaráðherra voru slík á fundi í HÍ á dögunum að ráðherrann mátti hverfa frá fundinum án þess að geta flutt mál sitt. Áhrifamenn í VG hafa einnig gagnrýnt dómsmálaráðherra í blöðum fyrir ákvörðun sína. Enn hef ég ekki séð að neinn samráðherra dómsmálaráðherra í ríkisstjórninni hafi varið hana opinberlega. Þó skal ég fúslega viðurkenna að ég hlusta ekki á allar útvarpsstöðvar og margir spjallþættir fara fram hjá mér. Því geta ýmsir hafa borið blak af dómsmálaráðherra án þess að ég hafi heyrt það. Blöðin les ég hins vegar reglulega og margar netfréttasíður. Mér þykir hins vegar mjög eðlilegt að það sama gildi um stjórnsýslu innan dómsmálaráðuneytisins og innan umhverfisráðuneytisins að hún sé principföst og fylgi ákveðnu regluverki ella geti illa farið.
Ég var að horfa á diskinn "Shin a Light" sem er tekin á konsert Rolling Stones frá árinu 2006. það er hreint magnað hvernig þessir karlar halda sér. Það er nú ekki eins og þeir hafi lifað neinu heilsulífi gegnum tíðina, alla vega ekki sumir þeirra. Charlie er fæddur 1941 og Mick og Keith eru fæddir 1943. Þeir eru sem sagt farnir að potast þarna töluvert á sjötugsaldurinn. Engu að síður er Jagger eins og strákur á skrokkinn, hleypur og hamast. Hann er þó orðinn aðeins farinn að snjást í framan. Keith er orðinn þannig að hann eldist líklega ekki meir í framan en spilar sem aldrei fyrr. Hljómurinn sem þeir senda frá sér er einstakur. Það nær honum engin hljómsveit. Maður hefur séð ýmsar hljómsveitir sem hafa lifað sjálfan sig svo rækilega að það er hreint tragiskt. Rollingarnir eru hins vegar orginal. Það var synd að konsertinn á Benidorm féll niður fyrir fimm árum síðan. Líklega fór þar eina tækifærið forgörðum sem ég mun fá til að sjá þá.
laugardagur, október 24, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli